-6.6 C
Selfoss

Erum að byggja upp stórkostlegan golfvöll

Vinsælast

Miklar framkvæmdir standa yfir á Svarf­hóls­velli, svæði Golf­klúbbs Selfoss um þessar mundir. Frá því í haust hefur verið tekið á móti jarðvegsefni úr grunnum og götum á Selfossi og það notað í landmótun á nýjum brautum golf­klúbbsins. Á næstu árum mun golfvöllurinn stækka úr 9 holu velli í 18 holu völl. Þá var fyrir stuttu byrjað á nýju áhalda- og æfingahúsnæði. Hlynur Geir Hjartarson, framkvæmdastjóri golf­klúbbsins, var tekinn tali í vikunni og spurður út í fram­kvæmdirnar.

Byggja þrjár nýjar holur
„Framkvæmdirnar hjá okkur núna eru þannig að við erum að byggja upp þrjár nýjar holur sem eru merktar 1. hola, 10. hola og 18. hola. Þær eru eiginlega til að bjarga okkur því við munum missa þrjár holur og afhenda Vega­gerðinni landsvæði suður með vellinum í september 2022. Við erum eiginlega núna að und­ir­búa það, erum búnir að sá og langt komnir með þessar þrjár hol­ur. Við byrjuðum á því síð­ast­liðið haust og reiknum með að opna inn á það svæði 2021. Strax eftir næstu áramót munum við síðan halda áfram að gera þrjár nýjar holur og þannig vinna okk­ur áfram upp í 18 holur á næstu árum,“ segir Hlynur Geir.

Hlynur Geir segir að það sé lykilatriði hjá klúbbnum núna að missa ekki völlinn úr 9 holum niður í 6 holur. Hann verði meðan á framkvæmdum standi alltaf að lágmarki 9 holur. Á ákveðnum tímapunkti fer hann upp í 12 hol­ur en fer síðan niður í 9 holur þegar Vegagerðin fær sitt svæði.

Getum byggt upp flottari völl en við ætluðum að gera
Hlynur Geir er spurður hvernig það hafi komið til að klúbburinn hafi fengi allan þennan jarðveg sem búið er að flytja á svæðið.
„Það kom svolítið skemmti­lega upp. Það var komið upp ákveðið vesen með jarðvegslosunarsvæði í sveitarfélaginu. Það leiddi m.a. til þess að við gerðum samning við sveitarfélagið í ágúst í fyrra um að taka á móti jarð­vegi úr grunnum, götum, bygg­ingum og öllu þess háttar á Selfossi. Við áætlum að taka á móti verulegu magni af efni til að byggja upp svæðið hér. Við ætl­uð­um aldrei að gera það. Við ætl­uðum bara að byggja upp venjulegan sjáfbæran völl. Þessir samn­ingar eru mjög góðir fyrir báða aðila þ.e. golfklúbbinn og sveitarfélagið. Með þessu móti getum við byggt upp stórkotlegan golfvöll, miklu flottari völl held­ur en við ætluðum að gera. Við verðum samt sjálfbær og gerum bara fallegt landslag á öllum braut­unum úr þessum efnum. Skipulagið og umhverfið verður allt fallegra því þetta er heilt yfir mjög gott efni sem við erum að fá frá mörgum svæðum á Selfossi. Þó eitthvað komi af hrauni eða öðru sambærilegu efni þá komum við því fyrir á öðrum stöðum.

Hlynur Geir ásamt smiðum sem vinna að því að slá upp fyrir grunni nýja hússins. Mynd. ÖG.

Nýtt hús undir vélar og til inniæfinga
Um langt skeið hefur Golfklúbbur Selfoss ekki haft boðlega aðstöðu fyrir vélar eða starfsmenn á golf­vellinum. Árið 1990 var byggður til bráðabirgða lítill kofi sem átti að vera í eitt til tvö ár. Hlynur Geir segir að völlurinn hafi lengi vel verið í veseni eða í raun allt frá því er hann kom á núverandi stað 1985. „Það var aldrei neitt fast í hend um framtíð hans,“ seg­ir Hlynur Geir. „Með kaupum sveitarfélagsins á landsvæðinu hér árið 2014 og langtímasamn­ingi sem var gerður var okkur tryggð aðstaða inn í framtíðina. Með tilkomu þessa samninga get­um við nú byggt okkur hús sem verður undir vélar og starfs­menn. Þar verður einnig inni­aðstaða fyrir klúbbmeðlimi. Við höfum undanfarið þurft að leigja inniaðstöðu á Selfossi sem reynd­ar hefur virkað rosalega vel. Þar hefur verið mikil aðsókn eða um 200 manns í hverri viku. Nú mun­um við koma með þetta allt inn á okkar svæði. Það er miklu hagstæðara. Þá eigum við bara okkar hús. Húsið er 427 fermetra innflutt límtréshús. Við fengum tilboð í þetta út um allt en Gísli Rafn Gylfason var hagstæðastur með þetta innflutta hús. Húsið er mjög fallegt og við ætlum líka að gera fallegt í kringum það, hafa manir, tré o.fl. Núna er verið að vinna í sökkli hússins og við áætl­um að það verði reist um miðjan september. Síðan er stefnt á að opna inn á það sennilega í byrjun nóvember.“

Góður golfvöllur mikil­vægur í sveitarfélaginu
Í dag eru m 520 félagar í Golfklúbbi Selfoss sem gerir klúbbinn að fjöl­mennasta golfklúbbi Suður­lands. GOS er með 9 holu völl í dag en stefnan er að vera með 18 holu völl innan fárra ára. Hlynur Geir segir að Golfsamband Íslands bíði spennt eftir 18 holu velli við Selfoss og að þar vilji menn stefna á að halda alvöru stórmót á vellinum. Golfklúbburinn fer ört vaxandi eins og sveitarfélagið hef­ur gert undanfarið. „Maður er búinn að sjá mikla aðsókn í Golf­klúbbinn síðustu ár. Hingað hafa komið Selfyssingar með ungar fjölskyldur og börn í klúbbinn. Einnig hefur verið mikið um aðflutta sem eru að koma á Sel­foss. Margir eru greinilega að velja að flytja á Selfoss út af því að hér er góður golfvöllur í upp­byggingu og að við stefnum hátt. Það er greinilega mikilvægt fyrir svæðið að hafa góðan golfvöll. Þetta er partur af góðri þjónustu og hefur mikið gildi.“

Allir hafa tekið framkvæmdunum vel
„Við erum búin að vera mjög heppin með veður í sumar sem hefur auðvitað haft eitthvað að segja um aðsóknina. Við héldum að það yrði kannski vesen með aðsóknina vegna nálægðar fram­kvæmdanna hér í sumar og að þetta yrði fráhrindandi þ.e. að spila á milli moldarhrúga, en svo hefur ekki verið. Völlurinn sem slíkur er óbreyttur frá því sem hann var í fyrra. Við erum ein­göngu að gera viðbætur við hann núna. Við héldum að þetta yrði vesen en það eru komnir 2.500 fleiri hringir spilaðir en á sama tíma í fyrra, sem er gríðarleg aukn­ing. Svo hefur líka orðið mikil aukning í félaga­tal­inu. Það hafa allir tekið fram­kvæmd­unum vel og eru bara spenntir. Maður sér það bara á spiluninni. Það er bara jákvætt í kringum þetta allt saman,“ segir Hlynur Geir að lokum.

Nýjar fréttir