-3.2 C
Selfoss
Home Fréttir Hveragerðisbær vílar og dílar með vörumerkið Eden

Hveragerðisbær vílar og dílar með vörumerkið Eden

0
Hveragerðisbær vílar og dílar með vörumerkið Eden
Njörður Sigurðsson.

Á fundi bæjarstjórnar Hveragerðis 13. júní sl. var tekin fyrir ósk eigenda nýrrar ísbúðar í Hveragerði að nota vörumerkið Eden sem Hveragerðisbær hefur einkaleyfi á í flokki veitingaþjónustu og garðræktar. Þetta mál er um margt sérkennilegt og snýst í raun um hvort að verkefni sveitarfélags sé að kaupa, eiga og úthluta vörumerkjum til einkaaðila og í raun vera að skipta sér af því hvað fyrirtæki mega heita.

Vörumerkið Eden keypt 2010
Aðdraganda málsins má rekja til 24. júní 2010 þegar bæjarstjóri Hveragerðisbæjar sendi inn umsókn til Einkaleyfastofu um skráningu á vörumerkinu Eden. Á þeim tíma var verið að byggja upp Eden að nýju eftir erfiðan rekstur árin á undan og opnaði Eden að nýju í byrjun júlí 2010. Þannig keypti bæjarstjóri Hveragerði vörumerkið Eden nokkrum dögum áður en Eden opnaði að nýju undir því heiti. Það var svo 22. júlí 2011 sem Eden varð eldri að bráð og brann til kaldra kola.

Samkvæmt upplýsingum í bókun meirihluta Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði á bæjarstjórnarfundi 13. júní sl. var vörumerkið Eden keypt árið 2010 til þess að vörumerkinu yrði haldið í Hveragerði og „það notað ef og þegar starfsemi er líktist sem mest þeirri starfsemi sem áður var í Eden yrði komið á laggirnar“. Þessi söguskoðun stenst þó enga skoðun þar sem vörumerkið var keypt áður en Eden brann og starfsemi lagðist niður eins og hefur komið fram.

Óeðlileg afskipti af atvinnulífinu
Það er mikilvægt að stjórnmálamenn, sem og embættismenn, hagi störfum sínum þannig að þeir leggi ekki stein í götu einkaaðila sem eru að byggja upp fyrirtæki og standa í rekstri umfram það sem nauðsynlegt er til að gæta almannahagsmuna. Augljóst er að eignarhald sveitarfélags á vörumerkjum einkafyrirtækja og afskipti af því hvað fyrirtæki mega heita er ekki til að gæta almannahagsmuna. Málið er einfaldlega að sveitarfélag á ekki að eiga vörumerki í þeim tilgangi að úthluta þeim til aðila sem meirihluti sveitarstjórnar telur þóknanlegt til að nota það. Það er heldur ekki hlutverk sveitarfélags að vera allt umlykjandi aðili sem kaupir vörumerki fyrirtækja sem enn eru í rekstri. Það eru óeðlileg afskipti af atvinnulífinu.

Hveragerðisbær selji vörumerkið Eden
Á fundi bæjarstjórnar lögðu bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis til að Hveragerðisbær seldi vörumerkið Eden og þá gætu allir sem áhuga hefðu að eiga og nota vörumerkið möguleika á að kaupa það. Þessa tillögu felldi meirihluti Sjálfstæðisflokksins ásamt fulltrúa Framsóknarflokksins. Jafnframt höfnuðu sömu aðilar ósk eigenda ísbúðarinnar að fá að nota vörumerkið Eden á fyrirtæki sitt. Með þessu kann meirihlutinn að hafa sett bæjarstjórn í vanda þegar kemur að því að ákveða hvernig rekstur sé þessu heiti þóknanlegt. Verður það að vera veitingaþjónusta í gróðurhúsi? Verða að vera spilakassar í húsinu og vélapi eins og var í Eden? Eða útskornar innréttingar eftir einn af listamönnum bæjarins? Hvenær verður fyrirtæki nógu verðugt til að bera heitið Eden? Slíkt mat verður alltaf huglægt. Nú liggur þetta huglæga mat hjá meirihluta Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði, að ákveða hver fái vörumerkið Eden til notkunar. Hvergerðingar hljóta að spyrja hvort að það sé eðlileg og gagnsæ stjórnsýsla.

Njörður Sigurðsson, bæjarfulltrúi í Hveragerði