3.4 C
Selfoss

Mögnuð tilfinnig að koma með bikarinn yfir brúna

Vinsælast

Alfreð Elías Jóhannson þjálfari stýrði kvennaliði Selfoss til sigurs í Mjólkurbikarnum 2019. Er það jafnframt fyrsti stóri titilinn sem knattspyrnulið frá Selfossi vinnur. Alfreð Elías tók við kvennaliði Selfoss haustið 2016.

„Ég var með tvo yngri flokka og meistaraflokk kvenna fyrsta árið mitt á Selfossi. Þá voru stelpurnar í 1. deild. Það gekk bara vel og við fórum upp á fyrsta ári mínu. Haustið 2017 var ég síðan bara með einn flokk eða 5. flokk kvenna og meistaraflokkinn en réð mig í knattspyrnuakademíuna. Stelpunum gekk ágætlega í deildinni 2018 og við enduðum í 6. sæti með 20 stig. Núna erum við sem stendur í 4. sæti með 22 stig en eigum leik til góða á KA/Þór sem er í 3. sæti. Og svo erum við náttúrulega komin með bikar núna.

Fagnað að leik loknum. Myd: fotbolti.net/Hafliðið Breiðfjörð.

Lítið takmark að fara bara í úrslitaleik
Hvernig lagðir þú bikarkeppnina upp hjá stelpunum?
„Ég tek leikmenn oft í einstaklingsviðtöl þar sem við spjöllum saman um hvað má betur fara og hvað er framundan. Anna María sagði t.d. við mig að hún væri með eitt markmið þ.e. að komast í bikarúrslit. Ég urðaði nú vel yfir hana og sagði að það væri nú lítið takmark að fara bara í úrslitaleik, við yrðum að fara til að vinna hann. Þannig að það gaf svolítið tóninn. Ég hef talað um það síðan í janúar að við værum að fara að vinna þennan bikar. Þær hafa örugglega verið orðnar leiðar á því að heyra mig stöðugt tala um það. En það hefur örugglega prentast inn í þær villt og galið því ég hef minnst á þetta tvisvar til þrisvar í viku þ.e. að við værum að fara að vinna hann,ð segir Alfreð Elías.

Vorum alveg tilbúin að mæta þeim
„Í 16-liða úrslitum byrjuðum við á að spila við Stjörnuna. Þar fórum við í framlengingu en unnum 2:3. Það var erfiður en ótrúlega sterkur sigur hjá okkur. Síðan fengum við HK/Víking í 8-liða úrslitum. Þar unnum við þægilegan 2:0 sigur. Í 4-liða úrslitum fengum við Fylki og það var stál í stál leikur sem við unnum 0:1. Grace Rapp skoraði markið á 89. mínútu. Þegar Valur og Breiðablik voru dottin út, en þau eru með sterkustu hópana, leit þetta aðeins öðruvísi út. Við vorum samt alveg tilbúin að mæta þeim í úrslitum.“

Alfreð Elías ásamt Jóni Steindóri Sveinssyni, formanni knattspyrnudeildar Selfoss. Mynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð.

Við héldum í okkar gildi
Hvaða herfræði beittirðu varðandi undirbúning við úrslitaleikinn við KR?
„Maður pælir alltaf aðeins í andstæðingunum en maður má þó ekki gleyma sér of mikið í því. Númer eitt, tvö og þrjú er að vera með sitt alveg á hreinu, þ.e. sínu styrkleika. Við héldum mikið í okkar gildi sem eru samheldni, vilji, kraftur og trú á því sem við erum að gera. Ef við förum þannig gíraðar, þ.e. að allar séu tilbúnar, allar 23 eins og ég segi, ekki bara 11 leikmenn í liðinu heldur allur æfingahópurinn, þá náum við lengra. Það var dálítið langt í þennan leik því við fengum alveg átta daga fyrir bikarúrslitaleikinn. Við æfðum rosalega vel og allar 23 eiga heiður skilinn fyrir þessa viku. Það skilaði okkur þessu. Auðvitað var maður pínu stressaður fyrir leikinn en einhvern hafði maður alltaf á tilfinningunni að við værum alltaf að fara að vinna þetta. Dugnaðurinn í liðinu er svo ótrúlega mikill.“

Var 110% viss um að við myndum vinna
Hvernig gekk svo leikurinn?
„Leikurinn gekk hálf brösuglega. KR var bara betra fyrstu 20–25 mínúturnar. Þær voru bara kraftmeiri en við vorum mjög stressaðar á boltanum og þetta sem við lögðum upp með gekk ekki vel. Þá kemur Fríða, sem dæmi, og brýtur þetta upp. Hún vinnur boltann á miðjunni og tætir einhverjar þrjár í sig og neglir boltanum sláin inn. Þá var staðan 1:1 og maður fann það alveg á leikmönnunum að ísinn var brotinn. Eftir það var þetta þægilegra. Barbára Sól hefði getað skorað ein á móti markmanni í fyrri hálfleik, en leikurinn stóð 1:1 í hálfleik. Síðan gekk þetta ágætlega í síðari hálfleik en var stál í stál. KR-ingar hefðu alveg getað unnið á síðustu tíu mínútunum. Við hefðum getað unnið líka. Þetta var barátta en fór svo í framlengingu. Þegar þangað var komið var ég alveg 110% viss um að við myndum vinna. Við erum í gríðarlega góðu formi og það hafði sitt að segja. Svo höfðum við líka viljann og trúna.“

