-7 C
Selfoss

Aðför að íslenskri menningu

Vinsælast

Laxabakki er fallegt hús með mjög hátt varðveislugildi. Um þessar mundir er, að frumkvæði Minjastofnunar Íslands, í gangi friðunarferli á húsum og tilheyrandi lóð enda myndar það tvennt samofna heild í tilfelli Laxabakka. Þetta hús þar sem það kúrir á Sogsbökkum hefur einnig löngum skipað sérstakan sess í hugum landsmanna. Undanfarnar vikur hafa núverandi eigendur og umsjónarmenn Laxabakka, Íslenski bærinn ehf., markvisst unnið að fyrsta áfanga í björgun þessara þjóðarverðmæta.

Hannes Lárusson.

Nú gætu lesendur haldið að fallega húsinu við Sogið og tilheyrandi landspildu bíði björt framtíð og innan skamms geti landsmenn komið á staðinn og notið þar einstakrar fegurðar og skoðað húsin sem þá hafi verið endurreist í upprunalegri mynd og náð fyrri reisn. Þessi sviðsmynd er því miður enn ekki í augsýn. Næstu nágrannar, Héraðsnefnd Árnesinga og Landvernd, sem gína sameiginlega yfir mörghundruð hekturum lands ásælast enn þessa eign og reyna með öllum ráðum að tefja eðlilegan framgang björgunaraðgerða, nýtingu þeirrar litlu lóðar sem húsunum fylgir og ganga fram með linnulausum yfirgangi og áreiti í garð eigenda og velunnara Laxabakka. Nú síðast hótar Héraðsnefnd Árnesinga, sbr. bókun 10. maí sl. og greint var frá í Dagskránni þann 24. júlí sl., að höfða mál gegn eigendum Laxabakka í því skyni að ná undir sig lóðinni og koma í veg fyrir frekari aðgerðir við björgun og uppbyggingu á húsum og tilheyrandi lóð.

Gjafagerningur
Aðkoma Héraðsnefndar Árnesinga og Landverndar að þessu landssvæði er með þeim hætti að í ársbyrjun 1973 býður Magnús Jóhannesson bóndi á Alviðru í Ölfushreppi þáverandi sýslunefnd Árnesinga og Landvernd til sameiginlegrar eignar jarðirnar Alviðru í Ölfushreppi og Öndverðarnes II í Grímsnes- og Grafningshreppi. Magnús vildi síðan draga þessa gjöf til baka, vafalaust af gildum ásæðum, en þá stefndi sýslunefndin og Landvernd Magnúsi fyrir dómstóla og hafði endanlega af honum jarðirnar og var gjafabréfinu í kjölfar þess þinglýst 15. des. 1975. Þessar „gjafajarðir“ tvær ásamt húsum hafa löngum liðið fyrir mikla vanrækslu og hirðuleysi gjafaþeganna tveggja.

Þegar þessi gjafagerningur var knúinn fram voru fyrir þrjár skilgreindar sumarbústaðalóðir í landi Öndverarness II sem stofnað hafði verið til á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar. Þessara lóða er hvergi getið í gjafabréfi Magnúsar og falla utan umræddrar gjafar, enda má ætla að um eignarlóðir hafi verið að ræða sem auglóslega væri ekki heimild til að gefa eða ráðstafa. Ein þessara lóða er lóð Laxabakka stofnuð af Ósvaldi Knudsen 1942 í samráði við Árna Jónsson þáverandi bónda, (og tengdaföður Magnúsar Jóhannessonar) í Alviðru og eiganda Öndverðarness II. Ósvaldur byggði á lóð sinni afar vandað hús sem var í stöðugri notkun fjölskyldu og vinafólks áratugum saman.

Laxabakki nýbyggður í júlí 1943.

Ásælni
Til að gera langa sögu stutta fór smám saman að bera á ágirnd Héraðsnefndarinnar og Landverndar til húsa og tilheyrandi lands á Laxabakka, og gengið svo langt að viðurkenna hvorki lögmæti þinglýstra skjala um eignarhald né viðurkenna afmörkun lóðarinnar eins og hún var sett niður árið 1942. Þessi ásælni hefur svo smám saman leitt til þess að eigendur höfðu ekki getað sinnt eign sinni um áratuga skeið með þeim afleiðingum að húsin voru að falli komin. Þegar sýnilegt var að stefnt gæti í menningarlegt stórslys ef húsin myndu glatast hóf Íslenski bærinn markvissar umleitanir til að bjarga þessum verðmætum.

