-1.1 C
Selfoss

Örn Óskarsson fékk viðurkenningu fyrir ómetanlegt framlag til umhverfismála

Vinsælast

Örn Óskarsson, líffræðingur og framhaldsskólakennari, fékk afhent umhverfisverðlaun Sveitafélagsins Árborgar um liðna helgi fyrir ómetanlegt framlag til umhverfismála til fjölda ára. Í umsögn með verðlaununum segir:

„Örn hefur unnið að umhverfismálum á fjölmörgum sviðum í gegnum tíðina. Samfara kennslu í ýmsum náttúrugreinum við Fjölbrautaskóla Suðurlands var hann um árabil umsjónarmaður unglingavinnunar á Selfossi á sumrin og stóð fyrir ýmsum framkvæmdum, trjárækt og umhverfisbótum á Selfossi og nágrenni á þeim vettvangi. Má þar sem dæmi nefna uppbyggingu tjaldsvæðisins við Engjaveg o.fl. Þá hafði Örn umsjón með uppbyggingu gróðursvæða kringum FSu samhliða kennslu sinni þar.

Örn hefur verið ötull skógræktaráhugamaður alla tíð. Hann var formaður Skógræktarfélags Selfoss um árabil þegar félagið hóf uppbyggingu skógræktar- og útivistarsvæðisins í Hellisskógi, perlu sem sem Selfossbúar og gestir njótum ríkulega í dag. Nýlega tók hann aftur við formennsku í félaginu og gegnir því í dag.

Örn er einnig mikill áhugamaður um fugla og fuglaljósmyndun og heldur úti opinni myndasíðu á netinu en margar af ljósmyndum hans hafa einnig verið birtar á opinberum vettvangi. Örn er mjög fær náttúruljósmyndari og hefur verið ötull að birta myndir t.d. af Ölfusá og umhverfi hennar svo eftir er tekið, öllum til ánægju og yndisauka.

Að síðustu eru e.t.v. færri sem vita að fyrir utan allt ofantalið þá hefur Örn að eigin frumkvæði haldið úti heimasíðu um náttúrufar Veiðivatna, samhliða því að vera slyngur veiðimaður sjálfur. Örn hefur þannig haldið utan um öll aflabrögð í vötnunum mörg undanfarin ár ásamt fuglatalningu og ýmsu fleiru. Að sjálfsögðu hafa síðan fylgt margar frábærar ljósmyndir af þeim einstaka stað. Það er heiður að fá að afhenda Erni þessum mikla náttúruunnanda umhverfisverðlaun Svf. Árborgar.“

Nýjar fréttir