-4.1 C
Selfoss

 Gæsalappir – heimagerð tuska

Vinsælast

Það er með ólíkindum hversu margir elska heimagerðar tuskur enda eru þær jafnan fallegar og góðar til síns brúks. Það er því ekki að bera í bakkafullan lækinn að bæta við enn einni uppskriftinni. Þessi er hekluð úr ALBERTE frá Permin sem er gert úr lífrænt vottaðri bómull og er nýtt garn hjá okkur – góð viðbót við mikið úrval af bómullargarni sem við bjóðum uppá. Í einni dokku eru 50 gr og 165 metrar og litirnir eru sérlega fallegir.

 

Í eina tusku fer tæplega ein dokka af garni og verkfærið er heklunál nr. 3,5.

 

Skýringar:

ll = loftlykkja, fl = fastalykkja, st = stuðull, suá = slá uppá.

Fyrsta „löpp“ umferðar = suá, sækja lykkju í næstu fl fyrri umferðar x 3 (þá eru 7 lykkjur á nálinni). Draga lykkju í gegnum allar lykkjurnar og gera síðan eina ll.

Allar hinar „lappirnar“ = suá, sækja lykkju í sama gat og síðast var farið í, suá, sækja lykkju í næstu fl fyrri umferðar x 2. Draga lykkju í gegnum allar lykkjurnar og gera síðan eina ll.

Byrjað er á að gera 53 loftlykkjur og síðan fastalykkjur til baka, þá fyrstu í næst síðustu ll, alls 52 fl.

Snúa við, 2 ll, 1 st í hverja fastalykkju fyrri umferðar, alls 52, þá síðustu í fyrstu fl.

Snúa við, 1 ll og síðan fl milli síðasta og næst síðasta st fyrri umferðar og síðan koll af kolli út umferðina, alls 52 fl.

 

Eftir það eru gerðar þessar tvær umferðir til skiptis alls 17 sinnum:

  1. 2 ll, 1 st í síðustu fl fyrri umf, 1 st í næstu fl. Því næst „lappir“ samkvæmt skýringum hér á undan, alls 23. 3 st, sá síðasti í fyrstu fl síðustu umferðar.
  2. fl milli síðasta og næst síðasta st síðustu umferðar og aftur í næsta bil. Eftir þetta 2 fl í hvert bil milli „lappa“ og líka eftir síðustu „löppina“. Að lokum 1 fl í síðustu tvö bilin.

 

Síðasta umferðin: 2 ll og síðan st í hverja fl fyrri umferðar. Slíta frá og ganga frá endum.

 

Uppskrift: Alda Sigurðardóttir

Nýjar fréttir