-0.5 C
Selfoss
Home Fréttir Lambakjöt er uppáhalds hráefnið

Lambakjöt er uppáhalds hráefnið

0
Lambakjöt er uppáhalds hráefnið
Helgi J. Jóhannsson.

Matgæðingur vikunnar er Helgi J. Jóhannsson. Takk Stefán fyrir tækifærið að fá að láta ljós mitt skína sem matgæðingur. Það að setja fram uppskrift er heilmikil áskorun fyrir mig þar sem ég er ekki þekktur fyrir að fara mikið eftir þeim. Uppáhalds hráefnið mitt er án efa lambakjöt og oftar en ekki er úrbeiningarhnífurinn brúkaður þegar til stendur að elda slíkt. Listina að úrbeina lærði ég ungur að árum undir handleiðslu meistarans Ingólfs Bárðarsonar í Kjötvinnslu KÁ. Blessuð sé minning hans.

Sumarið er klárlega tíminn til að grilla lambakjötið en þegar ekki viðrar í það eða grillleiði gerir vart við sig er gott að eiga uppskrift sem fer í bakarofninn.

Uppskriftin sem ég ætla að bjóða ykkur upp á og hef notað með ýmsum tilbrigðum er uppskrift að úrbeinuðum lambahrygg með fyllingu.

 Lambahryggur með fyllingu
1 lambahryggur

Fylling:
3 stk. hvítlauksgeirar, saxaðir
1 krukka sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
hálft búnt fersk steinselja, gróft sökuð
1 krukka fetaostur (án olíunnar)
rósmarín eftir smekk
nýmalaður svartur pipar og salt

Hryggurinn er úrbeinaður þannig að byrjað er á að taka lundirnar frá og síðan er skorið á milli rifja og þess gætt að ekki sé skorið inn í vöðva. Skorið er síðan meðfram beini og frá hvorri hlið til að hryggurinn haldist heill. Hryggurinn er fituhreinsaður eins og hver og einn vill.

Öllu blandað saman sem á að fara í fyllinguna og fyllingin sett á miðju hryggsins og lundirnar ofan á fyllinguna. Kryddað með nýmöluðum svörtum pipar og salti.

Hryggnum lokað og hann vafinn þétt saman í rúllu og bundinn með sláturgarni svo hann haldist saman. Kryddað með salti og pipar.

Eldað í 180˚ heitum ofni í steikingarpotti. Tilfinningin og ilmurinn segir okkur hversu lengi skal elda hrygginn (um 45 mín. +) en gott er að taka lokið af steikingarpottinum í lokin og hækka hitastigið svo hann nái að brúnast. Mikilvægt er að hann fái að standa í ca. 10 mínútur í lokuðum pottinum eftir að hann kemur úr ofninum og áður en hann er skorinn. Ekki gleyma að taka garnið utan af hryggnum áður en skorið er. Soðið úr pottinum er notað í sósugerðina ásamt pipar og/eða villisveppaosti sem bræddur er við lágan hita í rjóma. Meðlæti eftir smekk.

Ég mæli eindregið með eftirrétti eftir góða máltíð og þar sem hvíti sykurinn er í sumarfríi hjá mér en rjóminn ekki þá er þessi terta mitt uppáhald að sinni. Veit ég fyrir víst að hörðustu sælkerar hafa fallið fyrir henni þessari.

Jarðarberjakaka

Botn:
1 bolli pekanhnetur
2 msk. brætt smjör

Hakkað í matvinnsluvél og svo þjappað í millistærð af formi. Bakað í ca. 10 mín. við 180˚. Kælt meðan fyllingin er útbúin.

Fylling:
1 1/2 bolli rjómi
230 g rjómaostur
1/2 bolli sukrin gold
1 bolli íslensk jarðarber, skorin í bita
1 tsk. Vanilludropar

Rjóminn þeyttur og settur til hliðar. Hræra saman í hrærivél, rjómaosti, sukrin gold, jarðarberjum og vanilludropum þar til blandan verður bleik og mjúk. Blanda þeytta rjómanum varlega saman við. Fyllingin sett á kaldan botninn og kakan fryst. Kökuna þarf að taka úr frysti ca. 20 mínútum áður en hún er borin fram en ég á að vísu oft erfitt með þennan biðtíma … Skreytið með jarðarberjum ef vill þegar borið er fram.

Ég skora á góðan félaga minn Viðar Þór Ástvaldsson sem næsta matgæðing, þó ekki væri nema til að fá hjá honum uppskriftina af grillsmjörinu góða með heimaræktaða graslauknum hans sem ég var svo heppinn að fá afleggjara af. Ég veit fyrir víst að Viðar er listakokkur.