-10.3 C
Selfoss

Tímamótasamþykktir í bæjarráði Árborgar

Vinsælast

Á fundi bæjarráðs Árborgar sem haldinn var 18. júlí sl. voru nokkur veigamikil mál tekin fyrir og samþykkt. Þar var samþykkt að auglýsa útboð vegna byggingar fyrsta áfanga fjölnota íþróttahúss. Einnig útboð á fyrsta áfanga af fimm í landi Bjarkar. Í þeim áfanga verða lóðir fyrir 200 íbúðir. Þá var á fundinum samþykkt að sveitarfélagið verji allt að 10 milljónum króna í kynningar- og ímyndarherferð þar sem áhugasöm fyrirtæki á svæðinu munu einnig taka þátt.

Tómas Ellert Tómasson bæjarfulltrúi í meirihlutanum var spurður hvað þessar samþykktir fela í sér.

Fyrsti áfangi fjölnota íþróttahúss að Engjavegi 50 á Selfossi. Mynd: Árborg.

Byrjað á fjölnota íþróttahúsi á Selfossi í haust
„Með þessari samþykkt um íþróttamannvirki á Selfossi er komið ákveðið skipulag sem hægt er að vinna með til framtíðar. Heildarstærðin á íþróttamannvirkjunum hér við Engjaveginn á Selfossi, þegar þær verða fullbúnar, verður um 22.000 fermetrar. Þetta verða nokkuð margir áfangar í heildina. Fjölnota íþróttahúsið, sem byrjað verður á, verður byggt í tveimur áföngum. Fyrri áfanginn sem við erum að fara í núna og skiptist í þrjá verkþætti er um 6.500 fermetrar, en það er um 2/3 af fullri stærð hússins. Við gerum ráð fyrir að hann verði tekinn í notkun haustið 2021. Vonandi geta framkvæmdir hafist strax í haust. Þar verður knattspyrnuvöllur í hálfri stærð og góð frjálsíþróttaaðstaða með hlaupa- og göngubrautum kringum völlinn. Höllin mun líka nýtast í ýmislegt annað eins og tónleika, sýningar o.fl.“

Fyrirhugað byggingarsvæði í landi Bjarkar. Mynd. Árborg.

200 íbúðir í fyrsta áfanga í landi Bjarkar
„Við áætlum að nýja hverfið í landi Bjarkar muni innihalda fullgert um 700 íbúðir og nýjan grunn-, leik- og tónlistarskóla. Deiliskipulaginu þar var aðeins breytt á þessu ári þannig að við erum að vinna eftir örlítið breyttu skipulagi sem er orðið mjög gott og aðlaðandi. Þetta verður í raun mjög glæsilegt og eftirsóknarvert hverfi að búa í. Í fyrsta áfanganum af fimm sem við ætlum að fara í núna eru um 200 íbúðir. Við búumst við því að byrjað verði á gatnagerðaframkvæmdum í haust og einhverjar byggingarhæfar lóðir verði tilbúnar næsta sumar. Stefnt er að því auglýsa í haust 140 lóðir í Bjarkarlandinu. Hinar 60 verða svo væntanlega auglýstar haustið 2020,“ segir Tómas Ellert.

Ímyndar- og kynningarherferð fyrir sveitarfélagið
„Við samþykktum að fara í ímyndar- og kynningarherferð og þá aðallega með fyrirtækjum og framkvæmdaaðilum hér á Selfossi. Megininntak átaksins verður að draga athygli að þeim jákvæðu breytingum sem hafa átt sér stað á Selfossi og þeim uppbyggjandi áhrifum sem þær munu hafa á næstu árum. Áhersluatriði átaksins verða mannlíf, vöxtur og náttúra. Samhliða verða Eyrarbakki, Stokkseyri og Sandvíkurhreppur kynntir sem áhugaverðir staðir til heimsókna, búsetu og atvinnureksturs. Það verða kannski annars konar kynningar á þeim stöðum. Það hefur aðeins vantað uppá slíkar kynningar eftir að Sveitarfélagið Árborg varð til. Þessir byggðakjarnar köfnuðu svolítið og Árborgarnafnið tók dálítið yfir.