Tilbúinn að gera þetta aftur og aftur
Hvað gerðist svo þegar leikurinn var búinn?
„Ég sagði við stelpurnar að þetta væri nákvæmlega tilfinningin út af hverju maður er í þessu. Það þarf svolítið mikið til að nenna að æfa fótbolta á Íslandi frá október fram að tímabili í snjó, rigningu, roki og frosti og allur sá pakki. En þegar maður upplifir svona er maður tilbúinn að gera þetta aftur og aftur. Þetta var ólýsanlegt. Svo var gaman að knúsa þessa gömlu karla, þessa ekta Selfyssinga, sem voru svo þakklátir fyrir að stelpurnar hafi gert þetta. Og líka að við höfum gert þetta saman.“

Klappað fyrir frábærum stuðningsmönnum. Mynd: forbolti.net/Hafliði Breiðfjörð.

Þakklátur fyrir að fá að upplifa þetta
„Eftir leikinn var síðan farið upp í rútu í mikla og skemmtilega rútuferð. Það var ótrúlega gaman. Á leiðinni tók t.d. fólk á ættarmóti á móti okkur með fánum og alls konar látum. Síðan stoppuðum við rétt áður en við komum að brúnni. Þá kom lögreglubíll og við fórum yfir brúna í lögreglufylgd. Þetta er atvik sem ég er ótrúlega þakklátur fyrir að fá að upplifa. Það eru ekki margir Selfyssingar sem hafa fengið að upplifa þetta. Þetta er mögnuð tilfinning. Það var gaman að sjá allt fólkið sem var tilbúið að fagna með okkur. Það stóð með okkur í stúkunni og var þarna komið að fagna með okkur. Allir 23 leikmennirnir voru kallaðir upp og klappað fyrir hverjum og einum og hrópað húrra fyrir öllu staffinu. Síðan var flugeldasýning á við þjóðhátíð. Þetta var mjög skemmtilegt og allar stelpurnar sem tóku þátt í þessu vilja gera þetta aftur.“

Skiptir miklu fyrir bæjarfélagið
„Handboltastrákarnir gáfu tóninn og nú erum við búin að byggja grunninn. Það var tekið alveg eins á móti stelpunum og þeim og það segir dálitið mikið um bæjarfélagið. Fyrir bæjaryfirvöldum skiptir ekki máli hvort strákar eða stelpur vinna afrek. Það er gert eins fyrir bæði lið. Þetta er það sem koma skal. Það á bara að vera þannig. Selfyssingar verða að hafa trú á því. Það er ekki nóg að íþróttafólkið hafi trú á því. Það verður allt bæjarfélagið að fylgja með. Þá kemur þessi samheldni sem er svo ótrúlega gaman að tala um í þjálfuninni. Þetta er svo ótrúlega mikilvægt þ.e. að það séu allir á sama meiði. Auðvitað tapar maður leik og leik en þá þýðir ekki að fara að henda einhverju í leikmennina um að þeir séu ekki nógu góðir. Það sem gildir er að standa saman og koma þannig sterkari inn í næsta leik.

 

Alfreð Elías Jóhannsson er fæddur og uppalinn Grindvíkingur og bjó þar fyrstu 26 ár æfi sinnar. Hann hóf knattspyrnuferil sinn þar og spilaði m.a. með Grindvíkingum í efstu deild. Hann hefur komið nokkuð víða við í fótboltanum, spilaði m.a. með Njarðvík, Stjörnunni, Víkingi Ólafsvík og Sindra. Árið 2010 var hann ráðinn sem spilandi þjálfari hjá BÍ/Bolungarvík á Ísafirði sem er Vestri í dag. Í þriðja leik sleit Alfreð allt sem hægt var að slíta í hnénu og segir hann að það hafi sumu leyti verið lukka sín því þá gat hann einbeitt sér algjörlega að þjálfuninni. Á fyrsta ári sínu kom hann liðinu upp úr 2. deild í 1. deild en var svo rekinn. „Það var eiginlega það besta sem gat komið fyrir mig því í framhaldi af því kom ég hingað í Þorlákshöfn þar sem ég bý,“ segir Alfreð. Hann tók þá við liðið Ægis og kom þeim upp í 2. deild. „Við hjónin ákváðum að kaupa okkur hús því okkur líkaði svo vel hérna.“ Árið 2016 var Alfreð svo ráðinn að stoðarþjálfari karlaliðs ÍBV. Aðalþjálfari liðsins þá var Bjarni Jóhannesson. Hann hætti eftir tapleik í bikarnum og Alfreð tók við liðinu og stýrði því í síðustu leikjum tímabilsins. Alfreð segir að það hafi verið erfitt að vera þjálfari í Eyjum og með fjölskylduna í Þorlákshöfn. Það varð m.a. til þess að hann tók við kvennaliði Selfoss haustið 2017. „Það var Adolf Bjarnason þáverandi formaður deildarinnar sem réð mig. Við höfðum kynnst í UEFA A prófi í Danmörku og töluðum mikið um fótbolta. Hann frétti svo af mínum málum varðandi Eyjar og fjölskylduna og það varð til þess að ég réð mig til Selfoss.“

 

Nýjar fréttir