-0.5 C
Selfoss

JÁVERK með mörg járn í eldinum á Suðurlandi

Vinsælast

Framkvæmdir við síðari áfanga íbúðabygginga við Austurveg 55 á Selfossi hófust um miðjan júní sl. Þar er um að ræða íbúðir sem ætlaðar eru fólki 55 ára og eldra. Í síðari áfanganum eru sams konar íbúðir og er nýbúið að byggja og afhenda í fyrri áfanganum. Áfangarnir verða samtengdir með sameiginlegan bílakjallara. Í fyrri hlutanum voru byggðar 28 íbúðir og í seinni hlutanum verða 27 íbúðir. Nú þegar er búið að selja 24 íbúðir í fyrri hlutanum. Sala á íbúðum í seinni hlutanum er ekki hafin en nú þegar er kominn biðlisti.

Axel Davíðsson, verkefnastjóri hjá JÁVERK ehf. Mynd: ÖG.

JÁVERK ehf. var verktaki við byggingu fyrri áfangans en keypti lóðina af Austurbæ fasteignafélagi ehf. og sér um alla þætti verksins í síðari hlutanum. „Við byrjuðum á síðari áfanganum um miðjan júní sl. Það þarf fyrst að fleyga fyrir bílakjallaranum og það tekur nokkurn tíma. Í bílakjallaranum er eitt stæði á hverja íbúð þannig að samtals verða þau 55. Við áformum að fyrstu steypur hefjist um miðjan ágúst og að þetta verði síðan fullbúið í febrúar mars 2021. Það liggur ekki fyrir hvernig sölunni verður háttað eða hvenær hún hefst. Það er mikið búið að selja af íbúðum fyrir þennan aldurshóp undanfarið og virðist vera ásókn í það,“ segir Axel Davíðsson verkefnastjóri hjá JÁVERK ehf.

Flott hverfi á Edenreit í Hveragerði
Fasteignaþróunarfélagið Suðursalir ehf. stendur að framkvæmdunum á Edenreit í Hveragerði í samstarfi við Arion banka. Verktaki við framkvæmdirnar er Jáverk ehf. Axel var spurður út í framkvæmdirnar.

„Við byrjuðum á Edenreitnum síðasta sumar en þar erum við með alla gatnagerð, lagnir og veitur í hverfið. Byggingaframkvæmdirnar hófust svo síðastliðið haust. Þar eru 77 íbúðir í heildina. Núna erum við með 25 íbúðir í byggingu. Af þeim eru fullbúnar fjórar íbúðir. Átta íbúðir verða svo fullbúnar eftir u.þ.b. mánuð. Síðan klárast væntanlega fjórar íbúðir í október og svo eitt níu íbúða hús í febrúar á næsta ári.

Byggingaframkvæmdir á Edenreit í Hveragerði. Mynd: ÖG.

Nú þegar eru hátt í 15 íbúðir seldar skilst mér. Sala þeirra byrjaði á sumardaginn fyrsta sl. Íbúðirnar eru frá 63 fermetrum upp í 83 fermetra. Minnstu íbúðirnar eru tveggja og þriggja herbergja og svo upp í fjögurra herbergja íbúðir,“ segir Axel.

Að sögn Axels er ætlunin að klára fyrst þessar 25 íbúðir og fara svo væntanlega í beinu framhaldi í restina ef markaðurinn kallar eftir því. „Þetta verður virkilega flott hverfi. Það er þarna torg með leiksvæði og svo verða fjögur gróðurhús sem að bærinn mun eiga. Þau verða leigð út til íbúanna ef þeir vilja standa í einhverri ræktun. Þetta er svona „Eden“ tenging.“ Verð íbúðanna á Eden reitnum í Hveragerði er frá 28 milljónum kr. upp undir 40 milljónir kr.

Fyrsta steypan í nýjum miðbæ á Selfossi. Leó Árnason og Guðjón Arngrímsson hjá Sigtúni þróunarfélagi handleika steypusílóið. Mynd: GPP.

Framkvæmdir við Miðbærinn á Selfossi hafnar
„Við buðum í þetta verk á sínum tíma og fengum það og vinnum það fyrir Sigtún þróunarfélag,“ segir Axel þegar rætt er um nýja miðbæinn á Selfossi en Jáverk sér um framkvæmdir þar. „Við höfum unnið með þeim í ýmsum breytingum og í kringum hönnunina og erum núna rétt að byrja. Fyrsta steypa var síðastliðinn föstudag. Þetta hefur dregist m.a. vegna þess að það eru verið að breyta þessu töluvert mikið til hins betra. Hönnunarferlið hefur tekið langan tíma. Við hefðum auðvitað viljað vera löngu byrjaðir. Við erum í raun núna að byrja á öllum áfanganum þó þessi fyrsta steypa hafi verið grunnar undir tvö hús. Hönnunin var tilbúin á þeim og því var byrjað þar. Þessi tvö hús nefnast Sigtún og Braunshús. Braunshús er uppsteypt steinhús en Sigtún timburhús að stæðstum hluta. Braunshúsið er ca. 450 fermetrar og Sigtún ca. 260 fermetrar. Síðan verður fljótlega byrjað á fleiri húsum. Það er allur áfanginn undir, okkar samningur kveður á um það. Það verða ekki byggð bara eitt og eitt hús. Það má því búast við að þetta fari fljótlega allt á fullt. Allur fyrsti áfanginn er þannig séð undir í einu.“

Húsið við Larsenstræti
Framkvæmdir við hús sem stendur við Larsenstræði á Selfossi, beint á móti Bónus, hófust sl. haust. Axel segir að þeir hafi ekki verið þar öllum stundum. „Við höfum tekið það verkefni með öðrum verkum. Höfum svolítið notað þetta sem íhlaupaverkefni. Húsið í heild sinni er um 1.000 fermetrar. Almar bakari opnaði um daginn í 300 fermetrum. Síðan verður Vínbúðin í rúmum 500 fermetrum. Það er búið að afhenda það húsnæði en þeir sjá sjálfir um að innrétta það þó við séum að vinna það fyrir þá. Síðan fer verslun Freistingasjoppunnar í 100 fermetra og snyrtistofa í 50 fermetra. Þar verður líklega opnað í júlí eða ágúst.“

Mörg járn í eldinum
„Verkefnin sem ég hef minnst á hér eru á Suðurlandi en þau eru bara brotabrot af okkar starfsemi. Stærstu verkefnin hjá okkur í dag eru í Reykjavík. Þar má nefna um 400 íbúðir fyrir Háskólann í Reykjavík, 15.500 m2 vöruhús fyrir Innnes ehf., 2000 m2 viðbygging við Álftanesskóla, 72 íbúðir fyrir Búseta við Árskóga í Mjódd, 80 íbúðir við Nýbýlaveg í Kópavogi, þjónustumiðstöð og 60 íbúðir við Sléttuveg í Reykjavík fyrir Hrafnistu og mörg fleiri verkefni,“ segir Axel að lokum.

Nýjar fréttir