-0.5 C
Selfoss

Hátíðarmessa, tónlist, erindi og gönguferðir á Skálholtshátíð

Vinsælast

Á Skálholtshátíð sem haldin verður helgina 20.–21. júlí nk. er hátíðarmessa og hátíðarsamkoma auk orgeltónleika Jóns Bjarnasonar á sunnudegi. Laugardagurinn 20. júlí er Þorláksmessa á sumri og þess vegna hefur Skálholthátíð verið haldin þessa helgi á hverju ári síðan 1949.

Aðalerindið í hátíðarsamkomunni kl. 16 flytur Bogi Ágústsson, sjónvarpsfréttamaður, en hann er jafnframt formaður Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar. Á samkomunni flytur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Siguður Ingi Jóhannesson, ávarp, og biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, ávarpar samkomuna, en sr. Elínborg Sturludóttir, dómkirkjuprestur, flytur stutt erindi um pílagrímagöngur. Á milli ávarpa syngur Skálholtskórinn og Jón Bjarnason leikur á orgel.

Laugardagurinn, Þorláksmessa, hefst með útimessu við Þorlákssæti kl. 9 árdegis og er hátíðin þá sett. Milli kl. 10 og kl. 12 er opið málþing með dr. Munib Younan, fyrrv. forseta Lútherska heimsambandsins og fyrrv. biskupi Jórdaníu og Landsins Helga. Mun hann fjalla um hlutverk trúarbragða við að koma á sáttargjörð og friði á átakasvæðum og mun koma inn á aðstæður í Austurlöndum nær og víðar um heim. Sú dagskrá er öllum opin og án aðgangseyris en það er nauðsynlegt að skrá sig á þann viðburð á heimasíðu Skálholts. Dr. Munib Younan mun einnig prédika í hátíðarmessunni á sunnudag klukkan tvö. Eftir hádegi á laugardag eru vettvangsferðir um uppgraftarsvæðið með Mjöll Snæsdóttur, fornleifafræðingi, og skoðunarferð um náttúrufar og gróður Skálholts.

Tónleikar Skálholtskórsins eru í Skálholtskirkju kl. 16 á Þorláksmessu. Tónlistin er eftir J.S. Bach. Skálholtskórinn syngur. Kórstjóri og organisti er Jón Bjarnason. Einsöngvari er Hildigunnur Einarsdóttir. Páll Palomares og Gunnhildur Daðadóttir leika á fiðlur og Þórarinn Már Baldursson á lágfiðlu. Selló: Hrafnkell Orri Egilsson leikur á selló og kontrabassaleikari er Alexandra Kjeld. Á óbó leika Matthías Nardeau, Össur Ingi Jónsson og Rögnvaldur Konráð Helgason.

Pílagrímagöngufólk kemur til hátíðarinnar og er gengið frá Bæ í Borgarfirði, Reynivöllum í Kjós, Ólafsvöllum á Skeiðum og Bræðratungu. Fólk getur skráð sig á þessa viðburði hvern fyrir sig á heimasíðu Skálholts.

Það er von vígslubiskupsins, sr. Kristjáns Björnssonar, og starfsfólksins í Skálholti, stjórnar Skálholts og Skálholtsfélagsins nýja að það komi sem flestir til hátíðarinnar og njóti þessarar veglegu dagskrár eða einstakra dagskrárliða.

Mynd:

(Skálholtskirkja inni)

Nýjar fréttir