Rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á rútuslysi sem varð á Suðurlandsvegi við Hofgarð í Öræfum þann 16. maí s.l. er nú á lokametrunum og sérfræðigögn að skila sér inn eftir því sem vikurnar líða. Enn er þó beðið eftir einhverjum vottorðum um meiðsl einstakra farþega og má búast við að það taki einhvern tíma. Rannsókn á rútunni sjálfri gefur ekki tilefni til athugasemda og liggur fyrir að skv. ökurita hennar var henni ekki ekið umfram leyfðan hámarkshraða á veginum. Þá liggur fyrir að ökumaður hennar var ekki undir áhrifum áfengis eða vímuefna við aksturinn.
Slys þetta reyndi um margt á ýmsa þætti fjölmargra viðbragðsaðila vegna hópslysa. Þannig voru sjúklingar fluttir með flugvél LHG frá Höfn til Akureyrar, með þyrlu LHG og annarri slíkri af dönsku varðskipi til Reykjavíkur og að auki fór flugvél frá Norlandair tvær ferðir með sjúklinga frá Fagurhólsmýri á Selfoss. Þannig tókst með skjótum hætti að koma öllum aðilum úr slysinu á sjúkrastofnun án þess að viðkomandi þyrftu að fara langar leiðir í bílum af vettvangi. Það reyndist mikilvægt því enda þótt flestir farþeganna hafi við bráðaflokkun fengið matið „Grænn“ sem með ákveðinni einföldun þýðir „með meðvitund og getur gengið sjálfur af vettvangi“ þá voru áverkar þeirra alvarlegir og dæmi um að þeir hafi þurft umtalsverða læknisaðstoð þegar á leið. Þá þurfti heilbrigðisstarfsfólk og hjálparliðar Rkí að finna leiðir til að tengja fjölskyldur sem á stundum lentu á sitt hvorum landshlutanum þar sem hlúð var að meiðslum þeirra.
Rýnifundir viðbragðsaðila hafa verið haldnir og er það mat manna að í heild hafi aðgerðin tekist vel og vill lögreglan á Suðurlandi þakka öllum sem að málinu komu sérstaklega fyrir góð og vel unnin störf.
Ljóst er að öryggisbeltanotkun farþega rútunnar var lítil og jafnframt er ljóst að áverkar sem af slysinu hlutust hefðu orðið mun minni í mörgum tilfellum ef þau hefðu verið notuð.
Að rannsókn lokinni verður málið sent ákæruvaldi til ákvörðunar um framhald. Þá verða gögnin afhent Rannsóknarnefnd samgönguslysa til þóknanlegrar meðferðar.