-10.9 C
Selfoss

Tilfinningarík stund er þau hittust eftir 40 ár

Vinsælast

Veturinn 1978-79 dvaldi Alda Sigurðardóttir, sem rekur Hannyrðabúðina á Selfossi, sem skiptinemi á vegum AFS í Texas í Bandaríkjunum. Á sama tíma voru 40 ungmenni frá 24 löndum sem skiptinemar á svæðinu samhliða Öldu. Þau kynntust afar vel á tveggja vikna rútuferðalagi þar sem meðal annars Hvíta húsið var heimsótt. Fólkið hefur ekki verið í sambandi að neinu ráði í þessi 40 ár sem liðin eru. „Maður var svolítið búinn að setja þetta á bakvið sig sem góða minningu. Svo kemur þetta upp, að hafa upp á öllu fólkinu, og skipuleggja endurfund á þessum tímamótum.“ segir Alda brosandi.

Tilfinningarík stund á BSÍ
Fyrstu endurfundirnir eftir allan þennan tíma urðu á BSÍ í Reykjavík þann 25. júní síðastliðinn. Þaðan var svo haldið til kvöldverðar á Selfossi. „Það var mikil eftirvænting hjá mér að hitta þau öll aftur. Mikil vinna hafði verið lögð í að finna hvar hver og einn var niður kominn og var ýmsum ráðum beitt. Eftirvæntingin fyrir deginum jókst svo eftir því sem nær dró. Svo kom að þessu” segir Ralph Künzler frá Sviss. „Mér finnst eins og ég hafi hitt þau fyrir tveim vikum síðast. Á sama tíma finnst mér eins og heil eilífð hafi liðið. Þetta er mjög undarleg tilfinning og ótrúlega sterk. Ég er ennþá í örlitlu uppnámi yfir þessu öllu saman. Ég held að það eigi við okkur öll sem erum hér. Þetta er alveg dásamlegt,“ segir Ralph að lokum. Alda bætir við að það sé pínulítið skondið að hitta þessa góðu vini eftir öll þessi ár. „Ég man röddina og andlitið og nú hitti ég þau og heyri röddina og sé að við berum öll einhver merki áranna, en brosin og hláturinn er sá sami svo mikið er víst.“ segir Alda hlæjandi þegar hún var spurð um hvernig henni var innanbrjósts þetta kvöld.

Alls komu 20 fyrrverandi skiptinemar auk 8 maka og einnar dóttur til landsins frá fjórum heimsálfum. Þar af eru tvær sem ferðast hafa alla leið frá Ástralíu.

Hér má sjá fána þeirra sem fóru í ferðina fyrir 40 árum. Þeir voru af 24 þjóðernum. Mynd: Aðsend.

Að verða ungur aftur
Þegar blaðamann bar að garði í Ártúni 3 á Selfossi þar sem hópurinn sat að snæðingi á heimili þeirra hjóna Öldu og Jóns Özurar á Selfossi var ljóst að hugur viðstaddra leitaði aftur í tímann þegar rifjaðar voru upp skemmtisögur frá dvölinni í Texas og ekki síður frá rútuferðinni forðum daga. Umsjónarmaður þeirrar ferðar var maður að nafni Peter McCandles sem sá um að halda aga á krökkunum. Hann rifjar upp sögu þegar hann var með þau á hátíðarsvæði við vatn. „Ég reyndi að rýna í mannfjöldann og sá bara hausa um allt og hugsaði með mér, guð minn góður, ég vona svo innilega að þau verði fjörutíu í rútunni á eftir, þetta var stundum mjög stressandi,“ sagði hann hlæjandi. Einhver sagði kankvís að hegðunin hefði nú almennt verið góð og Peter samsinnti því. Hann sagði jafnframt frá því brosandi að hann hefði nú náð einhverjum með opinn bjór sem ekki teldist við hæfi í ferðum á vegum AFS og uppskar hlátur allra viðstaddra. „Þetta er eins og að verða ungur aftur og ferðast aftur um áratugi,“ segir einn nemendanna hlæjandi. „Þetta er ótrúlega skrýtin og góð tilfinning.“

Upprunalegi hópurinn í rútuferðinni sem farin var fyrir 40 árum. Mynd: Aðsend.

Rútuferðin endurtekin um Suðurland
Að loknum kvöldverði var ferðinni heitið á Laugarvatn. „Þar er ætlunin að gista og njóta samverunnar næstu daga og fara í rútuferð í einn dag um Uppsveitirnar, annars bara að vera saman, rifja upp gamla tíma og segja frá hvað á dagana hefur drifið þessa fjóra áratugi. Vera saman og tala saman, það eru gömul einkunnarorð AFS, þannig eykst skilningur milli þjóða og hópa því þannig verður til andrúm fyrir friðsælli heimi,“ sagði Alda. „Við endum síðasta daginn á því að heimsækja Þingvelli og AFS á Íslandi hefur boðið okkur í móttöku af þessu tilefni en þar er einmitt unnið hörðum höndum þessa dagana í því að finna heimili fyrir skiptinema sem von er á í sumar.“

„Það er skemmtilegt að fara saman í rútfuerð eftir öll þessi ár og njóta þess að eyða þessum tíma saman. Íslensk náttúra er afar heillandi, þó ég hafi einungis eytt hér nokkrum tímum, þá eru ég og konan mín orðin mjög spennt að sjá meira,“ segir Thomas Mueller viðmælandi frá Þýskalandi að lokum.

Nýjar fréttir