-9.7 C
Selfoss

Nýir eigendur að Fiskbúð Suðurlands

Vinsælast

Guðmundur Hansson og Jóna Kristbjörg Hafsteinsdóttir hafa rekið Fiskbúð Suðurlands í rúm 30 ár eða frá 1989 en þá stofnuðu þau fyrirtækið ásamt föður Guðmundar. Þann 1. ágúst sl. keypti Óðinn Birgir Árnason sem rekur Fiskbúðina í Hveragerði reksturinn af þeim hjónum.

Óðinn Birgir sem er menntaður matreiðslumaður hefur rekið Fiskbúðina í Hveragerði ásamt konu sinni Írisi Ósk Erlingsdóttur frá 2016. „Okkur hlakkar til að koma inn í rekstur fiskbúðarinnar hér á Selfossi. Guðmundur var búinn að vera með þetta í 30 ár og var farinn að hugsa sér að minnka við sig. Þegar þetta kom til leist okkur vel á þetta. Svo er líka gott að fá að starfa með reynsluboltum í faginu því Guðmundur ætlar að starfa hérna eitthvað áfram,“ segir Óðinn.
Óðinn segir að þau ætli að halda áfram að gera góða hluti í Fiskbúð Suðurlands. Markmiðið sé að koma inn með nýjar hugmyndir og gera enn betur í því.

Gott starfsfólk og góðir viðskiptavinir
„Ég býð Óðinn velkominn hingað á Selfoss. Ég sé að þetta er ungur og duglegur strákur og held að þau hjónin muni halda þessu vel gangandi eins og við höfum gert. Þetta hefur verið skemmtilegur tími þótt stundum hafi hann verið erfiður og gangurinn upp og ofan í þessu eins og öðru. Maður hefur kynnst fjöldann allan af fólki. Ég vil nota tækifærið og þakka viðskiptavinum mínum, birgjum, mötuneytum og bara öllu því fólki sem ég hef umgengst og starfað með öll þessi ár. Sérstaklega vil ég þakka starfsfólkinu sem ég hef verið afskaplega heppinn með. Það hefði aldrei verið hægt að reka þetta öll þessi ár nema með góðum starfsmönnum. Þegar maður finnur að maður er að eldast þá vill maður fara að hægja á. Þessi tímasetning þ.e. salan á rekstrinum hentar því vel,“ segir Guðmundur.

Aukin neysla á fiski
Guðmundur hefur verið með marga fastakúnna hjá Fiskbúð Suðurlands til margra ára. Margir koma mörgum sinnum í viku, sumir daglega og einstaka jafnvel oftar. Þeir sem reka mötuneyti eða veitingahús koma stundum tvisvar á dag. „Við höfum verið mjög heppin með viðskiptavini öll þessi ár,“ segir Guðmundur og bætir við: „Við finnum líka fyrir mikilli breytingu í fisksölu núna síðari árin. Auðvitað er mikil íbúafjölgun á Selfossi en það er yngra fólkið sem er að koma miklu meira. Það er einfaldlega að koma miklu meira inn í fiskinn. Þar hlýtur hollustan og annað þess háttar að spila inn í.“

Komum með ást og umhyggju á Selfoss
Óðinn segir að þau hafi einblínt mikið á alls konar fiskrétti og svoleiðis í Fiskbúðinni í Hveragerði. Þau hafi líka verið með heitan mat t.d. fisk og franskar. „Með tíð og tíma langar mig að veita þessari verslun hér á Selfossi ást og umhyggju. Okkur langar að sinna vel þessu fólki sem hefur verið duglegt að koma í gegnum árin. Vonandi heldur það áfram að koma og fá sömu gæðavörur og þjónustu. Vonandi heldur unga fólkið líka áfram að koma í þessa gæðavöru, bæði þessa klassísku soðnu og síðan líka fiskrétti, eitthvað sem er hægt að henda beint í ofninn og hentar nútíma lífsstíl.“

Fiskur sem fæst í fiskbúðunum, bæði á Selfossi og í Hveragerði, er fiskur sem kemur beint af markaði. Eitt uppboð er með fiski alls staðar að af landinu. Fiskbúðirnar kaupa líka lax og bleikju úr fiskeldi.

Nýjar fréttir