7.3 C
Selfoss

Vaxandi líkur á að hlaup sé að hefjast í Múlakvísl

Vinsælast

Mælingar á Mýrdalsjökli benda til þess að hlaup geti komið í Múlakvísl á næstu vikum.  Ekki er búist við stóru hlaupi en þó nokkru stærri en sést hafa undanfarin átta ár.  Á síðustu árum hefur Jarðvísindastofnun Háskólans unnið að rannsóknum á sigkötlunum í Mýrdalsjökli, m.a. með nákvæmum íssjármælingum, sem geta sýnt hvort og hve mikið vatn hefur safnast fyrir undir einstökum kötlum. Niðurstöður mælinganna nú eru þær að nægt vatn hefur safnast undir jarðhitakatla í austurhluta Mýrdalsjökuls til að valda heldur stærra hlaupi en komið hafa undanfarin átta ár.  Verulegar líkur eru því á hlaupi í Múlakvísl á næstu dögum eða vikum.  Rennsli í flóðtoppi gæti orðið nokkru meira en varð 2017 en sennilega töluvert minna en 2011.

Á undanförnum árum hafa komið lítil jökulhlaup í Múlakvísl því sem næst árlega, nærri eða eftir mitt sumar þegar leysing á Mýrdalsjökli er í hámarki. Þessi hlaup eru það lítil að áin flæðir ekki út fyrir farveg sinn og hafa ekki valdið neinum skemmdum.  Ekkert slíkt hlaup kom þó á síðasta ári. Hlaupið fyrir tveimur árum, 2017, var í meira lagi, olli ekki skemmdum á vegum en því fylgdi mikil loftmengun af völdum brennisteinsvetnis.  Á síðustu 100 árum  eru allavega tvö dæmi um mun stærri hlaup í Múlakvísl, 1955 og 2011.  Hlaupið 2011 tók af brúna á þjóðvegi 1. Hámarksrennsli í hlaupinu árið 2017 er lauslega áætlað hafa verið nálægt 200 rúmmetrum á sekúndu niðri við þjóðveg 1, sem er um 20% hámarksrennslis hlaupsins 2011 á sama stað.

Undir Mýrdalsjökli er verulegur jarðhiti og myndar hann um 20 sigkatla á yfirborði jökulsins. Jarðhitinn bræðir jökulísinn og þetta bræðsluvatn safnast fyrir undir jarðhitakötlunum. Leysingavatn af yfirborði jökulsins nær einnig að einhverju marki að seytla niður í gegnum jökulinn og bætist við jarðhitavatnið sem þar er fyrir. Þegar nægilegt vatn hefur safnast saman brýtur það sér leið undir jökulinn og veldur hlaupi í ám.

Rétt er að benda á að hlaup úr jarðhitakötlum í Mýrdalsjökli geta runnið fram í Skálm að hluta.

Ferðaþjónustuaðilar sem sinna ferðaþjónustu á eða við jökulinn hafa verið upplýstir og farið verður nánar yfir mögulegar aðgerðir komi til hlaups.   Vísindamenn telja að einhver aðdragandi verði að hlaupinu og fyrir liggur að koma á næstu dögum upp sítengdum GPS mæli í einum af kötlum jökulsins til að fá lengri fyrirvara en þann sem fæst af því að fylgjast með óróa þegar hlaup er byrjað að ryðja sér leið undir jöklinum.

Ekki er talin þörf á sérstökum lokunum fyrir umferð að sinni en vandlega verður fylgst með ástandinu og gripið inn í ef vísbendingar eru um að hlaup sé að hefjast.

Hættur samfara hlaupum í Múlakvísl:

  1. Hlaupvatn getur teppt leið frá þjóðvegi 1 inn að Kötlujökli vestan við Hafursey.
  2. Hlaupvatn getur runnið yfir og teppt eða rofið þjóðveg 1 við brúna yfir Múlakvísl.
  3. Hlaupvatn getur teppt leið í Þakgil.
  4. Gasið brennisteinsvetni (H2S) getur verið í það miklu magni í andrúmslofti nærri ánni að það brenni slímhúðir í augum og í öndunarvegi.

Leiðbeiningar:

  1. Virðið lokanir og rýmingar ef til þeirra kemur.
  2. Haldið ykkur fjarri ánni þegar hlaup er í gangi.
  3. Forðist staði þar sem gasmengunar gætir svo sem meðfram ánni og lægðir nærri henni. Stöðvið ekki við brúna yfir Múlakvísl eða Skálm.

Nýjar fréttir