-1.1 C
Selfoss

Félagsheimilið er að mörgu leyti hjartað í þorpinu

Vinsælast

Margir þekkja gildi þess að hafa gott félagsheimili í nágrenninu en Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka skipar stóran sess í þorpinu við ströndina. Húsið sjálft á sér drjúga sögu sem bíður betri tíma. Þau Elín Birna Bjarnfinnsdóttir og Ingólfur Hjálmarsson hafa tekið við umsjá hússins úr hendi Siggeirs Ingólfssonar, sem séð hefur um staðinn fyrir Sveitarfélagið Árborg undanfarin ár. Dagskráin leit við í snarpheitt kaffi og spjall við þau Ingólf og Elínu um húsið, starfsemina og staðinn.

Ákváðu að snúa bökum saman
„Þegar það kom upp að Siggeir ákvað að láta af starfinu hafði ég áhyggjur af því að hluti af starfinu myndi deyja út. Hér koma til dæmis nokkrir karlar úr þorpinu í morgunkaffi til að spjalla og skrafa. Það hugnaðist mér ekki og þá fór ég að láta það hvissast út að ég hefði áhuga á því að taka við keflinu. Það kom þá upp úr dúrnum að Elín hafði líka hug til þess sama. Hún kom svo með þá hugmynd að sækja um þetta saman. Mér leist strax vel á það. Við ákváðum því að fara í samstarf í stað þess að slást um þetta og það er heillaspor finnst mér,“ segir Ingólfur kíminn.

Hefur heilmikið gildi fyrir samfélagið
Ýmis starfsemi er í húsnæðinu en krakkar úr Barnaskólanum á Eyrarbakka fara m.a. í íþróttir í íþróttasalnum. Þá eru haldnar veislur, þorrablót, 17. júní skemmtanir og svo mætti lengi telja. „Þetta hús kemur við sögu hjá flestum sem búa í þorpinu á hvaða aldri sem þeir eru. Hér eru eldri borgarar með boccia sem dæmi og þá hafa verið haldin böll hér langt fram á nótt. Svo kemur yngsta kynslóðin í íþróttir hér á veturna. Þetta er samkomuhúsið á staðnum og er að mörgu leyti hjartað í þorpinu,“ segja þau aðspurð um mikilvægi þess að hafa hús sem þetta í samfélaginu.

Margar hugmyndir og góður grunnur
Aðspurð um hvort áherslu breytingar á rekstrinum séu framundan segir Ingólfur rétt að fara varlega í allar slíkar yfirlýsingar en ýmsar hugmyndir séu þó uppi. Það er að heyra á þeim Elínu og Ingólfi að væntingar til aukinna umsvifa hússins, samfélaginu til góða, séu framarlega á listanum. „Eins og við komum inn á áður koma hérna karlar sem hittast til skrafs og ráðgerða alla morgna. Það er gulls ígildi að hafa svona samastað fyrir þorpið. Ef hægt væri að útvíkka þetta og bjóða ferðamönnum upp á slíka þjónustu hér er líklegt að það skili sér til samfélagsins með þeim hætti að þeir lengi stoppin hér í bænum og heimsæki jafnvel eitthvað annað í leiðinni,“ segja þau að lokum.

Þeir sem vilja kynna sér þjónustuna betur geta litiði inn á Facebooksíðuna: Samkomuhúsið Staður.

 

 

Nýjar fréttir