1.7 C
Selfoss

Sigurvegari „Eurovision kóranna 2019“ heldur tónleika í Skálholti

Vinsælast

Danski verðlaunakórinn Vocal Line sækir Ísland heim og heldur tónleika í Skálholtskirkju fimmtudaginn 12. september kl. 20. Hér er einstakt tækifæri fyrir Íslendinga að kynnast hlið kórsöngs sem þekkist lítið hér á landi enn sem komið er, en er orðin útbreidd víða í Evrópu.

Vocal Line syngur rytmíska samtímatónlist í nýjum og skapandi útsetningum sem unnar eru sérstaklega með Vocal Line í huga. Þau flytja ábreiður eftir tónlistarmenn á borð við Bon Iver, Sting, Aurora, Peter Gabriel, Tori Amos og Nick Cave. Þá hefur hefur Vocal Line um langt skeið haft ákveðna tengingu við Ísland, og m.a. sungið lög eftir Björk, Ásgeir Trausta og hjónin Helga Jónsson og Tinu Dickow, sem nú eru búsett á Íslandi.

Vocal Line syngur í 10-12 röddum og alltaf án undirleiks. Söngvarar kórsins, sem eru 30 talsins, ná með einlægri innlifun og listrænu skynbragði að skapa einkennandi hljóm og þannig snerta huga og hjörtu áheyrenda á hverjum tónleikunum á fætur öðrum. Þau fylla tónleikasali í Danmörku, Þýskalandi og víðar í Evrópu og hafa í gegnum árin öðlast mikla viðurkenningu fyrir starf sitt. Vocal Line hefur unnið til fjölda alþjóðlegra verðlauna, síðast „European Voices Award“ fyrr á árinu auk þess sem þau sigruðu „Eurovision kóranna 2019“ nú í ágúst. Þá hefur Vocal Line haft heiðurinn af að syngja með heimsþekktum tónlistarmönnum á borð við Bobby McFerrin í New York og Rolling Stones á Hróarskeldu hátíðinni.

Vocal Line hefur frá upphafi haft það að markmiði að vera í fararbroddi á lands- og alþjóðavísu varðandi þróun á rytmískum kórsöng og leita margir rytmískir kórar innblásturs í þeirra starf. Kórstjórinn, Jens Johansen, er þekktur víða í Evrópu fyrir brautryðjandi starf á sviði a cappella kórtónlistar gegnum áraraðir, og vann hann ákveðið frumkvöðlastarf þegar hann stofnaði Vocal Line árið 1991. Kórinn hefur allar götur síðan einblínt stöðugt á að finna nýjar leiðir fyrir a cappella tónlistina og stefnir alltaf á hærri brautir.

Hinn breski John Rutter, tónskáld og tónlistarframleiðandi, var einn dómaranna í Eurovision keppninni og hér er brot úr hans ummælum um Vocal Line: „It is hard to believe that this amazing choir consists of amateur singers, because their professionalism is complete, in every aspect. Tuning, rhythmic precision, balance, blend, style, vocal percussion . . . all flawlessly locked into place to add up to a finely polished performance that can satisfy the most demanding professional as much as the general listener.”

 

Miðasala á tónleikana í Skálholtskirkju fer fram á tix.is og við innganginn. Miðaverð: 4.500 kr.

 

Siguratriðið:

https://www.facebook.com/eurovisionchoir/videos/509011693258119/UzpfSTEwMDAwMjE4MzY1NzQyNDoyMzI0NDU3MTg3NjM3MDQ3/

 

Nýjar fréttir