-1.5 C
Selfoss

Rangárþing Ultra heppnaðist vel

Vinsælast

Fjallahjólakeppnin Rangárþing Ultra fór fram föstudaginn 14. júní síðastliðinn í þriðja sinn. Keppnin er samstarfsverkefni Rangárþings eystra og Rangárþins ytra og hefur skipað sér sess hjá mörgu hjólreiðafólki á Íslandi.

Keppnin fór vel fram og voru viðbrögð keppenda og aðstandenda jákvæð og hefur umfjöllun um keppnina verið gríðarlega góð, enda lék veðurblíðan við keppendur og allir komu heilir í mark.

Vegna þurrka undanfarnar vikur í sveitarfélögunum reyndist brautin vera nokkuð strembnari en oft áður. Til að mynda var sandurinn við Helluvað og meðfram Þingskálavegi torfær svo hjólin skrikuðu hjá sumum og keðjur fóru undan hjá öðrum, þó flestir hafi farið í gegnum brautina án skakkafalla. Sérstaða keppninnar er að leiðin, sem er um 50 km löng milli Hellu og Hvolsvallar, kemur aldrei inn á þjóðveg 1.

Veitt voru verðlaun í fjórum flokkum, bæði karla og kvenna. Svona hljómuðu heildarúrslit fyrir besta tímann í braut:

Í kvennaflokki sigraði Ágústa Edda Björnsdóttir á tímanum 01:46:12 klst. Björk Kristjánsdóttir varð í öðru sæti á 01:50:3 og Hrefna Sigurbjörg Jóhannsdóttir í þriðja sæti á 01:56:11 klst.

Hjá körlunum sigraði Ingvar Ómarsson á tímanum 01:29:51 kl.st. Birkir Snær Ingvason varð í öðru sæti á 01:32:36 kl.st og Eyjólfur Guðgeirsson í þriðja sæti á 01:33:43 kl.st.

Alls spreytti 101 keppandi sig í brautinni þetta árið og vonast mótshaldarar til að fá enn fleiri á næsta ári. Keppnin verður haldin 12. júní 2020 svo fólk er beðið um að taka daginn frá.

Mótshaldarar vilja þakka Sláturfélagi Suðurlands fyrir myndarlegan stuðning við keppnina. Einnig Ungmennafélaginu Heklu, Björgunarsveitinni Dagrenningu, Flugbjörgunarsveitinni Hellu, starfsmönnum sveitarfélaganna, sem og öðrum sem lögðu hönd á plóg, fyrir sína aðkomu.

Nýjar fréttir