Hofland Eatery er nýr veitingastaður í Hveragerði sem er byggður á gömlum grunni. „Það var karl faðir minn og systir sem ráku hér svipaðan veitingastað undir Hofland nafninu. Nú er sá yngsti í fjölskyldunni að ríða á vaðið. Við hjónin, Tryggvi Hofland Sigurðsson og Hjördís Harpa Wiium Guðlaugsdóttir, stöndum að þessu saman. Við erum búin að gefa okkur góðan tíma í að undirbúa þetta og nú small allt saman og við búin að opna,“ segir Tryggvi.
Áherslan er á pizzurnar fyrst og fremst
„Áherslan á matseðlinum er á pizzurnar fyrst og fremst þó við séum með fleira spennandi. Við erum meðal annars með nautarif sem eru hægelduð í Bola, hamborgara og fleira spennandi,“ segir Tryggvi. Aðspurð segja þau að allar uppskirftirnar byggi á gömlum Hoflands hefðum sem margir þekkja. „Degið og sósan er sú sama og við gerum út á að hafa þetta matarmikið og gott,“ segja Hjördís Harpa og Tryggvi.
Persónulegt andrúmsloft og matseðill
Óhætt er að segja að andrúmsloftið sé afar persónulegt og þægilegt hjá þeim hjónum. „Við gerðum þetta mikið sjálf með aðstoð góðra vina og fólks í kringum okkur. Allir þeir sem komu að þessu eiga svo pizzu á seðlinum. Danni Ben hannaði og smíðaði innréttingarnar hér. Hann er nr. 1 á seðlinum „Danni Ben“ ég fæ svo að vera nr. 6, „Brjálaða mamman“ því ég á afmæli 6. ágúst,“ segir Hjördís Harpa brosandi. „Við viljum hafa þetta mjög persónulegt og staðurinn ber þess merki. Hér eru myndir á veggjum sem voru á gamla staðnum. Borðin hér inni eyddi ég mörgum kvöldum í að þurrka, pússa og lakkaði að lokum yfir. Bárujárnið er fengið úr þaki hér í bæ sem átti að henda,“ segir Tryggvi.