-6.6 C
Selfoss

Heimavist FSu er krafa

Vinsælast

Nýverið birtist hér góð grein eftir Sólmund Magnús Sigurðsson formann Nemendafélags FSu þar sem hann fór yfir heimavistarmál við FSu. Ég tek undir með honum og segi: Staðan er fráleit og við munum ekki una henni lengur. Eins og formaður NFSu segir réttilega þá ganga hlutirnir sannarlega hraðar í pólitík ef þrýstingur er til staðar. Þess vegna ákvað sú nefnd, sem stjórn SASS skipaði fyrr á þessu ári um húsnæðisúrræði fyrir nemendur FSu og ég gegni formennsku fyrir, að draga fram hve einbeittur vilji allra sveitarfélaga sem hlut eiga í skólanum er fyrir því að þar sé starfrækt heimavist. Nú hafa allar stjórnir þessarra sveitarfélaga staðfest ályktunina sem er svohljóðandi:

„Eftirtalin sveitarfélög sem eru eigendur að Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu) krefjast þess að starfrækt verði heimavist við skólann. Sveitarfélögin skora á mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér í málinu og skora jafnframt á skólanefnd og stjórnendur skólans til að vinna að uppbyggingu heimavistar.

Greinargerð:

Frá og með árinu 2016 var starfsemi heimavistar við Fjölbrautaskóla Suðurlands hætt. Ungmenni af stóru svæði sem þessi sveitarfélög spanna eiga þess ekki kost að nýta sér almenningssamgöngur til að sækja nám og því er um alvarlegan forsendubrest samstarfs um skólann að ræða. Til þess að ungmenni þessa svæðis njóti jafnréttis til náms er mikilvægt að unnið verði hröðum höndum við að koma upp heimavist við skólann.“

Undir ályktunina munu rita sveitarstjórar þeirra þrettán sveitarfélaga sem hlut eiga í skólanum. Ályktunin verður afhent skólanefnd FSu og mennta- og menningarmálaráðherra. Þingmenn Suðurkjördæmis eru fullmeðvitaðir um stöðuna og ég vænti þess að þeir muni beita sér í málinu líka.

Það sem gera þarf núna er að byrja að móta hugmyndir um hvar heimavistin verður og hvernig starfsemi hennar verður. Það er stjórnenda skólans að finna út úr því en það er okkar að setja fram kröfur um hvernig útfærslan verði.

Heimavist á ekki að vera hótelherbergi. Á heimavist þarf að vera þjónusta og utanumhald fyrir þau ungmenni sem þar búa. Í stað þess að velta sér endalaust upp úr því hve dýrt eða erfitt sé að starfrækja heimavist er eins gott að farið sé að hugsa hvernig hagnýta megi þau tækifæri sem felast í rekstri heimavistar. Þetta er ekki óþægilegt vandamál sem hægt er að sópa undir teppið heldur einfaldlega þjónusta sem skólinn þarf að veita.

Eitt er ljóst að ef ekki verður brugðist við þessu hratt og örugglega þá eru forsendur brostnar fyrir aðkomu margra sveitarfélaga að starfsemi FSu.

Einar Freyr Elínarson, oddviti Mýrdalshrepps.

Nýjar fréttir