-6.6 C
Selfoss
Home Fréttir Ólíkir skólar fyrir ólíka einstaklinga

Ólíkir skólar fyrir ólíka einstaklinga

0
Ólíkir skólar fyrir ólíka einstaklinga
Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Skapandi og gagnrýnin hugsun, læsi og þátttaka í lýðræðissamfélagi verður áfram undirstaða íslenska skólakerfisins. Á dögunum samþykkti Alþingi frumvarp sem festir í sessi faglega umgjörð um starfsemi lýðskóla. Til þessa hefur ekki verið nein löggjöf í gildi um slíka skóla.

Meiri fjölbreytni – minna brottfall
Hlutverk lýðskóla er fyrst og fremst að búa nemendur undir lífið, gera þá að fjölhæfum einstaklingum og reiðubúna til að takast á við tilveruna. Fjölbreytni er menntakerfinu mikilvæg, nemendur hafa ólíkar þarfir og þeir þurfa að hafa val um sitt nám. Meðal ástæðna brotthvarfs úr framhaldsskólunum okkar er ákveðin einsleitni í námsvali og það að nemendur finna sig ekki í námi. Það er vel að fjölbreytni námsframboðs hér á landi hefur aukist, ekki síst á framhaldsskólastiginu og að fleiri nemendur séu opnir fyrir námskostum t.d. á sviði verk- og tæknigreina.

Lýðskóli á Laugarvatni
Lýðskólar vinna með lykilhæfni skólastarfs, líkt og kveðið er á um í aðalnámskrá framhaldsskóla, svo sem námshæfni, skapandi hugsun, sjálfbærni og lýðræðisleg vinnubrögð en meðal markmiða þeirra samkvæmt frumvarpinu verður að mæta áhuga og hæfileikum nemenda sem vilja átta sig betur á möguleikum sínum og stefnu í lífi og starfi. Í dag starfa LungA-skólinn og Lýðháskólinn á Flateyri eftir hugmyndafræði lýðskóla. Willum Þór Þórsson, hefur ásamt þingflokki Framsóknar, lagt fram þingsályktunartillögu um stofnun lýðskóla UMFÍ á Laugarvatni. Í greinargerð með tillögunni segir að áhugi sé fyrir stofnun lýðskóla á Laugarvatni með aðkomu menntamálayfirvalda og Bláskógabyggðar og að UMFÍ hafi nú þegar myndað samstarfsteymi við lýðskóla í Danmörku sem sé tilbúinn til að leggja sitt af mörkum í undirbúningi og framkvæmd. Nú þegar lagaumgjörð um lýðskóla liggur fyrir verður langþráður lýðskóli á Laugarvatni vonandi að veruleika.

Þjálfun í lýðræðislegri hugsun
Lýðskólar eiga sér langa sögu en Daninn N.F.S. Grundtvig er upphafsmaður þeirrar hugmyndafræði sem skólarnir byggjast á. Grundtvig kynnti á fjórða og fimmta áratug 19. aldar til sögunnar annars konar nám og menntun en hið hefðbundna bóklega nám. Það byggðist á markmiði um að mennta dönsk ungmenni í menningu og sögu auk þess að hvetja þau til þátttöku í lýðræðislegu samfélagi en lýðræðishugmyndir í Evrópu voru að ryðja sér til rúms um þetta leyti. Nemendur skyldu stýra skólanum og hlutverk kennara væri ekki að spyrja nemendur heldur svara spurningum þeirra. Áherslan skyldi vera á hið talaða orð, umræður og rökræður og þátttöku nemandans á öllum sviðum og búa þá þannig undir lífið. Ekki skyldu þreytt próf. Þá ættu nemendur og kennarar að búa á sama stað og markmiðið væri að nemendur tileinkuðu sér færni og þekkingu sem gagnaðist þeim í hinu daglega lífi. Fyrsti lýðskólinn var settur á laggirnar í Danmörku árið 1844 í Rødding í anda þessara hugmynda og starfar hann enn.

Hugmyndafræði lýðskóla á ekki síður erindi við samfélagið í dag en árið 1844.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins