-6.3 C
Selfoss

Landvörður fjarlægir vörðu/vörtu í Þjórsárdal

Vinsælast

Margir landverðir hafa tileinkað sér nýtt orð yfir steinahrúgur eins og er á meðfylgjandi mynd, það er orðið varta. Sumir gestir náttúruverndarsvæða eiga það til að byggja vörður eða steinahrúgur sem þjóna engum tilgangi. Vörður sem gerðar voru hér á árum áður þjónuðu mikilvægum tilgangi, það er að vísa veginn og margar þeirra þjóna enn þeim tilgangi. Þessar vörður eru menningarminjar og varðveittar sem slíkar samkvæmt lögum. Steinum sem safnað er saman í vörður í dag á náttúruverndarsvæðum er jafn óðum eytt af landvörðum þar sem í raun er óheimilt að hrófla við jarðminjum. Steinar sem færðir eru til geta einnig skilið eftir sig ljót sár í grónu landi.

Alls 3219 steinar í steinahrúgu í Þjórsárdal

Helena landvörður í Þjórsárdal fjarlægði á dögunum steinahrúgu sem staðið hefur í þó nokkurn tíma á holti einu í nágrenni við Hjálparfoss. Vartan eða steinahrúgan taldi nákvæmlega 3219 steina og það tók Helenu 1 klukkustund og 18 mínútur að dreifa úr grjóthrúgunni. Á annarri myndinni sést þegar Helena fjarlægir síðasta steinninn og upprunaleg ásýnd svæðisins er endurheimt. Stöndum saman vörð um landið, gerum ekki óþarfa vörður og hvetjum aðra einnig til þess að gera það ekki.

Nýjar fréttir