Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar í Vík hefur lokið við smíði göngubrúar yfir Jökulsá í Lóni. Brúin eyðilagðist í aftakaveðri um síðustu áramót. Mikilvægt þótti að ráðast strax í smíði nýrrar brúar enda eru hún mikilvæg fyrir ferða- og göngufólk sem er á ferðinni um Lónsöræfi. Áin getur verið hættuleg á sumrin þeim sem reyna að vaða hana á leið inn að Múlaskála.
„Smíðin gekk mjög vel fyrir utan að við lentum í dálitlum töfum út af vindi,“ segir Sveinn Þórðarson brúarsmiður.
Allur búnaður til brúarsmíðinnar var fluttur með stórum ökutækjum sem óku upp með ánni en það er eina færa leiðin að brúarstæðinu. Hins vegar er aðeins hægt að aka upp ána þegar mjög lítið er í henni. Vegna mikilla hita lokaðist sú leið fyrr en ætlað var. „Vinnubrúin okkar og dálítið af verkfærum eru því enn upp við brúnna. Vinnubrúnna þurfum við að draga upp á land í vikunni og geyma fram að hausti, en verkfærin munum við ferja í bakpokum klukkutíma leið að Illakambi,“ lýsir Sveinn en þessi 2,5 km ganga er á köflum illfær og brött.
Mikið púl
Smíði brúarinnar hófst í byrjun maí en gólfið í hana var forsmíðað í einingum í Vík og Höfn. Farið var innúr 13. maí. Dvalið var í mislangan tíma í einu, frá fjórum dögum upp í níu en alls var unnið í 25 daga.
Inntur eftir því hvað hafi verið erfitt við þetta verkefni svarar Sveinn; „Líklega er það líkamlega erfiðið. Við vorum með gröfu sem gat aðstoðað við að losa og lesta bíla. Þegar búið var að setja upp turnana fór grafan niðurúr og þá þurfti að gera allt í höndum. Það var mikill burður á efni og menn voru gjörsamlega búnir eftir daginn. Í tvö skipti þurftum við líka að fara heim vegna mikils vindar sem hamlaði allri vinnu. Gangan að bílunum var mjög erfið, sérstaklega í Illakambi.“
Trivial Persuit á kvöldin
„Þegar mest lét störfuðu níu manns við brúarsmíðina en við fengum aðstöðu í skála Ferðafélags Austur Skaftfellinga sem stendur rétt hjá brúnni,“ segir Sveinn en skemmtileg stemning myndaðist í hópnum.
„Við erum svo sem vanir því að vera saman daga og nætur í vinnubúðum. En þarna voru menn ekki með sér herbergi og svo var hvorki símasamband eða netsamband. Því brugðu menn á það ráð að spila Trivial Persuit meðan kvöldmaturinn var undirbúinn.“ Sveinn segir að þetta hafi mælst svo vel fyrir að hópurinn hafi kallað eftir því að keypt verði Trivial Persuit til að hægt verði að spila á kvöldin í öðrum verkefnum líka.
Smíði brúarinnar var lokið 21. júní en 13. júní fengu fyrstu ferðamennirnir, hjón með tvö börn, að fara yfir brúnna. „Við finnum fyrir miklu þakklæti, sérstaklega frá fólki hér fyrir austan,“ segir Sveinn sem fannst afskaplega skemmtilegt að fá að taka þátt í þessu verkefni sem er aðeins öðruvísi en það sem vinnuflokkurinn er að fást við dags daglega.
Fyrsta brúin byggð 1952
Sveinn þekkir ágætlega sögu brúarinnar sem í raun má rekja aftur til aldamótanna 1900.
„Þá var byggður kláfur yfir ána af bændum sem þá bjuggu í Víðidal. Árið 1952 var kláfurinn orðinn lélegur og bændur og sveitarfélag ákváðu að byggja göngubrú enda landið mikilvægt upprekstrarland. Þá var gerður samningur við Vegagerðina um að hún legði til efni, hönnun og stjórnun á verkinu en bændur og sveitarfélög legðu til vinnu og flutning á efni. Efnið var svo flutt uppeftir á ís um veturinn og brúin smíðuð um sumarið. Sú brú hrundið árið 1967 og var þá aftur gerður samningur við Vegagerðina. Helgi Hallgrímsson, fyrrverandi vegamálastjóri, hannaði þá brú og verkstjóri frá stofnuninni stjórnaði aðgerðum. Þetta er ástæðan fyrir því að Vegagerðin kemur að þessari brúarsmíði nú en sveitarfélagið og ferðafélagið taka þátt í kostnaðinum.“
Fréttin birtist fyrst á vef Vegagerðarinnar hér