-7.6 C
Selfoss

Hjólvitlausar konur á Selfossi

Vinsælast

Hjólahópurinn Hjólvitlausar á Selfossi hefur verið starfræktur óslitið síðan 1992. Hópinn skipa konur sem hafa unnið saman á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Sigríður Kristín Jóhannsdóttir hefur verið í hópnum frá upphafi. Við hittum hana að máli og fræddumst um tilurð hópsins.

Byrjuðum og gátum ekki hætt
„Upphaflega hjóluðum við á Hvolsvöll að heimsækja Guðfinnu ljósmóður sem bjó þar lengi. Við færðum henni meðal annars tré. Við sáum að við þyrftum aðeins að æfa okkur fyrir svo langa ferð. Það byrjaði því þannig að við hittumst öll þriðjudagskvöld kl. 19:30 og æfðum okkur fyrir ferðina með því að hjóla hér í kring. Það voru þó ekki allir sem trúðu því að við gætum þetta því það þótti svo langt. Ferðin gekk ljómandi vel og síðan þá höfum við ekki getað hætt og hittumst upp frá þessu á þriðjudagskvöldum frá maílokum fram í september.“

Markmið að njóta, ekki þjóta
Þriðjudagsæfingarnar byggja á því að hjólaðir eru um 20 km á hverju kvöldi. Þá er farin a.m.k. ein löng ferð yfir sumarið og gist. Meðal annars hefur verið farið í Þórsmörk, Vestmannaeyjar og Húsafelli, svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur hópurinn farið erlendis alls fjórum sinnum. Síðasta ferð var farin um Flóahrepp en myndin er af hópnum við Tré og list í Forsæti. „Það er svo mikil tenging við náttúruna. Við tókum meðal annars Langholtshringinn og Einbúa. Þá litum við í allar kirkjur á leiðinni og fórum í Tré og list. Svo kom fólk bara að spjalla við okkur á leiðinni. Ferðamátinn bíður upp á alls konar svona því ef við hefðum verið á bíl hefðum við ekki hitt þetta fólk eða upplifað náttúruna á sama hátt. Maður er svo nálægt náttúrunni, fuglunum, lífinu og fólkinu. Þegar við hjólum erum við ekkert að fylgjast með klukkunni. Við höfum sem viðmið að njóta en ekki þjóta. Og í þessum lengri ferðum er ferðin kannski ekki löng í kílómetrum en er kannski löng í klukkutímum. Við stoppum oft og gefum okkur tíma til þess að njóta og vera til.“

Hreyfa sig til heilsu og leggja inn í lífsbankann
Aðspurð að því hvað svona hópastarf gefi þeim segir Sigríður: „Þetta gefur okkur ótrúlega mikið. Við erum svo nánar eitthvað. Sem dæmi er hún Erla sem er hætt að hjóla með okkur en hún kemur og trússar fyrir okkur í löngu ferðunum og eldar fyrir okkur góðan mat. Hún er komin yfir áttrætt en er ein af hópnum. Þetta er svo þéttur og góður kjarni að fólk getur ekki hætt að vera með okkur. Þarna náum við saman hreyfingu og góðum félagsskap. Aldursbilið er líka breitt en sú yngsta er um fertugt og sú elsta að nálgast sjötugt sem eru að hjóla. Með þessu að þá erum við að hreyfa okkur til heilsu og leggja inn í lífsbankann,“ segir Sigríður að lokum.

Nýjar fréttir