-1.1 C
Selfoss

Hlaupaáskorunin Úr sófanum hefst í dag

Vinsælast

Hlaupaáskorunin ÚR SÓFANUM sem SÍBS og Komaso standa fyrir fer af stað í dag miðvikudaginn 7. ágúst kl. 17:30 með Laugaskokki frá SÍBS Verslun Síðumúla 6 í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að þátttakendur æfi þrisvar í viku en boðið verður upp á 10 opnar æfingar á miðvikudögum frá 7. ágúst til 2. október. Boðið verður upp á ókeypis heilsufarsmælingar í upphafi og lok átaks.

Verkefnið er sett af stað til þess að hvetja fólk til að hreyfa sig reglulega sér til ánægju og nýta stuðning hlaupahópa í sínu nærumhverfi til að viðhalda þeirri góðu venju. Stefnt að því að þeir sem vilja geti gengið eða skokkað 5 km í Hjartadagshlaupinu 28. september nk.

SÍBS verslun verður að þessu tilefni með 30% afslátt af INOV8 hlaupavörum og 1000mile sokkum. SÍBS Líf og heilsa verkefnið býður upp á heilsufarsmælingu í versluninni að Síðumúla 6 vikuna 12.–15. ágúst (opið kl. 11-17) sem felur í sér mælingu á blóðþrýstingi, blóðfitu, blóðsykri, súrefnismettun og fleiri gildum auk þess sem þátttakendum gefst kostur á að svara lýðheilsukönnun sem tekur á öðrum áhrifaþáttum heilsu og geta í kjölfarið nálgast samanburðarniðurstöður í Heilsugátt SÍBS.

Ívar Trausti Jósafatson þjálfari frá Komaso heldur utan um verkefnið. Hann mun styðja við þátttakendur og taka þátt í opnum æfingum hlaupahópa og fyrirtæki geta tekið þátt og óskað eftir kynningu á verkefninu frá Ívari.

Allir geta tekið þátt og fylgt æfingaprógraminu. Aðstandendur verkefnisins eru að fara af stað með átakið í fyrsta sinn en hafa mikinn áhuga á að virkja fleiri hlaupahópa til að skipuleggja opnar æfingar í sinni heimabyggð. Opnu æfingarnar sem búið er að festa núna eru á höfuðborgarsvæðinu, ein hjá hverjum hlaupahópi, en það má bæta við æfingum í öðrum landshlutum. Hlaupahópar á Suðurlandi geta sett sig í samband við Ívar Trausta og tekið þátt. Þá verður Sunnlendingum boðið upp á ókeypis heilsufarsmælingar á Grímsævintýrum um næstu helgi.

 

Nýjar fréttir