3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Vinsælir Massaborgarar eða Mexíkóborgarar

Vinsælir Massaborgarar eða Mexíkóborgarar

0
Vinsælir Massaborgarar eða Mexíkóborgarar
Birgir Ásgeir Kristjánsson.

Birgir Ásgeir Kristjánsson er sunnlemnski matgæðingurinn. Matgæðingur síðastu viku, stórvinur minn, Ævar Svan Sigurðsson skoraði á mig að taka við keflinu og er mér það bæði ljúft og skylt að taka áskoruninni. Ævar Svan bauð m.a. upp á girnilega laxaborgara sem vert er að gera sér far um að smakka.

Þegar veðrið er eins gott og það hefur verið hér á Suðurlandi nú í sumar þá er alveg tilvalið að skella góðum mat á grillið. Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að afar vinsælum hamborgurum, sem á mínu heimili eru ýmist kallaðir Massaborgarar eða Mexíkóborgarar. Hér erum við ekki að tala um neina smáborgara sem skreppa svo mikið saman á grillinu að þeir eiga á hættu að falla niður á milli rimlanna. Nei, hér erum við að tala um alvöru heimalagaða borgara. Það að gera sína eigin hamborgara er miklu einfaldara og skemmtilegra en margir halda. Auk þess skapast tækifæri á aðlaga uppskriftina að eigin smekk.

Hráefnin sem þarf í fjóra hamborgara eru:
Ungnautahakk 5 – 600 g
½ rauðlaukur
2-3 hvítlauskrif
1-2 egg
½ poki af fajitas kryddblöndu

Rauðlaukurinn er skorinn mjög smátt og hvítlauksrifin einnig. Öllum hráefnunum er síðan blandað vel saman við hakkið. Best er að nota hendurnar við það. Úr hakkblöndunni eru síðan mótaðir fjórir hamborgarar sem hver um sig vegur a.m.k. um 150 – 160 g. Gott er að nota hamborgarapressu við verkið en ef hún er ekki til, þá er ekkert mál að móta hamborgarana í höndunum. Það þarf hinsvegar að hnoða hakkdeigið nokkuð vel til að hamborgararnir verði þéttir og góðir því annars er hætta á að þeir brotni þegar þeim er snúið á grillinu.

Borgurunum er síðan skellt á vel heitt grillið og þeir grillaðir í um 5 mín. á hvorri hlið. Grilltíminn fer þó eftir því hversu þykkir borgararnir eru. Eftir að búið er að snúa borgurunum á grillinu er gott að setja sneið af Havarti-osti ofan á borgarana og leyfa ostinum að bráðna á meðan borgararnir klára að grillast.

Með borgurunum er best að nota stór hamborgarabrauð því þetta eru jú engir smá borgarar. Gott er að skella brauðunum smá stund á grillið til að hita þau og smyrja síðan annan hlutann með chili majó og hinn hlutann með salsa sósu. Þá er borgaranum skellt á milli ásamt fersku salsa-salati og nachos-flögum. Þá er einnig æskilegt að hafa auka skammt af salsa-salati og nachos-flögum sem meðlæti.

Uppskriftin að salsa salatinu er eftirfarandi:
½ gúrka, afhýdd
7 kirsuberjatómatar
Klettasalat, skorið mjög smátt
½ mangó
½ rauðlaukur
1 paprika

Allt hráefnið í salsa-salatið er skorið í mjög litla teninga og blandað í skál.

Uppskriftin að salsa-salatinu er ekki meitluð í stein heldur gildir hér að nota fjölbreytt grænmeti í ýmsum litum til að salsa-salatið verði ekki einungis bragðgott heldur gleðji einnig augað.

Eftirréttur

Grillaðir bananar með súkkulaði

Eftir góðan borgara er oft þörf á einhverju sætu í eftirrétt. Það er alveg tilvalið að fá sér grillaða banana fyllta með súkkulaði. Aðferðin er einföld. Best er að nota vel þroskaða banana í hýðinu og rista í þá eftir endilöngu en skera ekki alveg í gegn. Síðan er bitum af súkkulaði (t.d. suðusúkkulaði) troðið í skurðinn og bananinn settur á grillið á meðal hita. Þegar súkkulaðið er orðið vel bráðið og bananinn farinn að mýkjast er bananinn tekinn af grillinu og borinn fram í hýðinu með þeyttum rjóma og vanilluís. Ekki er verra að hella dálítilli lögg af Bailey‘s líkjör yfir bananann.

Verði ykkur að góðu.

Ég ætla að skora á góðan vin minn Guðmund Marías Jensson að verða næsti matgæðingur vikunnar. Guðmundur Marías hefur einstaklega gott lag á því að töfra fram girnilega og gómsæta rétti. Ég hlakka mikið til að sjá hvað hann mun bera á borð fyrir lesendur í næstu viku.