4.5 C
Selfoss

Tómatar og tangó í Friðheimum á sunnudaginn

Vinsælast

Sunnudaginn 25. ágúst næstkomandi verður sannkölluð menningarveislu í Friðheimum í Reykholti. Þar mun nýstofnaður Piazzolla Quintet leika tónlist argentínska snillingsins Astor Piazzolla auk þess sem léttur matseðill kvöldsins verður suðrænn og seiðandi ásamt argentískum vínum. Húsið opnar klukkan 19:00. Miðasala á tónleikana fer fram á tix.is og einnig er hægt að kaupa miða við innganginn á Friðheimum.

Tónlist Piazzolla er hinn svokallaði nýi tangó (nuevo tango) og er afar áhugaverð samsuða af tangó, djass og klassískri tónlist – sem greinilega má heyra í verkum hans.

Meðal verka á tónleikunum má nefna Adios Nonino sem Piazzolla samdi í minningu föður síns og hinn sívinsæla Libertango sem flestir áhugamenn um tónlist ættu að kannast við. Að auki má nefna Árstíðirnar í Buenos Aires – verk í fjórum köflum sem túlkar árstíðirnar í argentínsku höfðuborginni.

Hljóðfæraleikarar kvintettsins eru margreyndir.
Jón Þorsteinn Reynisson á harmoniku
Joaquin Páll Palomares á fiðlu
Jón Bjarnason á píanó
Ásgeir Ásgeirsson á rafgítar
Alexandra Kjeld á kontrabassa

Þess má geta að fyrri tónleikar Piazzolla Quintet fara fram í Hofi á Akureyri þann 22. ágúst kl. 20.00.

Viðburður þessi hlaut styrk úr menningarsjóði SASS

Nýjar fréttir