-3.1 C
Selfoss

Rófukaffi á lokadegi sýningar

Vinsælast

Sunnudaginn 1. september á síðasta degi ljósmyndasýningarinnar „Rófubóndinn“ býður safnið gestum og gangandi að þiggja rófukaffi í Húsinu. Vigdís Sigurðardóttir áhugaljósmyndari og rófubóndinn Guðmundur Sæmundsson á Sandi á Eyrarbakka verða á staðnum og taka vel á móti gestum. Þórður Þorsteinsson kemur einnig og þenur nikkuna um stund. Gestakaffið hefst kl. 14.00 og af því tilefni er frír aðgangur á safnið.

Ljósmyndasýningin er afrakstur Vigdísar þar sem hún fylgdi Guðmundi eftir á heilu ræktunarári frá sáningu að vori fram að uppskeru og söluferlinu að hausti og vetri. Myndirnar veita frísklega sýn á vinnuár rófubóndans í samtvinning við glefsur úr viðtölum við Guðmund.  Nokkrir vel valdir gripir sem tengjast rófuræktun skreyta sýninguna.

Rófubóndinn hefur hlotið verðskuldaða athygli safngesta og hefur sannað að rófur eru ekki horfnar úr menningu Íslendinga.  Fjölmargir erlendir ferðamenn sem hafa heimsótt safnið í sumar hafa verið áhugasamri um rófuna því hún er alls ekki á matarborðum allra.

Nú er sem sagt síðasta tækifærið til að koma og sjá sýninguna sem er opin eins og safnið sjálft alla daga kl. 11-18.   Önnur sýningarhús Byggðasafns Árnesinga eru Sjóminjasafn, Kirkjubær og Eggjaskúr. Verið velkomin.

 

Nýjar fréttir