-10.3 C
Selfoss

Sumartónleikar í Skálholti um helgina

Vinsælast

Nú líður að síðustu helgi Sumartónleika í Skálholti en þá koma fram annars vegar listamennirnir Elfa Rún Kristinsdóttir, Sabine Erdmann og Magnus Andersson og hins vegar Barokkbandið Brák.

Biber & Schmelzer – Elfa Rún, Sabina og Magnus
Elfa Rún Kristinsdóttir, einn helsti sérfræðingur í flutningi barokktónlistar meðal Íslendinga í dag og fastagestur á Sumartónleikum, snýr aftur til Skálholts og leikur sónötur frá 17. öld eftir tónskáldin og fiðluvirtóúsana Biber og Schmelzer, ásamt nokkrum minna þekktum samtímamönnum þeirra. Elfa Rún hefur lengi búið í Þýskalandi og mætir nú með kollegum sínum, semballeikarann Sabine Erdmann og Magnus Andersson sem spilar á teorbu, strengjahljóðfæri sem var vinsælt á barokktímanum. Seinna á árinu er væntanlegur geisladiskur með sömu verkunum í flutningi þessara listamanna, gefinn út af Solaire Records og eru tónleikar núna um helgina tilvalið tækifæri að heyra barokkperlur í lífandi flutningi.
Tónleikarnir verð laugardaginn 3. ágúst kl. 14:00 og sunnudaginn 4. ágúst kl. 16:00.

Þuríður Jónsdóttir staðartónskáld hátíðarinnar. Mynd: Georgia Fanetti.

Þurí og Corelli – Barokkbandið Brák
Barokkbandið Brák endurspeglar í efnisskránni að þessu sinni allt það besta sem Sumartónleikar hafa upp að bjóða: þau munu ferðast fram og aftur í tíma og flytja tríósónötur eftir Corelli, hljómsveitarverk eftir Avison og Scarlatti, sem og einleiks- og kammerverk frá 20. öld. Það lítur út fyrir að hápunktur hátíðarinnar hafi verið geymdur þangað til síðustu tónleikarhelgina því á tónleikunum munu Brák frumflytja nýtt verk eftir Þuríði Jónsdóttur, staðartónskáld Sumartónleika.

Barokkbandið Brák.

Brák hefur verið starfrækt frá árinu 2014, en bandið var stofnað af fiðluleikurunum Laufeyju Jensdóttur, Guðbjörgu Hlín Guðmundsdóttur og Elfu Rún Kristinsdóttur sem er jafnframt listrænn stjórnandi. Hljómsveitin var þá skipuð hópi ungs fólks sem hefur sérhæft sig að hluta til í upprunaspilamennsku í námi erlendis, en hefur síðan þá verið í stöðugu toppformi og kemur sífellt á óvart.
Tónleikarnir verða laugardaginn 3. ágúst kl. 16:00 og sunnudaginn 4. ágúst kl. 14:00.

Enginn aðgangseyrir er tekinn að tónleikum en tekið er á móti frjálsum framlögum.

Nýjar fréttir