-4.1 C
Selfoss
Home Fréttir Rafmagnsbifhjól kynnt á Selfossi

Rafmagnsbifhjól kynnt á Selfossi

0
Rafmagnsbifhjól kynnt á Selfossi
Ármann Magnús Magnússon, formaður Postulanna, bifhjólasamtaka Suðurlands, ásamt Kristjáni Gíslasyni einum leiðangursmanna. Mynd: ÖG.

Sniglar, bifhjólasamtök lýð­veldisins, og Orka náttúr­unnar (ON) efndu í tilefni 35 ára afmælis Sniglanna til hring­ferðar um Ísland á rafmagns­bif­hjólum frá Electric Motorcycles og Energica dagana 8.–15. ágúst. Post­ularnir, bifhjólasam­tök Suð­ur­lands tóku á móti hópnum á Sel­fossi í gærkvöldi.

Ármann Magnús Magnús­son, formaður Postulanna, segir að enn sé enginn þeirra félaga á rafmagnsbifhjóli. Menn séu samt áhugasamir og að þetta sé framtíðin.

„Sniglarnir eru á hringferð um landið á rafmagnshjólum í samstarfi við Electric Motorcycles og Energica og Orku náttúrunnar. Erlendu aðilarnir eru að kynna þessi nýju hjól og Orka náttúrunnar er að komast að því hvort að þeirra rafmagnsveitukerfi, þ.e. stöðvarnar þeirra, höndli rafmagnshjól, t.d. hvort nógu þétt sé á milli stöðva til að hjólin komist hringinn.“

Þeir lögðu af stað frá Seyðisfirði 8. ágúst sl. og eru búnir að fara norðurleiðina. Þeir komu hingað úr bænum og eru á leiðinni austur til baka. Það eru síðan klúbbar víðs vegar um landið sem eru að taka á móti þeim og eru að fræðast um þessi hjól. Postularnir tóku á móti þeim hérna á Selfossi.“

Eru einhverjir af ykkar félagsmönnum komnir á rafmagnshjól?
„Nei það eru engir ennþá. Það eru margir ekkert voða spenntir yfir því en kannski breytti einhverju þegar Harley Davidsson gaf út að þeir ætluðu að fara að framleiða rafmagnshjól. Menn eru samt áhugasamir. Þetta er náttúrulega bara eitthvað nýtt sem er að koma. Það á eftir að koma í ljós hvernig þetta virkar og hjólin reynast,“ segir Ármann Magnús.

Hvað með hávaðann í hjólunum? Eiga menn kannski eftir að sakna hans?
„Ég er á hávaðasömu hjóli og segi bara „loud face“. Fólk tekur eftir hjólunum ef það er hávaði í þeim. Það gerir mann öruggari í umferðinni. Ég held að það sé svolítill galli við rafmagnsbifhjólin að það heyrist ekkert í þeim. Fólk kannski tekur ekki eftir þeim jafn snemma og hinum. En þau eru umhverfisvænni. Það er ekki spurning. Framtíðin er klárlega þarna. Þessi hjól eru komin til að vera. Bensínmótorinn er víða víkjandi núna.“

Um 260 félagsmenn eru skráðir í Postulana. Þau hittast öll þriðjudagskvöld klukkan átta og hjóla saman. Ármann Magnús segir að þau hafa hjólað víðs vegar um landið í sumar og fengið sér kaffibolla hér og þar. „Svo erum við með skipulagðar ferðir eins og Geysisferðina sem er alltaf vel sótt. Við höfum líka farið til Vestmannaeyja og á Snæfellsnesið.“

Þeir sem eiga mótorhjól eða hafa áhuga á þeim geta mætt á þriðjudagskvöldum í Hrísholtið á Selfossi bak við Pitstop (Sólningu). „Fólk þarf ekkert endilega að vera meðlimir í klúbbnum, bara eiga hjól og hafa gaman af að hjóla. Allir eru velkomnir,“ segir Ármann Magnús.

Sniglar, bifhjólasamtök lýðveldisins og Orka náttúrunnar fara hringveginn á rafmagnsbifhjólum

Sniglar, bifhjólasamtök lýðveldisins, og Orka náttúrunnar (ON) efndu í tilefni 35 ára afmælis Snigla til hringferðar um Ísland á rafmagnsbifhjólum. Ferðin var farin dagana 8.–15. ágúst á rafmagnsbifhjólum frá Electric Motorcycles og Energica. ON studdi veglega við verkefnið í þeim tilgangi að stuðla að orkuskiptum í samgöngum en rafmagnsbifhjól þjóna vel þeim markmiðum.

Þegar hersingin ók í gegnum Reykjavík, mánudaginn 12. ágúst sl. var efnt til málþings í höfuðstöðvum ON við Bæjarháls um orkuskiptin sem hluta af samgöngumáta framtíðarinnar. Þar voru rafmagnsbifhjólin sem fara hringferðina til sýnis.

Hringferð Snigla og ON hófst á Seyðisfirði 8. ágúst, en þá komu til landsins með Norrænu fulltrúar Electric Motorcycles og Energica með sex rafmagnsbifhjól. Fylgdarbíll í ferðinni var Tesla Model X. Energica framleiðir rafmagnsbifhjól sem eru á meðal öflugustu ökutækja heims, en notast þó ekki við koldíoxíðlosandi eldsneyti.

Áð var á fjölmörgum stöðum um landið og voru rafmagnsbifhjólin til sýnis gestum og gangandi sem gátu spurt hringfarana út í þessa áhugaverðu tækni og ferðalagið. Hægt var að fylgjast með framgangi ferðarinnar á „Rafmögnuð hringferð“ á Facebook og skoða myndir með myllumerkinu #rafmognudhringferd.

Föruneyti hringsins
Fyrir hönd Snigla fór formaður samtakanna, Steinmar Gunnarsson, fyrir hringreiðinni en með honum í för voru Marchel og Ingrid Bulthuis frá Electric Motorcycles og Energica. Jafnframt slóst hinn þaulreyndi Kristján Gíslason hringfari með í för. Hann lauk fyrir ekki svo löngu hringferð um jörðina á mótorhjóli.

Ferðin hófst á Seyðisfirði 8. ágúst. Þann 9. var komið til Húsavíkur og daginn eftir til Akureyrar. Sunnudaginn 11. ágúst var hópurinn i Borgarnesi og á mánudegi í Reykjavík. Um kvöldið var hópurinn við BYKO á Selfossi. Þaðan var ferðinni heitið til Hafnar í Hornafirði 13. ágúst og til Djúpavogs 14. ágúst. Ferðinni lauk svo á Seyðisfirði 15. ágúst en þaðan var haldið til Danmerkur með Norrænu.

Energica Motor Company S.p.A er ítalskur rafmagnsbifhjólaframleiðandi í Modena á Ítalíu, þar sem hjarta ítalskrar bíla- og mótorhjólaframleiðslu er. Energica eru þróuð og hönnuð af færustu verkfræðingum og tæknifólki úr Formúlu 1. Energica Evo rafmagnsbifhjólið er sem dæmi búið 145 hestafla vél.