-5.4 C
Selfoss
Home Fréttir Uppáhalds hveitilausa pizzan

Uppáhalds hveitilausa pizzan

0
Uppáhalds hveitilausa pizzan
Viðar Þór Ástvaldsson.

Viðar Þór Ástvaldsson er sunnlenski matgæðingurinn. Takk kærlega fyrir áskorunina, Helgi. Eða ekki! Ég er Suðurlandsmeistari á grillinu en þar sem það er á fárra færi að leika það eftir þá gef ég hér uppskrift að hveitilausri pizzu sem er ekki grilluð. Þessi uppskrift er alltaf gómsæt og hægt er að leika sér með álegg og krydd. Ekki skemmir fyrir að hún fer vel í maga þar sem hún er hveitilaus.

Uppáhalds hveitilausa pizzan
170 gr. rifinn ostur
85 gr. möndlumjöl
2 msk. rjómaostur
1 egg
klípa af salti
1⁄2 tsk. þurrkað oregano eða gott pizzakrydd

Svona gerir þú

  1. Settu rjómaostinn og rifna ostinn í skál og inn í örbylgjuofninn á mesta hita í 1 mínútu. Taktu skálina út og hrærðu í blöndunni og settu hana svo aftur inn í 30 sekúndur.
  2. Bættu þá við restinni af hráefnunum og blandaðu þeim varlega saman með sleif.
  3. Settu blönduna á bökunarpappír og breiddu úr henni í þunnt lag með bökunarsleif.
  4. Stingdu allan botninn með gaffli, skelltu honum síðan inn í ofn í 12-15 mínútur eða þar til hann er farinn að fá smá gylltan lit. Taktu botninn þá út og settu á hann pizzasósu, ost (piparost, rjómaost og rifinn pizzaost) og álegg að eigin vali, síðan fer hann aftur inn þar til áleggið og osturinn er bakað, gott er að setja hvítlauksolíu og klettasalat á sneiðarnar og bara að njóta.

Hér kemur svo uppskriftin að graslaukssmjörinu sem Helgi bað um. Uppskriftin hljómar upp á slatta af mjúku smjöri og dass af graslauk úr garðinum og eitt til tvö hvítlauksrif (fer eftir skammtastærð). Galdurinn er síðan að blanda því saman með töfrasprota í stað þess að sneiða laukinn niður því það gefur meira bragð og fallegri lit.

Í eftirrétt mæli ég með að lesendur Dagskrárinnar geri jarðarberjakökuna sem Helgi deildi uppskrift að í síðustu viku. Hún er svo góð að það verður að hafa hana tvær vikur í röð.

Ég skora á félaga minn Ómar Ásgeirsson, sem fluttur er til Ástralíu, að vera næsti matgæðingur og bjóða upp á eitthvað gott. Ekki kengúrukjöt eða tarantúlur samt, takk.