-6.6 C
Selfoss

Guðdómleg klassík í Strandarkirkju á sunnudag

Vinsælast

Guðdómleg klassík er yfirskrift næstu tónleika á tónlistarhátíðinni Englar og menn í Strandarkirkju nk. sunnudag 28. júlí kl. 14.

Þar koma fram Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir sópran, sunnlendingurinn Egill Árni Pálsson tenór og Hrönn Helgadóttir organisti. Á efnisskránni eru íslensk sönglög eftir Eyþór Stefánsson, Jón Ásgeirsson og Gunnar Þórðarson ásamt aríum, dúettum og kirkjutónlist eftir R. Wagner, G. Verdi, J. Massenet, C. Gounod, Stradella o.fl. Þá verða frumflutt á tónleikunum tvö verk eftir Ólaf B. Ólafsson.

Egill Árni Pálsson lauk námi við Söngskólann í Reykjavík undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur. Hann lauk einnig söng- og söngkennaranámi frá David Jones Voice Studio í New York. Egill hefur starfað sem einsöngvari í þýskalandi og Bandaríkjunum síðan 2008. Hann hefur sungið mörg af stóru hlutverkum óperubókmenntanna á síðustu árum. Egill gaf út geisladiskinn Leiðsla, árið 2016 sem er samansafn af íslenskum sönglögum og dúettum. Hann situr í stjórnum Félags íslenskra tónlistarmanna, Fagfélags klassískra söngvara á Íslandi auk þess að vera formaður Félags íslenskra söngkennara.

Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir sópransöngkona stundaði nám við Söngskólann í Reykjavík og lauk burtfararprófi þaðan árið 2000. Að námi loknu í Reykjavík lá leiðin til Þýskalands þar sem Ingibjörg stundaði framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Nürnberg undir handleiðslu prófessors Arno Leicht, og lauk hún mastersnámi þaðan með láði í óperu og ljóðasöng sumarið 2005. Ingibjörg hefur komið fram á tónleikum sem einsöngvari við ýmis tækifæri og kirkjulegar athafnir, haldið fjölda tónleika, sungið á óperusviðum og einsöng með kórum og sinfóníuhljómsveitum m.a. í Þýskalandi, Austurríki, Frakklandi, Tékklandi og á Íslandi. Á árunum 2005–2012 starfaði Ingibjörg við Heilig-Geist Theater í Nürnberg og söng leiðandi sópranhlutverk í fjölda óperusýninga. Auk þess að starfa sem söngkona þá er Ingibjörg Aldís umsjónar- og tónlistarkennari við Klettaskóla í Reykjavík, og situr einnig í stjórn Félags íslenskra söngkennara.

Hrönn Helgadóttir hóf nám í píanóleik 8 ára gömul og lauk 7. stigs prófi frá Nýja Tónlistarskólanum vorið 1991 undir handleiðslu Rögnvaldar Sigurjónssonar. Sama ár hóf hún orgelnám við Tónskóla þjóðkirkjunnar og lauk þaðan 8. stigs prófi í orgelleik vorið 1997 undir handleiðslu Harðar Áskelssonar. Einnig stundaði hún söngnám og lauk 8. stigi frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 1998 og burtfararprófi í söng frá Tónlistarskólanum í Mosfellsbæ vorið 2004 þar sem Jón Þorsteinsson var söngkennari hennar. Hrönn hefur starfað fyrir Grafarholtssöfnuð síðan 2005 sem organisti og kórstjóri. Jafnhliða því starfi er Hrönn stjórnandi kórsins Vorboða í Mosfellsbæ.

Nýjar fréttir