-6.6 C
Selfoss
Home Fréttir Skólamál í Bláskógabyggð

Skólamál í Bláskógabyggð

0
Skólamál í Bláskógabyggð
Frá Laugarvatni í Bláskógabyggð.
Freyja Rós Haraldsdóttir.

Umræðan um skólana í Bláskógabyggð hefur marga anga og vandasamt að drepa þar niður fæti. Það verða seint allir sammála í þessum efnum en við verðum að leggja okkur fram um að skilja hvert annað og ná sem mestri sátt. Hér ætla ég að fjalla um nokkur atriði sem mér finnst vert að gefa gaum.

Fagmennska
Við erum rík af þremur góðum skólum. Öflugum skólasamfélögum, með sínum sérkennum og menningu, stefnum og áherslum. Samstarf varðandi kennslu á unglingastigi þarf hins vegar að bæta og lagðar hafa verið fram tillögur til að gera það. Nú hefur fyrirkomulagið verið þannig að unglingarnir á Laugarvatni eru keyrð í Reykholt tvo daga í viku. Tillaga skólastjórnenda er svohljóðandi (og rökstudd og útfærð nánar í aðgerðaáætlun sem finna má á heimasíðu skólans):

Horft til lotukennslu í [Bláskógaskóla Laugarvatni] og [Bláskógaskóla Reykholti]. Nemendur komi saman þrisvar á skólaárinu 3–5 daga í senn, í öðrum skólanum. Skipting verkefna á skóla fer eftir aðstöðu í hvorum skóla. Í þessum staðlotum yrði þematengd verkefnamiðuð kennsla. Umsjónarkennarar (o.e.a. aðrir kennarar) fari með nemendum sínum í þessar staðlotur og taki þar þátt í kennslunni fyrir alla nemendurna í hópnum (nemendur beggja skóla).

Athugið að ekki er verið að leggja til að hætta allri samvinnu á unglingastigi. Að sjálfsögðu er markmiðið að bæta hag unglinganna og tryggja gæði náms. Sjónarmið unglinganna sjálfra er meðal þess sem liggur að baki stefnumótuninni. Í skólunum okkar í Bláskógabyggð starfar fagfólk sem hefur sýnt að það er traustsins vert. Hlustum.

Undirbúningstíminn
Í samþykkt skólanefndar er gagnrýnt að tillaga skólastjórnenda sé sett fram með of stuttum fyrirvara. Sannleikurinn er hins vegar sá að vilji skólastjórnenda lá fyrir um vorið 2018 en talið erfitt að fara í breytingar í miðjum sveitarstjórnarkosningum. Eftir að skólanefnd og sveitarstjórn höfðu hummað þetta fram af sér í vetur og fram á sumar er því haldið fram að of lítill tími sé til stefnu til að hrinda hugmyndum skólastjórnenda í framkvæmd, þótt skólastjórnendur lýsi sig reiðubúna að vinna útfærsluna fyrir haustið. Skólanefnd leggur aftur á móti til að kenna öllum unglingunum í Reykholti strax frá og með haustinu – þótt álitsgjafinn Gunnar Gíslason taki fram að líklega þurfi sú leið lengri undirbúning. Að lokum var svo ákveðið í sveitarstjórn að starfa með óbreyttu sniði í haust, jafnvel þótt sú hugmynd sé sú eina sem hefur verið nánast slegin út af borðinu, bæði af skólastjórnendum og álitsgjafanum. Gott og vel – tímann á að nýta til víðtæks samráðs í von um að skapa meiri sátt. Vonandi skilar það árangri.

Álitsgerðin
Í vor var leitað til Gunnars Gíslasonar um ráðgjöf vegna skólamála í Bláskógabyggð. Það er gott og blessað að fá álit. Vel unnin álitsgerð þjónar þeim tilgangi að taka saman upplýsingar og rýna í þá kosti sem eru í stöðunni. Álitsgerðin getur gagnast þeim sem eiga að taka ákvörðun. Álitsgjafinn rökstyður sína niðurstöðu, en ekki er sjálfgefið að við tökum undir hana. Hvað finnst honum skipta máli? Hvað er lagt til grundvallar?

