-4.8 C
Selfoss
Home Fréttir Einfaldleiki en gæði og bragð haft í hávegum

Einfaldleiki en gæði og bragð haft í hávegum

0
Einfaldleiki en gæði og bragð haft í hávegum
Ævar Svan Sigurðsson.

Ævar Svan Sigurðsson er sunnlenski matgæðingurinnn. Ég vil byrja á því að þakka Ómari vini mínum og veiðifélaga (oft þekktum sem bakaradrengurinn) fyrir áskorunina. Jafnframt hlakka ég til þess að prófa hans uppskriftir. Þegar svona áskorun berst þarf að vanda valið og nýta helst það sem finnst hér í okkar nánasta umhverfi sem við ættum auðvitað alltaf að reyna.

Í þessari útgáfu ákvað ég að halda mig við einfaldleikann en þó hafa gæði og bragð í hávegum. Það ættu í raun allir að geta framreitt þá rétti sem hér eru meðfylgjandi. (Forrétturinn virðist kannski vera flókinn en er það alls ekki.)

Forréttur (fyrir u.þ.b. 6 fullorðna)

  • Gæsabringur af túni á Suðurlandi (2 stk.)
  • Snittubrauð, hefði verið frá Ómari en er hér eftir frá Almari á Selfossi (2 stk.)
  • Sykur, ýmiskonar krydd, salt og bláberjasulta (skýringar hér að neðan)

Aðferð:
Gæsabringur, grafnar

  • 2 bringur
  • 4-5 msk. sykur
  • 4 dl gróft salt

Blanda salti og sykri saman í skál og hylja bringurnar vel. Þetta er látið standa á eldhúsborðinu í ca. 4 klst. Þá eru bringurnar skolaðar og þeim velt upp úr og þaktar með eftirfarandi kryddblöndu:

Kryddblanda:

  • 1 msk. rósapiparar / (blandaður pipar)
  • 1 msk. timjan
  • 1 msk. basilíka
  • 1 msk. estragon
  • 1 msk. rósmarin
  • 1 msk. dillfræ
  • 1 msk. sinnepsfræ
  • 1 msk. sykur

Gott er að vefja bringunum mjög þétt inn í sellofan. Setja í frysti í smá tíma, ca. 2 klst. Eftir það eru þær skornar niður í þunnar sneiðar og settar á niðurskorið snittubrauð ásamt 1 tsk. af eftirfarandi sósu (sem er ómissandi):

Bláberjasósa:

  • 2-3 dl bláberjasulta
  • 2 msk. balsamikedik
  • 1 msk. timjan
  • ½-1 tsk. pipar
  • 1 dl olía

Allt sett í matvinnsluvél NEMA olían og blandað mjög vel. Olíunni er hellt rólega saman við á meðan. Eftir að búið er að láta sósuna standa í ísskáp í 1-2 klst. er hún tilbúin.

Aðalréttur:

  • Laxahamborgarar frá Fiskási á Hellu
  • Hamborgarabrauð
  • Ostsneiðar frá MS
  • Sultaður laukur
  • Sveppir frá Flúðum
  • Laukur frá býli
  • Barbíkjú majó eða Chilli majó
  • Smjör frá MS

Þetta er einfaldur en alveg rosalega góður réttur sem auk þess er stútfullur af Omega-3! Jafnframt er þetta góð tilbreiting.

Aðferð

Laxaborgararnir eru tilbúnir á grillið þegar búið er að taka þá úr plastinu og taka filmuna af báðum hliðum. Ekki þarf að krydda þá. En gott er að útbúa grillbakka úr álpappír undir þá. Setja klípu af íslensku smjöri undir hvern borgara og ostsneið þegar búið er að snúa þeim.

Á meðan þeir grillast eru sveppirnir, hvítlaukurinn og laukurinn skornir niður í sneiðar og smjörsteiktir með miklu íslensku smjöri.

Það má ekki sleppa sultaða lauknum! En hann er settur á brauðið ásamt Barbíkjú majó að viðbættu því sem smjörsteikt var.

Borgarinn er síðan borinn fram með góðum bjór (t.d. Freyju frá Ölvisholti) eða köldu glasi af góðu hvítvíni.

Eftirréttur

  • Forrétturinn … en nú með 2–3 skeiðum af sósu!

Ég vil skora á mjög góðan félaga minn, Birgi Ásgeir Kristjánsson, sem næsta matgæðing. Ég veit að honum er nánast allt til lista lagt og efast því ekki um að hann geti töfrað fram einhverjar kræsingar sem okkur Sunnlendingum mun þyrsta í að prófa.