Rekstraraðilar í Svörtu Fjöru, hluti landeigenda í Reynisfjöru, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, fulltrúar frá Lögreglunni á Suðurlandi, Veðurstofunni og Vegagerðarinni funduðu saman fyrir stundu. Niðurstaða fundarins var sú að samkvæmt gögnum frá Veðurstofu Íslands er ennþá hætta á berghruni úr suðurhlið Reynisfjalls. Ákveðið hefur verið að halda austasta hluta Reynisfjöru lokuðum enn um sinn. Svæðið verður vaktað og lokunarborði til staðar.
Unnið verður að útfærslu á frekari lausn að lokun á þessum hluta fjörunnar. Farið verður í vinnu við uppfærslu og samræmingu aðvörunarskilta sem standa við göngustíginn sem liggur niður í fjöruna. Mikilvægt er að koma fræðslu og upplýsingum á framfæri við gesti svæðisins.