-7 C
Selfoss

Eyrarbakki – söguleg byggð

Vinsælast

Eyrarbakki hefur sérstöðu meðal þéttbýlisstaða á Suðurlandi. Í þorpinu er varðveitt einstök, samfelld byggð húsa, sem reist voru á árunum 1880 til 1920, eða frá blómatíma Eyrarbakka sem höfuðstaðar Suðurlands. Eyrarbakki var miðstöð verslunar og viðskipta og hin forna Einarshöfn á Eyrarbakka var aðalhöfn Suðurlands nánast frá upphafi byggðar á Íslandi og fram undir síðari heimsstyrjöld.

Mörg þeirra húsa, sem reist voru kringum aldamótin 1900, eru enn uppistandandi og setja sterkan svip á götumyndina á Eyrarbakka. Af u.þ.b. 260 húsum í þorpinu eru 78 byggð 1919 eða fyrr, eða tæpur þriðjungur húsa. Samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012 eru öll hús sem eru 100 ára eða eldri friðuð. Aðeins eitt hús er friðlýst – Húsið sem reist var árið 1765 og er eitt elsta varðveitta timburhús á Íslandi. Húsið er sannkölluð þjóðargersemi.

Fjögur þessara húsa eru í eigu opinberra aðila – Húsið, Eyrarbakkakirkja, elsti hluti barnaskólans og elsti hluti fangelsisins á Litla-Hrauni. Önnur friðuð hús eru í eigu einstaklinga. Á undanförnum 40 árum hefur verið lyft grettistaki í varðveislu gömlu byggðarinnar á Eyrarbakka og flest friðuðu húsanna hafa fengið gott viðhald og endurbætur í anda húsverndar. Þannig hefur þessum mikilvæga menningararfi verið bjargað og varðveisla hans tryggð áfram.

Eigendur hafa margir hverjir fengið styrki úr húsafriðunarsjóði. Sjóðurinn var stofnaður með lögum árið 1975, en hlutverk er hans er „að stuðla að varðveislu og viðhaldi friðlýstra og friðaðra húsa og mannvirkja og veitir sjóðurinn styrki til viðhalds og endurbóta á friðlýstum og friðuðum húsum og mannvirkjum.“

Fyrsti styrkurinn úr húsafriðunarsjóði til endurbóta á húsi á Eyrarbakka var veittur árið 1979 og á þeim 40 árum sem liðin eru hafa 48 hús hlotið styrki úr sjóðnum, sum oftar en einu sinni. Alls hafa 135 styrkir verið veittir til verkefna á Eyrarbakka. Á verðlagi hvers árs er heildarfjárhæð styrkja 68,3 m.kr. en framreiknað m.v. byggingarvísitölu um 123 m.kr. Ljóst er að kostnaður húseigenda er margföld framangreind fjárhæð, en fjöldi styrkja sýnir hve hátt gamla byggðin á Eyrarbakka er metin með tilliti til húsverndar og varðveislu menningarminja. Rétt er geta þess að löngum hefur húsafriðunarsjóður verið fjárvana og framlög hins opinbera til sjóðsins í engu samræmi við þann mikla kostnað, sem fylgir varðveislu og viðhaldi friðlýstra og friðaðra húsa. Styrkir eru því í langflestum tilvikum aðeins lítið brot af framkvæmdakostnaði, og flestir aðeins táknræn viðurkenning.

Ferðamenn, bæði innlendir og erlendir, sem um Eyrarbakka fara ljúka allir lofsorði á hve vel hefur tekist til við að varðveita og viðhalda hinni gömlu byggð, þótt auðvitað hafi í tímans rás verið höggvin skörð í heildarmyndina með ýmsum hætti.

Árið 2015 samþykkti Alþingi lög um verndarsvæði í byggð. Markmið laganna er „að stuðla að vernd og varðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi og gilda lögin um byggð innan þéttbýlis og byggðarkjarna utan þéttbýlis sem ástæða er til að varðveita vegna svipmóts, menningarsögu eða listræns gildis.“ Það er sá ráðherra sem fer með málefni menningarminja sem tekur ákvörðun um vernd byggðar, skv. lögunum, að fenginni tillögu sveitarstjórnar eða Minjastofnunar Íslands.

Í leiðbeiningabæklingi Minjastofnunar Íslands segir m.a.: „Menningarsöguleg byggð hefur mikið gildi fyrir sveitarfélag og íbúa þess. Reynsla í nágrannalöndum sýnir að verndarsvæði í borgum og bæjum stuðla að því að auka vitund um þau verðmæti sem falin eru í eldri byggð, sögulegum byggingum og umhverfi þeirra. Markmið þess að gera byggð að verndarsvæði er að vernda menningarsöguleg og listræn verðmæti, bæta umhverfið og auka aðdráttarafl hverfa og bæjarhluta. Sögulegt umhverfi hefur mikið félagslegt og efnahagslegt gildi fyrir sveitarfélög og eykur lífsgæði íbúanna. Verndarsvæði í byggð verður iðulega eftirsóttur áfangastaður ferðamanna og þar skapast ný atvinnutækifæri.“

Magnús Karel Hannesson.

Á fundi bæjarráðs Sveitarfélagsins Árborgar í mars 2016 var að frumkvæði tveggja einstaklinga á Eyrarbakka ákveðið að fela framkvæmdastjóra sveitarfélagsins að vinna að því, að stór hluti þéttbýlisins á Eyrarbakka yrði afmarkaður sem sérstakt verndarsvæði, samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015.

Fjallað verður um verkefnið Eyrarbakki – verndarsvæði í byggð í næstu viku.

Magnús Karel Hannesson, íbúi á Eyrarbakka.

Nýjar fréttir