-14.3 C
Selfoss

Ísdagur Kjörís er í dag

Vinsælast

Hinn árlegi Ísdagur Kjöríss verður haldinn við verksmiðju Kjörís í Hveragerði í dag laugardaginn 17. ágúst, milli kl. 13–16. Dagurinn er haldinn í samstarfi við bæjarhátíðina Blómstrandi daga og því geta gestir einnig notið annarar dagskrár sem í boði er í bænum. Mörg þúsund manns hafa mætt á hátíðina undanfarin ár sem nú er haldin í 13. skipti en mjög vinsælt hefur verið meðal höfuðborgarbúa að bregða sér í ísbíltúr til Hveragerðis á þessum degi.

Í ár heldur Kjörís upp á 50 ára afmæli og ber ísdagurinn keim af því. Lögð verður sérstök ísleiðsla úr verksmiðju Kjöríss og út á bílaplan. Þar eru dælurnar í stanslausri notkun allan daginn enda mega gestirnir borða eins mikið og þeir geta í sig látið. Í fyrra runnu um tvö og hálft tonn af ís ofan í gesti Ísdagsins. Ásamt hinum hefðbunda ís verður líkt og síðustu ár boðið upp á alls kyns svokölluð ólíkindabrögð sem ísgerðarmenn Kjöríss hafa leikið sér með, líkt og ís úr aspasís, hnetsmjörsís, kampvínsís og lúsmís. Ásamt öðrum gómsætum tegundum eins og súkkulaði veganís, kókosbolluís og fleira.

Skemmtidagskrá verður á staðnum fyrir börn og fullorðna. Ingó Veðurguð mætir með gítarinn, Daði Freyr, hin hvergerðska Birna og herra Hnetusmjör skemmta gestum. Einnig mæta BMX brós og Hjalti úrsus með þrautabraut. Kynnir verður Lalli töframaður. Dagskráin hefst kl. 13 og lýkur kl. 16.

Nýjar fréttir