Um 1990 gerðu Selfyssingar mikið í því að kynna bæinn sinn sem miðstöð verslunar og þjónustu og annars á Suðurlandi. Þá var gengið fram með það að Selfoss væri höfuðstaður Suðurlands þar sem vegir lágu til allra átta. Síðan sofnaði það eiginlega eftir sameininguna. Menn hafa fram að þessu verið of feimnir við að draga fram sérkenni byggðarkjarna sveitarfélagsins en sveitarfélagið var sett saman úr þremur bæjum og einum sveitahreppi árið 1998.

Tölvuteikning af nýja miðbænum á Selfossi.

Í þessari kynningu verður m.a. vakin athygli á nýja miðbænum og þeirri uppbyggingu sem sveitarfélagið er að fara af stað með í Bjarkarlandinu. Einnig nýju íþróttamannvirkjunum, nýjum grunnskóla í Bjarkarlandinu, nýjum leikskóla o.fl.

Fyrirtæki og framkvæmdaaðilar á Selfossi hafa sýnt mikinn áhuga á að koma að slíkri kynningarherferð, ásamt sveitarfélaginu, með það að markmiði að auðga mannlífið og fjölga hér tækifærum. Efni kynningarátaksins verður tekið upp nú í sumar og mun verða birt í flest öllum fjölmiðlum í haust og eftir áramót. Sérstök áhersla verður lögð á samfélagsmiðla, en einnig hefðbundna fjölmiðla.“

Bæjarfulltrúar meirihlutans í Árborg. F.v.: Helgi S. Haraldsson (B), Tómas Ellert Tómasson (M), Arna Ír Gunnarsdóttir (S), Eggert Valur Guðmundsson (S) og Sigurjón Vídalín Guðmundsson (Á).

Gott samstarf í meirihlutanum
Tómas Ellert var spurður hvernig það væri að taka þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem er í Sveitarfélaginu Árborg um þessar mundir.

„Það er náttúrulega gríðarlega margt sem er í gangi í sveitarfélaginu núna. Við fórum í skipulagsbreytingar sem hafa heppnast vel. Það er líka margt að gerast í fræðslumálunum og við höfum tekið umhverfismálin út fyrir sviga líka m.a. með því að setja á stofn umhverfisnefndina aftur. Sú nefnd mun m.a. koma að lausnum í fráveitumálum ásamt Eigna- og veitunefndinni, en við erum núna loksins komin með drög að nýju umhverfismati fyrir hreinsistöðina í hendurnar til rýni. Umhverfismatið verður svo sett í auglýsingu í byrjun haustsins. Það væri óskandi að hægt væri að byrja á fyrsta hluta þar strax á næsta ári því þetta mál hefur því miður tekið alltof langan tíma í undirbúningi og ekkert endilega við fyrri bæjarstjórnir að sakast í þeim efnum, þar sem að sveitarfélagið hefur þurft að eiga samtal vegna þessa við ráðuneyti, stofnanir ríkisins, hagsmunaaðila og fleiri aðila sem hafa tekið sinn tíma.

Þetta sveitarfélag er á fleygiferð og íbúum fjölgar ört. Núna frá 1. júní hafa t.d. bæst við 90 íbúar á Selfossi. Það er ekkert lát á íbúafjölguninni en það er bara skemmtilegt verkefni að takast á við. a.m.k. vildi ég ekki að það væri í hina áttina. Það er ákveðin áskorun að fást við þetta.

Sá meirihluti sem er núna til staðar í bæjarstjórninni er samansettur af fólki sem kemur úr ólíkum áttum. Okkur gengur ákaflega vel að vinna saman. Við skiptum með okkur verkum. Það vill bara þannig til að ég er í framkvæmdahliðinni svo eru aðrir sem sjá um fræðslumálin, félagsmálin, íþróttamálin og stjórnun bæjarstjórnarfundanna. Verkaskiptingin hefur heppnast mjög vel. Það á líka við í skipulagsmálunum. Við erum alltaf í góðu sambandi og hittumst vikulega til að fara yfir málin þannig að það verður alltaf betra og betra þetta samstarf okkar.“

Nýjar fréttir