STÖÐUG ÁSKORUN AÐ BÆTA ÞJÓNUSTU
Samhliða fjölgun íbúa og miklum straumi ferðamanna hefur eftirspurn eftir heilsugæsluþjónustu hjá HSU aukist mikið. Raunar svo, að heilsugæslan hefur illa getað mætt þörfum íbúa á vestur svæðinu í umdæminu og bið eftir læknistíma hefur verið allt að sex vikur. Það er auðvitað of langur biðtími fyrir almenn erindi þó svo að bráðaerindum sé ávallt sinnt. Við höfum gert ýmislegt á undarförnum misserum og árum til að bæta aðgengi að heilsugæslunni en viljum gera enn betur. Langur biðtími hefur svo, í sumum tilfellum, valdið talsverðu álagi á bráða- og slysadeild HSU Selfossi, en þangað beinum við eingöngu þeim sem eiga nauðsynlegt erindi vegna bráðra veikinda.
Skipulag og verklag heilsugæslunnar á Selfossi hefur lengst af verið hefðbundið og sambærilegt því sem tíðkast víðast hvar annars staðar. Notendur hafa hringt inn til að panta tíma og mætt til læknis þegar loksins fæst laus tími. Í sumum tilvikum eru veikindi yfirstaðin þegar sjúklingurinn hittir loksins lækni og voru kannski aldrei þess eðlis að læknishjálpar væri þörf. Erindin eru oft einnig þess eðlis að hægt er að leysa þau með öðrum hætti en með viðtalstíma hjá lækni. Í öðrum tilvikum hafa læknar vísað sjúklingum til annarra innan heilbrigðiskerfisins.
Þessu fyrirkomulagi viljum við gjarnan breyta í þá átt að sem flestir fái skjóta afgreiðslu erinda sinna þegar leitað er til heilsugæslu HSU á öllum starfstöðvum. Víða er boðið upp á hjúkrunarstýrðar móttökur og samvinna fagstétta er ávallt íbúum til hagsbóta.
Með einfaldri breytingu á verk- og skipulagi hefur starfsfólk heilsugæslunnar hjá HSU á Selfossi gjörbylt þessari þjónustu. Flestir notendur eru mun ánægðari með þjónustuna, starfsfólk er ánægðara í starfi og umtalsverð hagræðing orðið í rekstrinum.
FLEIRI VEIKIR SJÚKLINGAR KOMAST NÚ FYRR AÐ Í VIÐTAL HJÁ LÆKNI
Á liðnum vetri ákvað HSU að ráða til starfa tvo hjúkrunarfræðinga til viðbótar á heilsugæsluna á Selfossi. Með því móti var hægt að bæta við því verkefni að meta daglega þjónustuþörf umbjóðenda HSU og leysa erindi þeirra í símaviðtali. Það þýðir, að allir sem óskað hafa eftir tíma hjá lækni fá samdægurs símtal frá hjúkrunarfræðingi, sem ræðir við þá símleiðis til að afla upplýsinga. Með sérfræðiþekkingu sinni hafa hjúkrunarfræðingar afgreitt um 60% allra erinda og þannig rýmkað fyrir svo helmingi fleiri veikir sjúklingar komast nú miklu fyrr í heimsókn til heilsugæslulæknanna. Það er gríðarlegur árangur og með þessu móti hefur óþörfum heimsóknum til lækna svo til verið útrýmt, ýmist með því að gefa fólki ráð vegna flensu, benda á lausasölulyf í apótekum, vísa sjúklingum beint í blóðprufur eða röntgen, afgreiða beiðnir um vottorð og lyfjaendurnýjanir og fleira. Umfang þessa verkefnis er umtalsvert, því hjúkrunarfræðingarnir afgreiða í hverjum mánuði um 1.500 til 2.000 erindi til viðbótar þeim 10.000 erindum sem berast heilsugæslunni.
Ef ekki er hægt að leysa mál með símtali eru upplýsingar um viðkomandi sjúkling skráðar vandlega, svo læknir geti kynnt sér mál sjúklingsins áður en til vitjunar kemur. Mörg erindi leysa hjúkrunarfræðingar og læknar saman. Þannig verður læknisþjónustan skilvirkari og betri, auk þess sem tími lækna nýtist betur. Í stað þess að sinna erindum sem aðrir geta afgreitt geta læknar betur sinnt krónískum veikindum, lýðheilsumálum, og öðrum málum sem hafa setið á hakanum vegna anna. Að sama skapi minnkar álagið á bráðamóttökuna, sem þýðir að þar fæst betri þjónusta og álag á starfsfólk þar minnkar.
FRÁBÆRT SAMSTARF FAGSTÉTTA
Góð samvinna ólíkra fagstétta innan HSU er forsenda þess að árangur náist með verklagi af þessu tagi. Samstarf lækna og hjúkrunarfræðinga þarf að vera gott, heimildir hjúkrunarfræðinga til að afla og veita upplýsingar – t.d. niðurstöður úr blóðprufum – þurfa að vera skýrar og heilbrigðisgagnafræðingar þurfa heimildir til að útbúa vottorð í samráði við lækna. Verkaskipting á vinnustaðnum breytist, skilningur á ólíkum hlutverkum innan stofnunar eykst og árangurinn með.
Tilraunir í þessa veru hafa verið gerðar á nokkrum heilsugæslum hérlendis, með góðum árangri. Hjá HSU var skrefið hins vegar stigið til fulls og hjúkrunarfræðingar ráðnir sérstaklega til að sinna úthringingum og ráðgjöf við sjúklinga. Það er ótvíræð skoðun stjórnenda HSU, að slík skipan sé nauðsynleg til að ná árangi og ekki sé hægt að bæta 150 úthringingum á dag við önnur störf starfandi hjúkrunarfræðinga.
ÞÖKKUM JÁKVÆÐ VIÐBRÖGÐ INNAN OG UTAN HSU
Í aðdraganda þess að umrætt verklag var innleitt hjá HSU leituðu stjórnendur og starfsfólk upplýsinga um reynslu annarra af fyrirkomulaginu. Það er þekkt víða erlendis, þar sem Bretar og Finnar hafa þótt í fararbroddi. Á völdum svæðum í Bandaríkjunum hefur þetta líka verið reynt með góðum árangri. Hérlendis höfum við orðið vör við mikinn áhuga annarra heilbrigðisstofnana á verkefninu. Mögulega verður árangurinn sem starfsfólk HSU hefur náð til þess að verklagið verði innleitt víðar, til hagsbóta fyrir notendur, starfsfólk og samfélagið allt.
Við vonumst til að þessar úrbætur og nýjungar í þjónustu mælist áfram vel fyrir hjá íbúum. Við þökkum öllum þeim íbúum sem hafa sent okkur jákvæð skilaboð um bætta þjónustu og þökkum einnig allar uppbyggilegar ábendingar. Við erum enn að slípa til hvernig best er að hafa fyrirkomulagið á þessari þjónustu og munum innleiða sambærilegt fyrirkomulag víðar, t.d. í Vestmannaeyjum og á fleiri starfsstöðvum. Við biðjum íbúa á Selfossi að sýna okkur þolinmæði og aðstoða okkur við að gera þjónustuna aðgengilegri, öruggari og enn betri.
Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.