-11.4 C
Selfoss

Umsögn sveitarstjórnar Bláskógabyggðar um miðhálendisþjóðgarð

Vinsælast

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar birti í fundargerð í ágúst sl., umsögn um textadrög þverpólitískrar nefndar sem vinnur að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, um skilgreiningu marka þjóðgarðsins, áherslur um skiptingu landsvæða í verndarflokka, umfjöllun um aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar. Textadrögin voru birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins 22. maí sl. Í umsögninni er annars vegar fjallað almennt um stofnun miðhálendisþjóðgarðs, hins vegar er fjallað um mörk þjóðgarðs, skiptingu í verndarflokka, aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar.

Almennt um stofnun miðhálendisþjóðgarðs:

Af hálfu Bláskógabyggðar eru ítrekaðar fyrri athugasemdir þess efnis að ekki hefur farið fram grunnvinna sem sveitarfélagið telur algerlega nauðsynlegan undanfara að vinnu þverpólitísku nefndarinnar sem vinnur að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, þ.e. varðandi það að meta kosti og galla þess að ráðast í það verkefni að stofna þjóðgarð á miðhálendi Íslands.

Sveitarstjórn tekur undir öll eftirfarandi áhersluatriði sem Húnavatnshreppur tiltekur í umsögn sinni:

  1. Ekki hefur verið tekið til umfjöllunar og tekið upp samráð á vegum lýðræðislega kjörinna fulltrúa um kosti og galla þjóðgarðsstofnunar m.a. með tilliti til annarra friðunar- og verndarheimilda, sbr. t.d. nýleg náttúruverndarlög og heimildir til hverfisverndar samkvæmt skipulagsáætlunum.
  2. Umfjöllun og skýringar um þýðingu alþjóðlegra viðmiða um þjóðgarða hefur ekki komið fram. Lýsingar á heimildum til annarra notkunar svæða en fellur undir kjarnasvæðis þjóðgarðs og kröfur um lágmarksumfang slíks svæðis er því óáreiðanleg til að byggja á ákvarðanatöku sveitarfélaga.
  3. Ljóst er að stofnun þjóðgarðs felur í sér verulega takmörkun á skipulagsvaldi sveitarfélaga og þar með forræði sveitarstjórna á að marka stefnu um þróun byggðar og landnotkunar í sveitarfélagi.
  4. Stofnun þjóðgarðs takmarkar ráðstöfunarheimildir sveitarfélaga yfir þjóðlendum og heimildir til að afla tekna vegna starfsemi í þjóðlendum, sem sveitarfélög geta nýtt í þágu þjóðlenda innan sveitarfélagamarka.
  5. Ófyrirséðar breytingar geta orðið á lagalegri umgjörð um þjóðgarð og stjórnunar- og verndaráætlun í framtíðinni, sbr. t.d. breytingar sem raskað hafa forsendum sem til staðar voru við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.
  6. Nýting afréttareignar innan þjóðgarðs, sem og önnur starfssemi, verður háð stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðs.
  7. Aðkoma sveitarfélags að stjórn þjóðgarðs verður óveruleg.

Mörk miðhálendisþjóðgarðs:

Sveitarstjórn leggst gegn því að landsvæði innan marka sveitarfélagsins verði felld undir miðhálendisþjóðgarð. Fer sveitarstjórn fram á að í því tilviki að ekki verði tekið tillit til andmæla hennar verði teknar upp samningaviðræður við sveitarfélagið í þeim tilgangi að skilgreina mörk miðhálendisþjóðgarðs innan marka þess.

Sveitarstjórn telur rétt að ákvörðun um mörk þjóðgarðs byggi á faglegu mati sem byggt verði á eiginleikum svæða, en ekki verði horft eingöngu til eignarhalds og umráðaréttar yfir landi. Þá tekur sveitarstjórn undir ábendingu Húnavatnshrepps þar sem fram kemur að stofnun þjóðgarðs, sem aðallega væri byggð á eignarréttarlegum atriðum, yrði þannig forsenda takmörkunar á skipulagsvaldi sveitarfélaga. Vandséð er að hægt sé að rökstyðja það að eðlilegt sé að takmarka skipulagsvald sveitarfélaga út frá þáttum sem snúa að eignarhaldi eða umráðum lands. Verður því að koma til fagleg skoðun út frá sjónarmiðum náttúruverndar og inntaks aðalskipulags sveitarfélaga, þar sem ákvæði kunna að vera um hverfisvernd, landnotkun er skilgreind og settar takmarkanir útfrá forsendum sem varða m.a. vernd náttúru.

Skipting í verndarflokka:

Sveitarstjórn leggur áherslu á að vanda þarf til verka við skiptingu í verndarflokka þar sem horft verði til verndarmarkmiða svæða og að hafa verði samráð við alla hagsmunaaðila við þá vinnu, sem væntanlega verður unnin sem hluti af gerð stjórnunar- og verndunaráætlun fyrirhugaðs þjóðgarðs.

Aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar:

Bláskógabyggð bendir á að sumar þjónustugáttir eru nokkuð langt frá hinum fyrirhugaða þjóðgarði. Telur sveitarstjórn eðlilegra að gáttirnar verði sem næst þjóðgarði. Verði af stofnun þjóðgarðs leggst sveitarstjórn ekki gegn staðsetningu þjónustugáttar á svæðinu við Gullfoss. Sveitarstjórn telur að þjónustugátt við Þingvelli væri of langt frá hinum fyrirhugaða þjóðgarði.

Ferli málsins:

Sveitarstjórn þakkar það samráð sem viðhaft hefur verið og fundi fulltrúa í nefndinni með sveitarstjórn. Sveitarstjórn hefði þó gjarnan viljað hitta fleiri nefndarmenn á samráðsfundum. Gott hefði verið að eiga beint og milliliðalaust samtal við sem allra flesta nefndarmenn.

Mynd:

(Midhalendi-Islands)

Nýjar fréttir