Það styttist í haustið og gott að fara að huga að peysu fyrir veturinn. Í dag birtum við uppskrift af peysu sem er prjónuð á prjóna no 8 úr Alice frá Permin, sem er blanda af 63% alpakka og 37% polyamid. Peysan er bæði létt og hlý og ekki spillir að hún er auðprjónuð. Ein falleg Roð-tala setur skemmtilegan svip á kragann sem liggur laus niður en með því að hneppa tölunni er kominn skjólgóður rúllukragi.
Stærðir: S-M-L-XL
Efni: 5-5-6-6 dk Alice, Hringprjónn no 8 og ermaprjónar no 8, prjónamerki, roðtala, hjálparnælur.
Perluprjón:
1.umf: *1 sl, 1 br* endurtakið * * út umferðina.
2.umf: *1 br, 1 sl* endurtakið * * út umferðina.
Prjónið umferð 1 og 2 til skiptis.
Bolur:
Fitjið upp 136-150-160-180 l á prjón no 8 og prjónið stroff, 1 sl, 1 br alls 15 umf. Næsta umferð er prjónuð slétt, en um leið er fækkað um alls 20-26-24-32 l, þá eiga að vera 116-124-136-148 l á prjóninum. Setjið prjónamerki við upphaf umferðar og prjónið áfram perluprjón þar til bolur mælist 40-41-42-43 sm. Setjið 2 síðustu l umferðar og 2 fyrstu l á hjálparnælu.
Ermar:
Fitjið upp 36-38-40-42 l á prjón no 8 og prjónið stroff, 1 sl, 1 br alls 10 umf. Næsta umferð er prjónuð slétt, en um leið er fækkað um alls 8-8-10-10 l, þá eiga að vera 26-28-30-32 l á prjóninum. Setjið prjónamerki við upphaf umferðar og prjónið áfram perluprjón, aukið um leið út um 1 l hvorum megin við prjónamerkið í 3ju hverri umferð þar til alls eru 46-48-50-52 l á prjóninum. Prjónið áfram þar til ermi mælist 42-43-44-44 sm. Setjið 2 síðustu l umferðar og 2 fyrstu l á hjálparnælu. Prjónið aðra ermi eins.
Axlastykki:
Prjónið 54-58-64-70 l á bolstykki, setjið næstu 4 l á hjálparnælu, prjónið fyrri ermi við, athugið að gæta þess að perluprjónið haldi sér, ef það passar ekki má hliðra lykkjunum á nælunni á erminni um eina lykkju til að það gangi upp. Prjónið næstu 54-58-64-70 l á bol og prjónið næstu ermi við. Setjið nú prjónamerki við mót erma og bols, alls 4 merki. Prjónið áfram perluprjón en í annarri hverri umferð eru síðustu 2 l fyrir prjónamerki og fyrstu 2 eftir merkið prjónaðar saman.
Þegar 44-48-52-56 l eru á prjóninum gerum við upphækkun á bakstykki. Prjónið 22-24-26-28 l perluprjón, snúið við, prjónið 18-20-22-24 tilbaka, snúið við og prjónið 14-16-18-20 til baka, snúið við og prjónið 10-12-14-16 til baka, snúið enn einu sinni við og prjónið 6-8-10-12 l til baka.
Þá er komið að kraganum, prjónað er fram og til baka, 1 sl, 1br. Takið í fyrstu umferð upp 8-8-10-10 lykkjur jafnt yfir umferðina þannig að alls eru 52-56-62-66 l á prjóninum. Prjónið alls 20-20-22-22 umferðir og fellið laust af.
Lykkjið saman undir ermum og gangið frá endum. Festið fallega Roð-tölu á miðjan fremri hluta kragans og búið til hnappagat á aftari hluta kragans (myndið hæfilega langa lykkju og kappmellið utan um hana).
Uppskrift: Þóra Þórarinsdóttir