Í þessu tilviki gefur álitsgjafinn félagslega þættinum og fjármálunum það mikið vægi að hann telur rétt að mæla helst með sviðsmynd 3 (kennslu unglinga á einum stað). Annað fær minna vægi, eins og áhrifin af því að þurfa að skipta um skóla, að þurfa að sitja lengi í skólabíl og áhrifin á samfélagið í heild eru ekki til umræðu þarna.

Það er svo einföldun að láta eins og niðurstaða álitsins sé afgerandi. Sviðsmynd 2 (fara að tillögu skólastjórnenda) er talin hafa marga kosti og er alls ekki slegin út af borðinu í álitsgerð ráðgjafans. Áhugasamir geta lesið álitsgerðina á heimasíðu Bláskógaskóla á Laugarvatni.

Félagslegi þátturinn
„Ef horft er til félagsþroska er vænlegra að sameina unglingastigið“ segir í álitsgerð Gunnars. Þetta virðist vera stóra málið í huga margra og gengið út frá þessu sem sannindum. En er þetta endilega svona? Er það forsenda fyrir góðum félagsþroska að vera í stórum hópi jafnaldra í daglegu skólastarfi? Hversu stór þarf hópurinn að vera? Er nokkuð hægt að alhæfa í þessum efnum? Samkennsla í aldursblönduðum hópum getur ýtt undir félagsþroska, menningin og andinn á hverjum stað skiptir máli og samskiptin við fullorðna líka.

Það er hægt að styrkja samskipti unglinganna með ýmsu móti, t.d. með öflugri félagsmiðstöð, sameiginlegum ferðum og sameiginlegum þemavikum. Það er enginn að tala um að einangra þau frá jafnöldrum, heldur er stefnt að því að fara aðrar leiðir.

Fjármálin
Peningar skipta máli. Þeir skapa tækifæri og svigrúm til uppbyggingar og framkvæmda. Hagsýni er af hinu góða, en í hverju tilviki þarf að meta hvað er í húfi. Öflugt skólastarf á Laugarvatni, þar á meðal fyrir unglinga, er hjartans mál fyrir stóran hóp íbúa í Laugardalnum og Þingvallasveit.

Það er mitt mat, og ég veit að margir eru á sama máli, að menntun og velferð eigi að setja ofar hagkvæmni. Sérstaklega þegar miklir hagsmunir eru í húfi en fjárhagslegur ávinningur óverulegur í stóra samhenginu. Þetta er spurning um gildismat.

Hagsmunir
Sumir leggja áherslu á að Bláskógabyggð sé eitt sveitarfélag og gefa í skyn að hagsmunir allra íbúa séu þar með sameiginlegir. Svo er ekki alltaf. Bláskógabyggð er sameinað sveitarfélag með þremur byggðarkjörnum, ásamt dreifbýlinu umhverfis þau. Hagsmunir fólks innan sveitarfélagsins eru ólíkir, meðal annars eftir búsetu. Það er ekkert óeðlilegt við það og engin úlfúð þarf að fylgja því.

Vissulega gæti sveitarfélagið sem heild notið góðs af fjárhagslegum ávinningi. En það er fólkið í Laugardalnum og Þingvallasveit sem finnur með beinum hætti fyrir breytingum á skólastarfi á Laugarvatni, ekki Tungnamenn. Það er ósanngjarnt ef aðilar frá einum stað taka stórar ákvarðanir sem varða grundvallarmál fyrir íbúa á öðrum stað. Sérstaklega ef ákvörðun er í andstöðu við meirihlutavilja íbúanna sem málið varðar. Stundum er látið eins og lýðræði sé bara það að meirihlutinn ráði en lýðræði er miklu meira en það. Lýðræði krefst m.a. valddreifingar og umhyggju fyrir ólíkum sjónarmiðum og hagsmunum minnihlutans ef svo ber undir. Það eru hagsmunir okkar allra að búa í sveitarfélagi þar sem er borin virðing fyrir ólíkum aðstæðum og starfað í sátt við íbúa á hverjum stað. Þannig getum við verið góð heild.

Freyja Rós Haraldsdóttir, framhaldsskólakennari á Laugarvatni.

  1. júní 2019