-0.5 C
Selfoss

Einar rær, skíðar eða hjólar gegn ofbeldi

Vinsælast

Einars Hansberg Árnason.

Hringferð UNICEF og Einars Hansberg gegn ofbeldi er nú hálfnuð. Einar rær, skíðar eða hjólar fyrir hvert barn sem verður fyrir ofbeldi á Íslandi.

Einar var staddur á Egilsstöðum í gær þar sem hann skellti í næstu 13.000 metrana til viðbótar við þá 251.700 þúsund sem nú þegar voru komnir. „Þetta er búið að vera æðislegt ferðalag og móttökur landsbyggðarinnar einstaklega góðar,“ segir Einar. Hann er í hringferð í kringum landið til að styðja baráttu UNICEF á Íslandi gegn ofbeldi á börnum. Á ferð sinni um landið mun Einar fara um 500 kílómetra en nú er hann hálfnaður. Hringferðinni lýkur hann síðan í Reykjavíkurmaraþoninu þar sem hann ætlar að hlaupa heilt maraþon til stuðnings UNICEF.

Hringferð UNICEF á Íslandi og Einars Hansberg Árnasonar hófst formlega á Akranesi föstudaginn 16. ágúst sl. þegar Einar safnaði fyrstu 13 þúsund metrunum til stuðnings baráttu UNICEF. Ferðalagið er nú rúmlega hálfnað en áætlað er að stoppa í 36 bæjarfélög þar sem Einar mun róa, skíða eða hjóla 13 þúsund metra á hverjum stað, einn fyrir hvert barn sem verður fyrir ofbeldi á Íslandi.

Í vor hóf UNICEF á Íslandi átak gegn ofbeldi á börnum undir yfirskriftinni Stöðvum feluleikinn. Þá vakti UNICEF athygli á því að ofbeldi er ein helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi. Rúmlega 13 þúsund börn verða fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn hér á landi. Þetta kemur fram í nýjum gögnum um ofbeldi gegn börnum á Íslandi sem voru unnin af Rannsóknamiðstöðinni Rannsóknir & greining og Stígamótum. Í tölunum er ekki meðtalin vanræksla, andlegt ofbeldi, rafrænt ofbeldi eða einelti, en þá væri þessi tala mun hærri.

„Mér fannst tölurnar um ofbeldi gegn börnum á Íslandi sláandi, þess vegna fór ég í þessa vegferð. Ég vona að sem flestir kynni sér málefnið og skrifi undir átakið!” var haft eftir Einari.
Hátt í 40 sveitarfélög heimsótt

Einar og UNICEF munu heimsækja tæplega 40 sveitarfélög til að vekja athygli á hversu algengt ofbeldi gegn börnum á Íslandi er og um leið hvetja sveitarfélög til að taka þátt og bregðast við ofbeldi á börnum. UNICEF bendir á að viðbrögð sveitarfélaga skipti öllu máli þar sem þau leika mikilvægt hlutverk í lífi barna og stýra stærstum hluta þeirra verkefna sem hafa bein áhrif á daglegt líf þeirra. UNICEF hefur sent ákall til allra sveitarfélaga landsins um að þau taki upp heildstætt og samræmt verklag, vegna gruns um ofbeldi og vanrækslu, fyrir allar stofnanir sem starfa með börnum.

Viðkomustaðir hringferðarinnar eru fjölmargir, meðal annars Stykkishólmur, Ísafjörður, Akureyri, Hella, Hveragerði, Fáskrúðsfjörður og Vestmannaeyjar. Einar og UNICEF vonast til að sem flestir mæti á staðina, kynni sér málefnið og setji nafn sitt á bakvið þessa mikilvægu baráttu. Dagskráin er hér að neðan og hún verður einnig uppfærð hér.

Átakinu fylgir ákall til almennings um að ganga í breiðfylkingu fólks sem tekur afstöðu gegn ofbeldi á börnum. Hægt er að skrifa undir ákallið hér. UNICEF hvetur almenning til að kynna sér málið og skrifa undir ákallið. UNICEF mun senda öllu því hugsjónafólki upplýsingar um hvernig á að bregðast við þegar grunur leikur á að barn sé beitt ofbeldi.

Dagskrá hringferðar gegn ofbeldi næstu daga:
Miðvikudagur 21. ágúst
10:00 Vík
14:30 Vestmannaeyjar
18:30 Hella
21:00 Flúðir

Fimmtudagur 22. ágúst
10:00 Laugavatn
11:30 Selfoss
14:00 Hveragerði
15:30 Stokkseyri
17:00 Þorlákshöfn

Föstudagur 23. ágúst
09:00 Grindavík
11:00 Garður
13:00 Reykjanesbær
15:00 Vogar
17:00 – 20:00
Hafnafjörður – Garðabær
Álftanes – Kópavogur
Reykjavík – Mosó

Laugardagur 24. ágúst
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka

UNICEF (Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna) hefur í tæpa sjö áratugi verið leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum. Við berjumst fyrir réttindum barna á heimsvísu og sinnum bæði langtímauppbyggingu og neyðaraðstoð. UNICEF treystir eingöngu á frjáls framlög og hefur að leiðarljósi þá bjargföstu trú að öll heimsins börn eigi rétt á heilsugæslu, menntun, jafnrétti og vernd. Við erum á vettvangi í yfir 190 löndum og leggjum áherslu á að ná til allra barna – hvar sem þau eru.
Fylgist með okkur á www.unicef.is og www.facebook.com/unicefisland

Nýjar fréttir