Lögheimtan ehf. eignaðist Laxabakka árið 2004. Árið 2018 keypti Íslenski bærinn ehf. síðan umrædda eign með öllu sem henni tilheyrir af Lögheimtunni, hús og 1 hektara eignarlóð, og varð þar sem með þinglýstur eigandi Laxabakka með það markmið að leiðarljósi að bjarga þeim ótvíræðu menningarverðmætum sem í eigninni felast. Þessi markmið hafa þó ekki haft nein áhrif á framgöngu fulltrúa Héraðsnefndar Árnesinga og Landverndar, sem virðast nú ætla að gera alvöru úr því að reyna að ná til sín þessum eina hektara og fjármagna með almannafé aðför að eigendum Laxabakka, og þá væntanlega um leið höfða mál gegn eigendum hinna tveggja sumarbústaðalóðanna á svæðinu. Hið afar vafasama dómsmál gæti tafið eðliega uppbyggingu að Laxabakka mánuðum og jafnvel árum saman.

Sviðsmyndir
Íslenski bærinn hefur, í nánu samráði við Minjastofnun Íslands, þegar hafist handa við björgun Laxabakka. Allar innréttingar og innviðir húsanna hafa verið tekin niður, merkt kerfisbundið og viðgerð hafin á gluggum og innanstokksmunum. Markvissar áætlanir liggja fyrir um framhaldið, sem byggja á skýrri framtíðarsýn um nýtingu Laxabakka í almannaþágu. Á þessu stigi verður þó ekkert hægt að aðhafast frekar og því er nú búið að pakka Laxabakka inn ásamt þeim verðmætum sem í honum felast um óákveðinn tíma.

Fulltrúar Héraðsnefndar Árnesinga og Landverndar hafa látið hafa eftir sér opinberlega að þeir styðji verndun og uppbyggingu Laxabakka. Þvert á móti er sannleikurinn sá að þessir aðilar hafa aldrei komið þar nálægt verndun eða viðhaldi hvorki á húsum né tilheyrandi lóð, þrátt fyrir ítrekaðar og óviðeigandi yfirlýsingar um eignarhald. Aðkoma þessara aðila hefur einungis verið á einn veg; að koma í veg fyrir uppbyggilegar aðgerðir, m. a. með því að neita að skrifa undir lóðablað, halda uppi þráhyggjukenndum dylgjum um meint eignarhald og koma þannig í veg fyrir eðlilegan framgang framkvæmda- og byggingarleyfa, aðgengi að rafmagni og vatni, aðkomuleið og nauðsynlega vinnuaðstöðu. Þau hafa gengið svo langt að bjóða, með formlegum hætti, Íslenska bænum að afsala sér eignarhaldi á Laxabakka til Héraðsnefndarinnar og Landverndar svo þessir sömu aðilar geti síðan aftur leigt hluta af lóðinni til Íslenska bæjarins.

Nú stendur yfir friðunarferli á húsum og lóð Laxabakka. Mögulegt er að ef það ferli gengur í gegn takist að rjúfa umsátrið og Héraðsnefnd Árnesinga og Landvernd sjái sitt óvænna, dragi sig alfarið út úr neikvæðum afskiptum af þessu máli, viðurkenni lögmætt eignarhald og styðji menningar- og minjavernd í verki.

Hinn möguleikinn er sá að Héraðsnefnd Árnesinga ásamt Landvernd láti verða af hótunum um að draga Íslenska bæinn, eigendur og velunnara Laxabakka, fyrir dóm og setji þar með þessi verðmæti í gíslingu um árabil og sói um leið almannafé engum til gagns. Þetta yrði ekki bara aðför að Íslenska bænum og eigendum Laxabakka heldur um leið aðför að íslenskri menningu.

Hannes Lárusson forstöðumaður Íslenska torfbæjarins í Flóahreppi.

Nýjar fréttir