-8.9 C
Selfoss

Sumar á Selfossi um helgina

Vinsælast

Hátíðin Sumar á Selfossi fer fram í 25. skipti dagana 8.–11. ágúst. Hátíðin verður með svipuðu sniði og undanfarin ár þar sem boðið verður upp á tónleika, myndlistasýningar, fjölskylduafþreyingu, kraftakeppni og menningargöngur. Íbúar munu skreyta hús sín og keppa um hvaða gata verður valin Skemmtilegasta gatan í Árborg 2019.

Á fimmtudag kl. 15:00 verður afmæliskaffi í Tryggvaskála fyrir alla íbúa sem fæddir eru árið 1944 og verða 75 ára á árinu. Um kvöldið kl. 20:00 verður kraftmikil sýning BMX BRÓS í Sigtúnsgarðinum. Þar sýna færustu hjólasnillingar landsins snilli sína. Kl. 20:30 hefjast tónleikar Ingólfs Þórarinssonar og hljómsveitar hans Patýliðsins.

Stuðmenn verða með tónleika í tjaldinu í Sigtúnsgarði á föstudagskvöld.

Á föstudag verða opnar myndlistasýningar og ljósmyndasýning. Olísmótið í knattspyrnu hefst kl. 14:00 og Arionbankadagurinn stendur frá kl. 15–17. Þar verða hoppukastalar, sprell o.fl. Kl. 17:00 kemur í ljós hvaða gata var valin fallegasta gatan í Árborgar. Um kvöldið verða síðan stórtónleikar með hinum einu og sönnu Stuðmönnum. Tónleikarnir hefjast kl. 20:00 og um kl. 23:00 tekur trúbadorinn Magnús Kjartan við.

Stuðlabandið sér um fjörið á laugardagskvöld.

Laugardagurinn hefst venju samkvæmt með morgunverði íbúa kl. 09:00 í hátíðartjaldinu Sigtúnsgarðinum. Þar bjóða fuyrirtæki á Seflossi íbúunum í morgunmat. Kl. 10:00 verða umhverfisverðlaun Árborgar afhent. Brúarhalupið hefst svo um kl. 11 og einnig verður handverksmarkaður opinn og hægt að fara í ýmis leiktæki. Eftir hádegi mætir Hafþór Júlíus Björnsson, Mateusz Kieliskowski, Stolton bræður og fleiri heljarmenni. Þeir munu m.a. etja kappi í trukkadrætti undir Ölfusárbrú og lóðakasti í Sigtúnsgarðinum. Þarna munu keppa öflugustu kraftlyftingamenn heims í Iceland Strongest Man Challenge. Barnadagskrá verður á sviðinu, froðufjör o.fl. Kl. 16:00 hefst hefðbundin menningarganga og verður lagt af stað frá Tryggvaskála. Eonnig verður barnamenningarganga í Hellisskógi. Raddböndin verða mýkt á Kaffi krús með lifandi tónlist kl. 16:30. Íbúar safnast síðan saman í Sigtúnsgarðinum og hlýða á hátíðarávarp kl. 21:30 áður en sléttusöngur hefst. Flugeldasýning BÁ Bílverks verður kl. 23:00 og síðan ball í hátíðartjaldinu með Stuðlabandinu á eftir.

Á sunnudag verða úrslit í Olísmótinu, myndlistarsýning í Hótelinu og endað með fjölskyldubíói í Bíóhúsinu kl. 15:00.

Nýjar fréttir