Um liðna helgi voru stórkostlegir tónleikar með Siggu Eyrúnu og Kalla Olgeirs í troðfullri Sólheimakirkju. Þau er þekkt fyrir að skapa skemmtilega og huggulega stemningu með tónlistarflutningi sínum og það gerðu þau svo sannarlega. Á dagskrá voru uppáhalds lög þeirra, sérstaklega valin fyrir tilefnið. Mörg laganna voru þekkt önnur minna!, frábær blanda og fjölbreytt.
Unnur Malin í Sólheimakirkju á laugardaginn
Unnur Malín söngvaskáld heldur tónleika í Sólheimum laugardaginn 20. júlí nk. kl. 14 sem hluta af Menningarveislu Sólheima, og sem hluta af tónleikaröð hennar, Undurdjúp. Unnur Malín ferðaðist í maí á þessu ári með tónlist sína um Ítalíu, þar sem hún hélt tónleika víða um Ítalíuskagann fyrir heimamenn og ferðamenn þar í landi.
Unnur Malín hefur fengist við tónlist frá unga aldri. Hennar tónlistarnám hófst í Skólalúðrasveit Vesturbæjar þar sem hún lærði fyrst á trompet, svo faguróma (euphonium). Þá hefur hún alla tíð haft unun af að syngja, var í barnakórum og hóf svo söngnám við sextán ára aldur. Hún lagði stund á söngnám í jazzdeild FÍH og í óperudeild Söngskólans í Reykjavík. Hún hefur sungið með ótal kórum og hljómsveitum, má þar nefna Lúðrasveit Reykjavíkur, Kammerkór Suðurlands og reggísveitina Ojba Rasta. Þá hefur hún á undanförnum árum verið að sækja í sig veðrið sem tón- og söngvaskáld. Unnur þykir hafa mikið næmi fyrir litbrigðum í tónsköpun sinni og tónlist hennar hreyfir við áheyrendum. Þá semur Unnur Malín einnig ýmiss konar léttari verk og vílar ekki fyrir sér að standa ein á sviði frammi fyrir áheyrendum með aðeins gítarinn og rödd sína að vopni. Hljóðheimur Unnar Malínar er fjölbreyttur og áhugaverður, dramatískur og fyndinn, stundum bæði í senn. Unnur Malín spilar í Sólheimakirkju þann 20. júlí kl. 14:00.