1.7 C
Selfoss

Blómstrandi dagar hefjast í Hveragerði í dag

Vinsælast

Það verður skemmtileg stemning í Hveragerði þegar hin árlega bæjarhátíð Blómstrandi dagar fer fram. Í ár er metnaðarfull og fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna og margt í boði, listsýningar, markaðstorg með grænmeti, handverki og bókum og opnar vinnustofur og gallerí hjá fjölmörgum listamönnum. Fjölskyldudagskrá verður á laugardeginum í Lystigarðinum þar sem m.a. koma fram félagar í Hljómlistarfélagi Hveragerðis, Sveppi og Villi, Flækjuleikhópurinn og fleiri. Leikhópurinn Lotta sýnir í Lystigarðinum á sunnudeginum og er öllum boðið á sýninguna. Einnig má skemmta sér í veltibílnum, aparólu o.fl.

Ísdagurinn hefur mikið aðdráttarafl en í ár fagnar Kjörís 50 ára afmæli. Hann verður laugardaginn 17. ágúst. Það verður án efa gaman að smakka allskyns furðubrögð og fleiri tegundir. Kjörís býður upp á skemmtidagskrá á sviði þar sem m.a. Ingó, Herra Hnetusmjör, Daði Freyr, Birna, Lalli töframaður og fleiri koma fram. Hin árlega kraftakeppni með Hjalta Úrsus verður einnig á sínum stað. Þjónustufyrirtæki í bænum bjóða upp á fjölbreytta dagskrá og má þar nefna tónlistardagskrá við Matkrána og í Skyrgerðinni, markaði við Hverablóm og hjá Flóru garðyrkjustöð og Blómagleði og pub quiz í Rósakaffi.

Vönduð tónlistardagskrá verður alla dagana þar sem landsfrægir tónlistarmenn koma fram. Djassband Ómars Einars kemur fram í kvöld fimmtudagskvöld í Skyrgerðinni og Heimir Eyvindarson og hljómsveit býður upp á 90’s Nostalgíu á föstudagskvöldinu. Söngdívurnar, SB systur (Selma Björns, Sigga Beinteins og Svala Björgvins) koma m.a. fram á tónleikum í Listasafni Árnesinga á sunnudeginum.

Glæsilegir tónleikar verða fyrir brekkusöng með Lay Low og Bassa Ólafs og síðan býður Kjörís upp á tónleika með Bubba Morthens en hann mun kyrja nokkur lög fyrir brekkusönginn sem Einsi Guðjóns stýrir í ár. Að lokum verður stórglæsileg flugeldasýning sem enginn má missa af. Hljómsveitin Made In Sveitin leikur síðan á Blómadansleiknum sem verður á Hótel Örk.

Það er tilvalið að heimsækja bæinn og njóta þess sem er í boði. Allir eru boðnir velkomnir.

Sjá nánar á www.hveragerdi.is og á Blómstrandi dagar í Hveragerði á facebook

Nýjar fréttir