-10.3 C
Selfoss
Home Fréttir Elja kammersveit verður á Sumartónleikum í Skálholti um helgina

Elja kammersveit verður á Sumartónleikum í Skálholti um helgina

0
Elja kammersveit verður á Sumartónleikum í Skálholti um helgina

Um liðna helgi fór fram Skálholtshátíð í blíðskaparveðri og margir góðir gestir sóttu Skálholt heim. Nú halda Sumartónleikar áfram um komandi helgi og ýmislegt áhugavert er á dagskrá.

Tíðin hefur verið góð í Skálholti í sumar, bæði hvað varðar tónlist og veður. Um komandi helgi hefst seinni helmingur hátíðarinnar. Að þessu sinni heimsækja Skálholt Elja kammersveit og þær Lene Langballe cornettoleikari og Lára Bryndís Eggertsdóttir orgelleikari.

Hefð er fyrir því að á undan fyrstu tónleikum helgarinnar sé haldinn fyrirlestur um málefni tengd staðnum eða hátíðinni. Að þessu sinni verður fyrirlestur um Skálholt, sjálfsmynd staðarins og tækifæri. Þar veltir Helga Ögmundsdóttir, formaður hollvinafélags Sumartónleika, upp hugmyndum og spurningum um Skálholt, sjálfsmynd staðarins og tækifæri. Fyrirlesturinn er í Skálholtsskóla og hefst kl. 13:00

Elja kammersveit.

Tónleikar laugardag og sunnudag kl. 14:00:

Eftir ólíkum leiðum

Á tónleikum Elju verður andlega hliðin innan heims nútímatónlistar skoðuð. Á efnisskránni eru verk eftir Báru Gísladóttur, Bergrúnu Snæbjörnsdóttur, Dobrinku Tabakovu, Guðmund Stein Gunnarsson og Tatjönu Kozlova-Johannes. Verkin sem flutt verða eru ólík en gera hvert og eitt grein fyrir innri ró, hvert á sinn hátt.

Kammersveitin Elja er skipuð ungu, íslensku tónlistarfólki sem eru flest vel á veg komin með að skapa sér sess sem einleikarar, hljómsveitarspilarar og við hljómsveitarstjórn. Markmið hljómsveitarinnar er að bjóða upp á kraftmikinn og lifandi tónlistarflutning með nánd við áhorfendur og mun hún takast á við allar þær stefnur og form sem hljóðfæraleikararnir leitast eftir að túlka.

Lene Langballe cornettoleikari.

Tónleikar laugardag kl. 16:00:

Cornetto – hljóðfæri mannsraddarinnar

Cornetto er ekki svo þekkt hljóðfæri í dag en á endurreisnartímanum og fyrri hluta barokktímans var það vinsælast af tréblásturs hljóðfærunum og var það mikið til vegna þess hversu það minnti á mannsröddina. Á tónleikunum mun danski cornetto og blokkflautuleikarinn Lene Langballe ásamt Láru Bryndísi Eggertsdóttur, orgel og semballeikara, flytja tónlist frá gullárum cornettosins verk tónskálda á borð við Frescobaldi, Fontana, Bassano og Dowland

Enginn aðgangseyrir er tekinn að tónleikum en tekið er á móti frjálsum framlögum.