-9.8 C
Selfoss

Skaftárhreppur til framtíðar

Vinsælast

Framtíðarsýn skiptir máli í hverju því sem við tökum okkur fyrir hendur. Sveitarstjórn Skaftárhrepps, ásamt fleirum, hefur unnið að því að móta stefnu um hvert sveitarfélagið vill stefna. Framtíðarsýn Skaftárhrepps er: Að verða eftirsóknarvert sveitarfélag þar sem heiðarleiki, samheldni, jafnræði og gagnkvæm virðing einkenna öfluga uppbyggingu. Samstarf einkenni samfélagið og íbúar séu jákvæðir og umburðarlyndir. Byggðir verði upp öflugir innviðir sér í lagi til stuðnings menntunar- og tómstundastarfi barna. Byggt verði upp dýnamískt samfélag þar sem kraftur, bjartsýni og frumkvæði ríki ásamt framsýni og metnaði.

Skaftárhreppur var eitt af þeim sveitarfélögum sem flokkaðist undir að vera Brothætt byggð fyrir fáum árum og var verkefninu valið nafnið Skaftárhreppur til framtíðar. Það var mikil fólksfækkun í hreppnum og lítil atvinna en þar hefur nú orðið mikill viðsnúningur. Sveitarstjórn Skaftárhrepps hefur ákveðið að horfa til framtíðar og nýta þá meðgjöf sem verið hefur á öllum sviðum og hafa Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til hliðsjónar við mótun framtíðarsýnar. Sveitarstjórnin fékk til liðs við sig Evu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra og stjórnendaráðgjafa hjá Podium ehf., sem stjórnaði vinnunni. Hér á eftir verður í stuttu máli sagt frá hver var afrakstur þessarar vinnu.

Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna eru mörg og vinnan fólst í því að velja það sem skiptir mestu máli í Skaftárhreppi. Það er mikilvægt að horfa yfir sviðið og velta fyrir sér í byrjun hvaða gildi fólk telur mikilvægust, áður en farið er að ræða hvað við viljum gera. Gildi er víðtækt siðferðilegt hugtak um verðmæti sem einkenna samfélög og einstaklinga. Best er að skýra merkingu orðsins gildi með því að hugsa til mismunandi samfélaga í heiminum. Eru sömu gildi í Kóreu, Keníu og á Kirkjubæjarklaustri? Gildi geta tekið mið af trú og hefðum og enduspegla verðmætamat samfélagsins. Þau gildi sem valin voru í Skaftárhreppi eru:

  • Virðing. Virðing fyrir þeim fjölbreyttu einstaklingum sem í sveitarfélaginu búa. Einnig fylgir því einlæg ósk um virðingu fyrir hinni einstöku náttúru sem er í sveitarfélaginu.
  • Jákvæðni. Með jákvæðni að leiðarljósi byggjum við upp samfélag þar sem íbúar og gestir eru ánægðir. Að takast á við breytingar og verkefni dagsins af jákvæðni er mikilvægt í framtíðarsamfélagi Skaftárhrepps.
  • Samstaða. Það er mikilvægt að sýna samstöðu og samkennd í því verkefni að byggja upp sterkt og gott samfélag þar sem allir njóta sín.
  • Sjálfbærni. Sveitarfélagið ætlar að leggja áherslu á sjálfbæra þróun samfélagsins á öllum sviðum og því verður sjálfbærni eitt af grunngildunum.
Þekkingarsetur mun verða í heimavistarálmum Kirkjubæjarskóla og þar verða líka skrifstofur Skaftárhrepps. Ljósmynd: LM.

Þegar búið var að velja gildin var farið að skoða hvaða heimsmarkmiðum SÞ er raunhæft að vinna að í byrjun. Valin voru fjögur markmið:

Heilsa og vellíðan. Þar er átt við að gæta þess að heilsugæslan, stofnanir fyrir börn og eldri borgara og fyrirtæki vinni að því að bæta heilsu og vellíðan. Aðstaða til íþróttaiðkunar er góð í hreppnum en alltaf má bæta aðstöðu og hvetja íbúa til að bæta eigin heilsu og vellíðan.

Nýsköpun og uppbygging. Grunnur að hverju samfélagi er að það sé vinna fyrir þá sem þar búa. Mikil uppbygging hefur verið síðustu ár, flest tengist ferðaþjónustu en margir aðrir möguleikar eru í sjónmáli. Þekkingarsetur rís á Kirkjubæjarklaustri innan skamms og þar með verða til margir möguleikar til vaxtar og samvinnu.

Sjálfbærar borgi og samfélög. Fólki var umhugað um að samfélagið verði byggt upp þannig að það ekki sé gengið á auðlindir, hvatt til minni neyslu og að endurvinnsla sorps verði sem best. Í vinnu við nýtt aðalskipulag verði ávallt haft í huga að gæta að náttúrunni og menningarminjum í umhverfi okkar. Skaftárhreppur mun vinna að þessu markmiði í samvinnu við Vatnajökulsþjóðgarð og Kötlu jarðvang.

Skaftárhreppur hefur stigið fyrsta skrefið í þeirri vegferð að vinna eftir heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna til að bæta líf okkar allra í Skaftárhreppi til framtíðar. Þessari vinnu verður haldið áfram og reynt eftir mætti að virða lýðræði og vinna í sátt og samlyndi við íbúa sveitarfélagsins.

Lilja Magnúsdóttir, kynningarfulltrúi Skaftárhrepps

Nýjar fréttir