-8 C
Selfoss

Hamingjan við hafið hefst í Þorlákshöfn í dag

Vinsælast

Hamingjan við hafið, ný bæjar- og fjölskylduhátíð í Þorlákshöfn, hefst í dag þriðjudaginn 6. ágúst og stendur yfir fram á sunnudagskvöld. Dagskráin er stútfull af spennandi, ókeypis viðburðum fyrir alla fjölskylduna og rétt að hafa í huga að Þorlákshöfn er í aðeins 30 mín. fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu.

Dagskráin nær hápunkti föstudagskvöldið 9. ágúst með ókeypis stórtónleikum í Skrúðgarðinum þar sem fram koma hljómsveitirnar No Sleep, GDRN, Daði Freyr og Baggalútur ásamt leynigesti. Á staðnum verða einnig leiktæki frá Sprell og ilmandi matarvagnar. Það má segja að þessi hápunktur haldist yfir alla helgina þar sem dagskrá laugardags og sunnudags verður ævintýri líkust og hugsuð þannig að allar kynslóðir geti notið sín saman.

Á laugardeginum gefst fólki kostur á að prófa sjóbretti og skella sér í rib bátaferð og sunnlenska götubitakeppnin verður haldin í fyrsta sinn auk þess sem pop up gallerý verður í gömlu bræðslunni alla helgina. Þá verður ljósmyndasýning, sandkastala- og dorgveiðikeppni, barna- og fjölskylduskemmtun í Skrúðgarði þar sem meðal annars verður leikvöllur með opnum efnivið, fjölskyldubollywood, sirkus atriði, leikhópurinn Lotta, hoppukastalar og miklu fleira.

Á laugardagskvöldinu munu hverfin bjóða gestum í partý í gömlu bræðslunni við Hafnarskeið. Þar verður léttur partý matur á boðstólnum, lifandi tónlist og að sjálfsögðu allt skreytt í réttu hverfalitunum. Í framhaldi af hverfapartýunum mun Jarl Sigurgeirsson leiða bryggjusöng við varðeld í portinu hjá gömlu bræðslunni sem endar svo með glæsilegri flugeldasýningu.

Sunnudagurinn 11. ágúst verður enginn rólegheitadagur í höfuðborg hamingjunnar, Þorlákshöfn. Þá verður hver leiksýningin á eftir annari, frítt á Jarðhitasýningu Orku náttúrunnar í Hellisheiðarvirkjun þar sem hamingjusamasta lúðrasveit landsins tekur á móti gestum með hressandi lúðrablæstri. Síðasti dagskráliður Hamingjunnar við hafið verður í Selvoginum, þar sem draugasöguganga leggur af stað kl. 21 undir handleiðslu Jóa Davíðs.

Flestir dagskráliðir verða gestum að kostnaðarlausu og tjaldsvæðin við sundlaugina verða stækkuð svo nóg pláss verður fyrir fjölskyldur að tjalda.

Facebooksíða Hamingjunnar við hafið
https://www.facebook.com/hamingjanvidhafid/

Dagskráin á PDF skjali https://www.olfus.is/static/files/Skrar/vefdagskra.pdf

Nýjar fréttir