-6.6 C
Selfoss
Home Fréttir Skólakennsla á unglingastigi í Bláskógabyggð

Skólakennsla á unglingastigi í Bláskógabyggð

0
Skólakennsla á unglingastigi í Bláskógabyggð
Bláskógaskóli Laugarvatni. Mynd: Bláskógabyggð.
Jón Snæbjörnsson og Þóra Þöll Meldal.

Þann 9. júní árið 2002 sameinuðust gömlu hrepparnir Biskupstungur, Laugardalur og Þingvallasveit, í Sveitarfélagið Bláskógabyggð. Í nóvember sama ár birtir Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri tillögur um fyrirkomulag skólamála þar sem segir m.a. að skóli sé lykilstoð hvers samfélags.

Í dag starfa tveir grunnskólar í Bláskógabyggð, á Laugarvatni og í Reykholti. Síðastliðin ár hafa nemendur á unglingastigi á Laugarvatni verið keyrðir yfir í Reykholt tvisvar í viku á skólatíma. Núverandi fyrirkomulag fær falleinkunn í nýlegri álitsgerð ráðgjafans Gunnars Gíslasonar. Það er óásættanlegt og breytinga er þörf.

Þann 18. júní síðastliðinn var samþykkt í skólanefnd Bláskógabyggðar að leggja til við sveitarstjórn að kennsla á unglingastigi, 8.–10. bekkur verði sameinuð og kennt verði í Bláskógaskóla Reykholti frá og með hausti 2019.

Færsla á kennslu unglingastigs á Laugarvatni yfir í Reykholt myndi styrkja stoðir samfélagsins þar á kostnað öflugs skólasamfélags á Laugarvatni. Að okkar mati er mikilvægt að skólarnir í sveitarfélaginu fái áfram að þróast sjálfstætt og skapa eigin sérstöðu.

Laugarvatn er í dag staður í sókn, þar er samrekinn leik- og grunnskóli sem er í auknu samstarfi við mennta- og háskóla (rannsóknarsetur) á staðnum. Sveitarfélagið rekur hér bæði íþróttahús og sundlaug ásamt því að leigja út Íþróttamiðstöðina til Ungmennabúða UMFÍ. Stefnt er að stofnun lýðháskóla UMFÍ á Laugarvatni og í umsögn sveitarstjórnar um frumvarp þess efnis segir m.a. að sú ríka hefð sem er fyrir margskonar menntastarfsemi á öllum skólastigum á Laugarvatni sé góður grunnur fyrir starfsemi lýðháskóla. Nýtt deiliskipulag er í vinnslu er leysa á þann hnút er helst hefur hamlað uppbyggingu á Laugarvatni, framboð á byggingarhæfum íbúðarlóðum.

Yfirmaður menntamála hjá OECD tiltók nýlega við komu sína til landsins, mikilvægi þess að kennarar kynnist nemendum sínum og að meiri áhersla sé á samstarf kennara. Tillaga skólastjórnenda Bláskógaskóla að Laugarvatni og í Reykholti að staðlotum verkefnamiðaðrar kennslu til skiptis innan skólanna á unglingastigi fer þessa leið og er að okkar mati eina skynsamlega framtíðarsýnin. Þessi tillaga felur ekki í sér kostnaðarauka, heldur í raun lægri kostnað þar sem skólaakstur minnkar verulega. Styðjum samstarf kennara og skóla er fá áfram að þróast og vaxa sem lykilstoðir öflugra samfélaga.

Jón Snæbjörnsson og Þóra Þöll, íbúar á Laugarvatni.