-0.5 C
Selfoss
Home Fréttir Nýir skattar á færibandi í boði ríkisstjórnar

Nýir skattar á færibandi í boði ríkisstjórnar

0
Nýir skattar á færibandi í boði ríkisstjórnar
Birgir Þórarinsson.

„Það á ekki að hækka skatta á almenning í landinu, það á að hliðra til í skattkerfinu. Við viljum frekar horfa til þess að skattleggja þá efnamestu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna skömmu fyrir kosningarnar í október 2017. Eitt af fyrstu verkefnum ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var síðan að hækka umtalsvert kolefnisgjaldið. Gjaldið skilar á þessu ári 5,9 milljörðum króna í ríkissjóð og enn er fyrirhugað að hækka það. Bíleigendur bera aðeins ábyrgð á um 6% losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi en eru látnir greiða tæp 90% þeirra losunartengdu skatta sem hér eru innheimtir.

Í endurskoðaðri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2020–2024, sem samþykkt var á Alþingi í nýverið, er boðaður nýr skattur. Hér ræðir um sérstakt sorpgjald vegna urðunar og leggst á öll heimili og fyrirtæki í landinu. Auk þess er nýtt gjald á gróðurhúsalofttegundir í kæli- og frystitækjum. Þessir nýju skattar eiga að skila ríkissjóði 11,5 milljörðum. Engar skýringar eru gefnar á því hvað réttlætir þessa nýju skatta og hvers vegna heimilum landsmanna og atvinnufyrirtækjum er ætlað að bera þessa skattbyrgðar.

Miðflokkurinn vill lækka skatta á fólk og fyrirtæki eins og kostur er
Skattastefna ríkisstjórnar gengur þvert á stefnu Miðflokksins um að gæta hófs við skattlagningu og lækka skatta á fólk og fyrirtæki eins og kostur. Miklvægt er haga skattlagningu með þeim hætti að skilvirkni og jafnræði sitji í fyrirrúmi. Miðflokkurinn hefur margsinnis bent á að kolefnisskattinum er ekki jafnað niður á landsmenn með sanngjörnum hætti. Hann kemur verst niður á landsbyggðinni. Þá verður ekki séð á hvern hátt þessir nýju skattar geti haft jákvæð áhrif á efnahagslífið í þeirri niðursveiflu sem nú blasir við. Slíkir skattar gætu stuðlað að því að draga úr þrótti atvinnufyrirtækja og með því magnað þá erfiðleika sem fyrirtækin standa frammi fyrir. Skattar af þessu tagi stuðla ekki að því að fyrirtæki ráði til sín nýtt starfsfólk, auki fjárfestingar eða séu í færum til að bæta kjör starfsmanna sinna.

Sjálfstæðisflokkurinn framfylgir hugmyndafræði vinstri manna
Það eru mikil vonbrigði að Sjálfstæðisflokkurinn skuli enn og aftur undirgangast og framfylgja hugmyndafræði vinstri manna þegar kemur að skattamálum. Flokkur sem boðaði einfaldara skattkerfi og fækkun skattþrepa en gerir síðan þveröfugt, fjölgar sköttum og fjölgar skattþrepum. Það er af sem áður var þegar Sjálfstæðisflokkurinn gaf sig út fyrir það að vera talsmaður lægri skatta og draga úr ríkisbákninu. Það eru hrein öfugmæli.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi