Eggert Valur Guðmundsson, formaður bæjarráðs, afhenti umhverfisverðlaun Sveitarfélagsins Árborgar í Sigtúnsgarði á Selfossi sl. laugardag. Leitað var eftir tilnefningum frá íbúum og bárust margar tilnefningar.
Fallegasti garðurinn
Fallegasti garðurinn var valinn Eyjasel 11 á Stokkseyri, en þar búa Viktor Tómasson og Ásrún Ásgeirsdóttir. Garðurinn er snyrtilegur og fallegur og kemur dálítið á óvart því hann sést ekki mikið frá götunni og er því smá falinn.
Fallegasta fyrirtækið
Fallegasta fyrirtækið var valið Björgunarmiðstöðin á Selfossi. Hjá þeim er alltaf snyrtilegt og fínt á planinu við húsið. Eins ræður snyrtimennskan ríkjum innanhúss.
Umhverfisverðlaun Árborgar
Örn Óskarsson, líffræðingur og framhaldsskólakennari, fékk afhent umhverfisverðlaun Sveitarfélagsins Árborgar fyrir ómetanlegt framlag til umhverfismála til fjölda ára. Örn hefur unnið að umhverfismálum á fjölmörgum sviðum í gegnum tíðina. Þetta var í fyrsta skipti sem einstaklingi eru veitt þessi verðlaun.
Fallegasta gatan
Fallegasta gatan var valin Starmói á Selfossi. Elsti íbúinn er Ásmundur Daníelsson fæddur 23. ágúst 1939 en hann býr í Starmóa 7 og sá yngsti er Snorri Kristinsson, fæddur 13. desember 2017. Hann býr í Starmóa 12 með foreldrum sínum Ásrúnu Magnúsdóttur og Kristni Högnasyni. Starmói var valinn því hann þótti heilt yfir snyrtileg og falleg gata og hefur yfirleitt alltaf verið það.