-5.8 C
Selfoss

Getum við tengt samfélagið saman með kvikmyndum?

Vinsælast

Víða í samfélaginu er verið að skera upp herör gegn plasti og plastnotkun nútímamannsins. Einkum lýtur það að einnota umbúðum og almennu hirðuleysi um efnið sem svo endar lífdaga sína í náttúrunni og verður þar dýralífi og okkur sjálfum til talsverðs ama. Á Eyrarbakka er í undirbúningi aðför að plastmenguninni í formi áhugaverðr ar kvikmyndahátíðar sem haldin verður heima hjá fólkinu í þorpinu á Eyrarbakka. Dagskráin hafði samband við Guðmund Ármann forsprakka Brims kvikmyndahátíðar sem haldin verður laugardaginn 28. september nk. á Eyrarbakka og fræddist um hvað liggur að baki verkefninu.

Því meira sem ég hugsaði þetta, því meira spennandi varð það

„Hugmyndin kom eins og þruma úr heiðskíru lofti og brosti ég bara að henni innra með mér í nokkra daga, en svo bara lét hún mig ekki í friði og þá fór ég að gefa þessari hugmynd séns. Því meira sem ég hugsaði þetta, því meira spennandi varð þetta og boltinn fór að rúlla. Það góða við að vinna með verkefni eins og að setja af stað kvikmyndahátíð, eitthvað sem ég hef ekki gert áður, er að ég veit hvorki hvað ég á að gera né hvað ég má gera,“ segir Guðmundur brosandi.

Í spjalli okkar kemur fljótt fram áhugi Guðmundar á nærsamfélaginu í sjávarþorpinu Eyrarbakka. „Eitt það fyrsta sem ég hugsaði var: Hvernig get ég tengt samfélagið og opnað dyr á milli aðila. Mig langaði einnig að fara nýja leið í að sýna kvikmyndir. Mig langaði að myndir hátíðarinnar hefðu sterka tengingu við sjávarþorpið Eyrarbakka og að hátíðin myndi fræða og opna augu fólks fyrir einhverju sem fólk hefði ekki hugsað mjög mikið um. Fyrir valinu varð plast og þau áhrif sem það hefur á hafið meðal annars.“  Það er ljóst að Guðmundur ætlar sér svo sannarlega að tengja fólkið í samfélaginu saman og opna dyr. Meðal þess sem er á prjónunum er samvinna við grunnskólann, fangelsið á Litla Hrauni og íbúa.

Stærsta heimilið á Eyrarbakka, Litla Hraun, tekur þátt

Það er einstaklega ánægjulegt að finna velvilja í samfélaginu gagnvart verkefninu. Í grunnskólanum sem dæmi er mikill metnaður í að efla umhverfisvitund nemenda. Stjórnendur þar voru opnir fyrir að taka þátt í verkefninu og mun unglingastig skólans vinna margmiðlunarefni sem verður hluti af þeim sýningum og viðburðum sem í boði verða á kvikmyndahátíðinni. Ég fór þess síðan á leit við stjórnendur fangelsisins á Litla Hrauni, sem er stærsta heimilið á Eyrarbakka, hvort þeir hefðu áhuga á að taka þátt. Í ljós kom, og það kom mér þægilega á óvart, að forsvarsmenn fangelsisins horfa mikið til umhverfismála. Fangelsið mun taka þátt í verkefninu með tvennum hætti; annarsvegar verður hægt að skella sér í bíó í fangelsinu, sem er ekki endilega hægt á hverjum degi og hinsvegar verður einn af fyrirlestrum hátíðarinnar haldinn í fangelsinu og ber titilinn „Umhverfismál og fangelsi“. Guðmundur setur ekki punktinn við stofnanir þorpsins heldur ætlar að fara þess á leit við fjölskyldur sem búa á Eyrarbakka hvort þær séu ekki reiðubúnar að bjóða fólki heim í stofu. „Mig langar svolítið að hafa sýningarnar á einkaheimilum fólksins líka. Þannig að kannski ein fjölskylda myndi bjóða upp á eina af myndum hátíðarinnar á ákveðnum tíma og segja sem svo að rými sé fyrir fimm til að koma og horfa þeim til samlætis. Nú reynir á það að finna þetta fólk og sjá hvort ekki séu einhverjir gestrisnir Eyrbekkingar sem eru til í að taka þátt,“ segir Guðmundur. Allar myndirnar verða jafnframt sýndar í Óðinshúsi á völdum tímum allan daginn og fyrirlestrarnir verða í Rauða húsinu. „Það verður dagskrá um allt þorpið og allir finna sér eitthvað til dundurs hvort sem það eru fyrirlestrar eða bíó,“ segir Guðmundur.

Plast í hafi og strönd tengir sterkt við sjávarþorpið Eyrarbakka

„Notkun og sérstaklega ofnotkun á plasti hefur lengi angrað mig og mig hefur lengi langað til að leggja mitt af mörkum til að draga úr notkun á plasti, það var því ekki flókið að finna umfjöllunarefni.  Plast er eins og við vitum orðið eitt stærsta umhverfisverkefni samtímans.  Plast í hafi og strönd tengir sterkt við sjávarþorpið Eyrarbakka.  Þó ströndin þar sé hrein þá er það ekki sjálfgefið að hún verði það áfram, frekar en nokkur önnur strönd.  Það er aðeins undir okkur sjálfum komið hvort haf og strendur eru hreinar,“ segir Guðmundur með áherslu.

Í grunninn vona ég að fólk rekist á hvert annað á hátíðinni

Talið berst aftur að samfélaginu og ljóst að Guðmundur hefur mikinn áhuga á fólki og nærsamfélaginu. Spurður hvort að þetta sé rauður þráður í hugmyndinni segir Guðmundur: „Ég sakna þess stundum að þegar ég var að alast upp á Eyrarbakka þá stóð fólk aðeins nær hvert öðru. Ég held að það hafi að mörgu leyti verið vegna þess að fólk var svo oft að rekast hvert á annað. Það var kaupfélagið, frystihúsið, Laugabúð, heilsugæslan, bankinn og áfram má telja, fólk var alltaf að hittast. Ég held að það geri hverju samfélagi gagn að fólk hittist oftar og rekist á hvort annað.  Ég er auðvitað að vona að kvikmyndirnar og fyrirlestrarnir eigi eftir að opna augu fólks, hvetja fólk til góðra verka en ég er einnig að vona að fólk njóti samverunnar og rekist svolítið hvert á annað.

Rétt er að taka fram að allir eru boðnir hjartanlega velkomnir á BRIM kvikmyndahátíð sem haldin verður 28. september nk. Þeim sem vilja kynna sér verkefnið betur er bent á heimasíðuna brimkvikmyndahatid.is. Frítt er inn á alla viðburði hátíðarinnar.

 

 

 

Nýjar fréttir